Wednesday, May 28, 2014

Óvísindalegir tölfræðimolar úr úrslitakeppninni


Það er nákvæmlega engin hefð fyrir því að staldra við og skoða tölfræði leikmanna í miðri úrslitakeppni. Ástæðan er auðvitað ólíkar skammtastærðir - það er kannski ekki alveg lógík í því að bera saman menn sem spilað hafa sjö eða sautján leiki í úrslitakeppninni. Við gefum skít í þetta. Okkur langar að skoða aðeins tölfræðina og pæla dálítið í því hvaða menn hafa verið að standa sig vel í úrslitakeppninni og hverjir ekki. Það ætti ekki að særa neinn... hmmm, ha?

Ætli sé ekki best að klára það bara frá að dásama Russell Westbrook. Þið vitið hvað við elskum hann Russ. En hafið þið spáð aðeins í tölfræðina sem drengurinn er að bjóða upp á í úrslitakeppninni í vor? Hún er svo rosaleg að hún er líklega sú fallegasta í úrslitakeppninni í dag.

Svona að öllu gríni slepptu, eru þetta ekki bara tölurnar. Hvað eru margir leikmenn búnir að spila betur en Westbrook í úrslitakeppninni? 

Fullt af þeim, segja hatursmenn Russ. Það eru mennirnir sem sjá ekki annað en Vonda Russ - gaurinn sem tekur hræðileg skot, fær dæmda á sig ruðninga og kastar boltanum upp í stúku í staðinn fyrir að gefa hann á manninn við hliðina á sér.

Við erum alltaf að rífast við hatursmenn Russ, en margir þeirra fatta ekki ennþá að það er löngu, löngu, löngu orðið bæði þreytt og hallærislegt að dissa Russ. Það myndu allir vilja hafa Russ í sínu liði - mann eins og Russ - gaur sem er alltaf á útopnu, hræðist ekkert og berst til síðasta manns. 

Æ, já, og svo er hann víst með einhverja hæfileika líka. Nánar tiltekið 27 stig að meðaltali í leik og í kring um átta fráköst, átta stoðsendingar og tvo stolna bolta. Meira að segja LeBron James getur ekki státað af svona tölfræði. Og það er heila málið. Við vitum að þetta eru bara tölur, en þetta eru samt helvíti myndarlegar tölur!

Það eru bara þrír menn eftir í úrslitakeppninni sem eru með klikkaða tölfræði og tveir þeirra eru í sama liði. Við sögðum ykkur að Russ væri með 27/8/8 og félagi hans Kevin Durant er líka með mjög flotta tölfræði: 30/9/4/. 

Tölfræðitröllið LeBron James er svo sá þriðji en það sem hann hefur fram yfir þá félaga í Oklahoma er nýtingin. James er með 29/7/5 og tvo stolna, en meðan þeir Russ og KD eru að skjóta 42% og 46% - er LeBron að skjóta 57% og er líka með betri 3ja stiga nýtingu.

Fáir leikmenn hafa verið gagnrýndir eins hressilega og Paul George hjá Indiana, en staðreyndin er nú samt sú að það er ekkert að tölfræðinni hans þó eitthvað vanti upp á leiðtogahæfileikana. George er með 21/8/4, tvo stolna og 40% í þristum. Hann er að skila betri tölfræði á flestum sviðum leiksins en hann gerði í deildakeppninni, sem er auðvitað drullufín tölfræði þó ekki væri annað.

Og úr því við erum að tala um Indiana, þá er skondið að sjá að þeir Lance Stephenson og David West eru með nánast nákvæmlega sömu tölfræðina - 14 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.

Þó margir vilji eflaust meina að LeBron James sé með feitustu tölfræðina, ætlum við ekki að afhenda honum nein heiðursverðlaun. 

James er nefnilega búinn að vera að leika sér í úrslitakeppninni í austrinu á meðan KD og Russ er búnir að berjast fyrir lífi sínu á móti mjög sterkum liðum alveg síðan í fyrsta leik í úrslitakeppninni. Það er brandari að bera lið eins og Charlotte, Brooklyn og jafnvel Indiana, saman við lið eins og Memphis og Los Angeles Clippers.

