Wednesday, May 28, 2014

Oklahoma jafnaði metin gegn San Antonio


Þetta er ekki árið 2012, sem betur fer fyrir San Antonio Spurs. Þá töpuðu þeir fjórum leikjum í röð fyrir sterku liði Oklahoma og fóru í sumarfrí eftir að hafa unnið 20 leiki í röð þar á undan. Nei, San Antonio getur huggað sig við að það er með betra lið í dag en árið 2012.

Gallinn er bara sá að Oklahoma er ekkert auðveldara við að eiga núna en þá. Það er vonlaust að eiga við þessa brjálæðinga og alla þessa lengd, þennan hraða, þennan kraft og þessar ungu hendur og fætur út um allt. Oklahoma er búið að jafna metin í 2-2 í einvíginu við San Antonio árið 2014, eftir öruggan 105-92 sigur í leik fjögur í nótt.
Það eru bara tveir hlutir öðruvísi við Oklahoma í dag og Oklahoma 2012. Annað atriðið er að James Harden dettur út og það veikir liðið auðvitað til muna, en hitt atriðið er að Kevin Durant, Russell Westbrook og Serge Ibaka eru allir árinu eldri og miklu betri en þeir voru fyrir tveimur árum (+ Reggie Jackson).


Við vitum alveg að við sögðum ykkur að þetta einvígi væri búið áður en það byrjaði, en það eina sem sá pistill gerði var að sýna hvað við höfðum rosalega rétt fyrir okkur þegar við sögðum að Oklahoma ætti ekki séns í Spurs án Serge Ibaka. Og hvað gerðist?

Oklahoma átti ekki séns í San Antonio án Serge Ibaka! Það lá í augum uppi!

En svo sneri Ibaka vinur okkar aftur og þá breyttist allt. Það fer reyndar í taugarnar á okkur að Oklahoma-menn hafi logið því að Ibaka yrði ekki meira með í úrslitakeppninni þegar þeir sáu strax eftir tvo daga að væri séns að lappa upp á hann, en við skulum ekki eyða tíma í þá gremju núna.

Þegar Ibaka kom aftur, mundu leikmenn Oklahoma nefnilega allt í einu að þeir hafa gjörsamlega átt San Antonio allar götur frá því þeir unnu þessa fjóra leiki í röð í úrslitakeppninni 2012. San Antonio hefur ekki
átt séns. Ekki meðan Ibaka spilar í það minnsta.

Og nú er svo komið að Oklahoma er til dæmis búið að vinna San Antonio níu sinnum í röð á heimavelli sínum í úrslitakeppni og deildakeppni. Þetta er lengsta taphrina Spurs á nokkrum útivelli síðan Gregg Popovich tók við liðinu fyrir tveimur áratugum

Eru leikmenn Spurs farnir að svitna núna og hugsa um það hvernig fór fyrir þeim gegn Oklahoma árið 2012? Nei, ekki mikið. Ef þetta væri eitthvað annað lið en San Antonio, kannski. Það eina sem vakir nú fyrir reynslumiklu liði San Antonio er að muna að því nægir að verja heimavöllinn til að fara í úrslitin.

Nú er hið sveiflukennda einvígi San Antonio og Oklahoma orðið að "best í þremur" seríu og tveir þessara leikja (ef með þarf) fara fram í San Antonio. Það er eins gott fyrir Spurs, því ef Oklahoma væri með heimavöllinn í þessu einvígi, værum við sennilega ekki að skrifa þennan pistil, heldur eitthvað á þá leið að: þeeeetta væri búið!

Nei, þetta er sko ekki búið. Það sem við erum að horfa á núna er alveg ný sería, þar sem leikar hafa jafnast til muna eftir að allir menn mættu til leiks (þó Ibaka sé ekki 100% og óvíst sé með þátttöku Reggie Jackson í leik fimm).

Næstu tveir leikir í þessu einvígi verða gjörsamlega bannaðir innan 18 ára. Eftir blástra fram og til baka í fyrstu fjórum leikjunum, ættu þeir sem eftir eru að verða svo jafnir að grípa þurfi til framlenginga. Það kæmi sannarlega ekki á óvart.

Það er ekki flókið að leikgreina fjórðu viðureignina í nótt. Hún var nokkurn veginn svona:

Russ var lengst af Góði Russ, var brjálaður í vörninni og skoraði fleiri stig en byrjunarlið San Antonio (40-39), Kevin Durant var frábær og lykilmenn Spurs náðu sér aldrei á strik. Mikilvægasta atriðið var svo varnarleikur Oklahoma, sem leyfði Spurs-sókninni aldrei að komast í gang. Bimm, bamm, búmm. Leikur.

Það verður svo gaman á fimmtudagskvöldið að það er strax byrjað að vera gaman.

Finnurðu það ekki?