Sunday, May 25, 2014
Ekki var það fallegt í Miami í gær
Það verður seint sagt að þriðji leikur Miami og Indiana í gærkvöld hafi verið mjög fallegur íþróttaleikur á að horfa. Sumt fólk hefur gaman af því að borða skemmdan mat og horfa á þætti eins og frúin fer sína leið og Útsvar. Kannski eru það slíkar manngerðir sem hafa gaman af svona leðjuslag eins og Miami og Indiana buðu upp á, a.m.k. í fyrri hálfleik í gær.
Liðin voru búin að skiptast á að vinna hvort annað í þrettán leikjum í röð, en allt í einu hefur Miami unnið tvo leiki í röð í þessu blóðuga einvígi austursins.
Meistararnir brunuðu fram úr Indiana á lokasprettinum í nótt og sigur Miami var svo öruggur í restina að fólk gleymir því hvað Indiana byrjaði miklu betur í leiknum.
Þetta er alltaf sama tuggan með þetta einvígi. Jú, jú, þessi lið spila bæði flottan varnarleik og hafa því að mestu skrúfað fyrir tilþrifakranana í sóknarleik hvors annars.
En góður varnarleikur á ekki að þýða að menn geti ekki hirt fráköst og hitt úr opnum skotum. Menn eins og Chris Bosh. Hversu lélegur er gaurinn þegar hann spilar á móti Indiana?
Þetta var retórísk spurning - við skulum svara henni fyrir ykkur.
Hann er skammarlega lélegur. Það er rándýrt að vera með 100 millón dollara manninn sinn á 25% spilagetu. Við segjum 25% af því hann hefur ekkert getað í sóknarleiknum og í besta falli verið hálfur maður í vörninni (sjá: Scola, Luis).
Það góða við þetta allt saman er að þeir LeBron James (58%) og Dwyane Wade (62%) halda áfram að hitta eins og Vilhjálmur Tell og skipta 48 stigunum sem þeir skila að meðaltali í leik gegn Indiana hnífjafnt á milli sín.
Til gamans má geta að Wade skoraði 18 stig að meðaltali í fyrstu tveimur umferðum úrslitakeppninnar.
Það hefur legið dálítið í spilunum síðan í leik tvö að Miami ætlaði að vinna þetta einvígi. Eða, þannig horfir það a.m.k. við okkur. Kannski af því sóknarleikur Miami er handónýtur, engu skárri en í fyrra - eða hreinlega árið þar áður ef því er að skipta. Þetta lið vantar leiðtoga sem tekið getur leikinn í sínar hendur og búið til stig úr engu.
Helsta efnið í slíkan mann hjá Pacers er Paul George, en hann er ekki alveg kominn á það plan, nú 24 vetra gamall. Þið vitið að öll lið með meistaravonir vantar svona neyðarkarl og ef George veldur því hlutverki ekki næsta vetur, þarf félagið ef til vill að reyna að finna hann á markaðnum.
Við áttum okkur ekki á því af hverju David West gerir ekki meira í sóknarleiknum hjá Indiana, sérstaklega þegar hann er dekkaður af lakkrísrörinu Rashard Lewis. Lewis á enga möguleika í West nálægt körfunni, en Indiana er um megn að koma boltanum á hann í þeirri stöðu.
Þá sjaldan að það tekst að koma boltanum á West í góðri stöðu eða jafnvel búa til opið þriggja stiga skot úr öðru hvoru horninu - verður ekki neitt úr neinu út af grenjusvipnum á George Hill.
Um leið og boltinn sér þessa föstu, óþolandi grettu í smettinu á Hill, tekur hann umsvifalaust þá ákvörðun að fara ekki svo mikið sem einu sinni ofan í körfuna það sem eftir lifir leiks.
Einhver verður bara að taka það á sig að slá Hill mjög fast utan undir - nú eða bara gefa honum almennilega á kjaftinn og sparka í Hibbertið á honum - til að reyna að fræsa þennan ófögnuð framan úr andlitinu á honum. Það sýður á okkur bara við tilhugsunina.
Já, Miami er komið í 2-1 og á eflaust eftir að klára þessa seríu nokkuð fagmannlega. En vitið þið hvað? Okkur finnst Miami samt langt frá sínu besta. Okkur finnst liðið eiga inni, þrátt fyrir fína spretti. LeBron á inni, hann getur miklu betur. Stundum er hreinlega eins og sé eitthvað að honum. Og reyndar fleirum.
Það er búið að vera fáránlegt að sjá öll þessi skipti sem leikmenn Miami hafa bara kastað boltanum upp í stúku eins og fífl eða hlaupið með boltann inn í þriggja manna pakka eins og asnar.
Kannski þarf Miami bara ekki að spila betur en þetta til að vinna Indiana. Kannski erum við allt of kröfuhorð og leiðinleg í garð Miami.
En það verður að teljast nokkuð gott hjá meisturunum að vera að vinna Indiana með heimavallarréttinn sinn heittelskaða - og það þrátt fyrir að það fái ekki skít frá Chris Bosh og að sumir leikmannanna séu á sjálfvirkri hraðastillingu.
Æ, það er komið alveg nóg af svona #&%$#&?* tuði. Það er oft á tíðum ekkert glæsilegt, en Miami er að gera það sem það þarf að gera.
Það er aðeins sex sigrum frá þvi að vinna meistaratitilinn þriðja árið í röð og hingað til hefur það bara gert það sem það hefur þurft að gera - ekki mikið meira.
Magnað að fólk (og við) sé með leiðindi út í lið sem hefur ekki gert annað af sér en að voga sér að tapa tveimur leikjum í úrslitakeppninni. Tveimur! Nákvæmlega!
Hey, förum bara með þetta alla leið úr því við erum komin svona fáránlega langt fram úr okkur.
Ekki vanmeta meistarahjartað, kreistarahjartað!
Heldurðu að þetta Miami-lið eigi séns (eða mensch af trefsch) í San Antonio eins og það er að spila þessa dagana. Þú veist, eins og San Antonio er að spila og eins og Miiiiiiami er að spila?
Pæld´aðeins í því.
Efnisflokkar:
Heat
,
Pacers
,
Úrslitakeppni 2014