Pældu í því ef Oklahoma og Miami hefðu skipt um sæti í apríl. Hvernig hefði Miami vegnað á móti tröllunum hjá Memphis og tvímenningi Chris Paul og Blake Griffin? Og heldurðu að Oklahoma hefði lent í vandræðum á móti Charlotte og Brooklyn? Nú eða Indiana ef út í það er farið?

Einmitt.

Það er líka gaman að skoða hinn endann á tölfræðisafninu. Gaurana sem gera ekkert. Eins og við sögðum hér áðan, er tölfræði ekki alfa og omega þegar kemur að því að mæla frammistöðu leikmanna. Hún getur hinsvegar gefið ágæta mynd af því hvað er í gangi hjá mönnum.

Þannig mætti ætla að miðherji á launum eins og Roy Hibbert ætti að skila betri tölfræði en níu stigum og fimm fráköstum - ekki síst þegar haft er í huga að tveir af þremur mótherjum Indiana í úrslitakeppninni hafa verið með öllu miðherjalausir. 

Hibbert til varnar verður að taka fram að hann getur náttúrulega ekki gefið boltann inn í teig á sjálfan sig, en ástæðan fyrir því að hann fær boltann svona sjaldan er líklega tvíþætt: Hibbert veit ekkert hvað hann er að gera þegar hann er með bakið í körfuna í sókninni - og jafnvel þó hann gæti það - kunna félagar hans ekki að koma boltanum á hann.

Sú staðreynd að Indiana fær allt of lítið af stigum nálægt körfunni skrifast auðvitað að hluta á leikstjórnanda liðsins, George Hill. Fólk er búið að vera að bíða ansi lengi eftir því að hann verði almennilegur leikmaður, en því er óhætt að hætta að bíða. Á þessari öld leikstjórnandans, þar sem öll lið virðast meira og minna vera með frábæran miðjubakvörð, er Hill (12/3/3) einn lélegasti byrjunarliðsmaðurinn í deildinni. 

Við vitum að Hill er ágætur varnarmaður og ásættanleg 3ja stiga skytta (37% á ferlinum), en okkur er alveg sama um það. Indiana þarf betri ás ef það ætlar á næsta stig, nema þeir Paul George og Lance Stephenson taki bara alfarið við leikstjórninni hjá liðinu. Það er svona eins og að stýra Stundinni okkar á sveppatrippi, það væri áhugavert en þú veist alveg að það endar í einhverri djöfulsins vitleysu.

Annar maður sem vinsælt er að hlæja að er Chris Bosh. Okkur er reyndar enginn hlátur í huga þegar við sjáum tölfræðina hjá mönnum eins og Bosh (og Hibbert). Við fyllumst bara gremju, af því sumir menn eiga bara ekki skilið sentimetrana sína. 

Bosh er stundum þannig. Hann er að afreka það sama og Hibbert hvað það varðar að hann er með lakari tölfræði í úrslitakeppninni en hann var með í deildakeppninni.

Það er afrek út af fyrir sig, því ekki var tölfræðin hans í vetur beint glæsileg. Bosh skilaði heilum 16 stigum og 6,6 fráköstum í leik í deildinni, en þrátt fyrir aukinn spilatíma, dettur hann niður í 14/5 í úrslitakeppninni. Og það er eftir að hann átti loksins almennilegan leik á mánudagskvöldið og skoraði 25 stig í fjórða leiknum við Indiana. 

Finnst þér þetta kannski í lakara lagi fyrir mann með tvöþúsundeitthundraðogfimmtíu milljónir í árslaun? Okkur finnst það - og gaurinn á bara eftir að hækka í launum næstu tvö árin.

Sem fyrr er hér ekkert talað um San Antonio Spurs, en ef þið eruð sár út af því, getið þið talað við Gregg Popovich og beðið hann að láta bestu mennina sína spila meira svo þeir skili einhverjum tölum. Menn eins og Tony Parker eru með ágætis tölur, en spila allt of lítið til að keppa við tölfræðitudda eins og þá sem við nefndum í upphafi greinarinnar.

Þetta var stutt pæling um áhugaverða einstaklingstölfræði í úrslitakeppninni. Við vitum að menn eins og til dæmis Chris Paul (20/4/10/3) og LaMarcus Aldridge (26/11) voru flottir líka, en við vorum meira að beina sjónum okkar að leikmönnum sem enn eru í eldlínunni. Þið vitið hvað okkur hættir til að missa okkur í tölfræðikláminu annað slagið.

Gute stunde.