Tuesday, May 27, 2014

Miami er komið með annan fótinn í úrslit


Eins vel og Indiana líður þegar það er litla liðið, þegar það er undir í seríu og enginn trúir á það - erum við ekki að sjá að það moki sig upp úr þessari holu. Það má vel vera að liðið nái að pappíra sig og vinna einn í viðbót á heimavelli á miðvikudagskvöldið, en það er alveg eins líklegt að það verði síðasti leikur Pacers í vor.

Miami sá til þess að Indiana sá aldrei til sólar í nótt þegar það komst í 3-1 í einvíginu með 102-90 sigri á heimavelli sínum í fjórða leiknum. Rúmlega 96 af 100 liðum sem komast í 3-1 í sjö leikja seríum ná að klára þær. Eins og staðan er núna, er Indiana ekki sérlega líklegt til að verða eitt af liðunum sem nær að bjarga sér úr slíkri krísu.

Indiana vann fyrsta leikinn af því Miami leyfði það, en síðan hafa meistararnir verið með yfirhöndina þegar þeir þurfa á því að halda - í lok leikjanna.

Það var líka fín hugmynd hjá Lance Stephenson að halda áfram að rífa kjaft við LeBron James og Dwyane Wade í fjölmiðlum. Það er alltaf hægt að skipta um nærbuxur ef maður drullar á sig. Eða þannig virðist það vera hjá Lance, sem þó verður að fá kúdós fyrir að halda þessu einvigi alltaf áhugaverðu hvað sem aðrir segja eða gera.

Spennan í fjórða leiknum varð aldrei mikil og okkur þykir ljóst að Miami sé að fara að vinna það 4-1 eða 4-2, svona ef við leyfum okkur að fara fram úr okkur eins og fólk gerir á internetinu árið 2014. Það sem hér fer á eftir er því hæperbóla og ótímabærar hugsanir handa þér.

Eins og venjulega, hafa meistarar Miami legið undir gagnrýni í þessari úrslitakeppni.


Það má vel vera að liðið hjá þeim sé ekki fullkomið - og það er það svo sannarlega ekki - en það er nú samt bara búið að tapa tveimur körfuboltaleikjum síðan úrslitakeppnin byrjaði þann 20. apríl og er einum sigri frá því að fara í lokaúrslitin fjórða árið í röð. Aðeins Boston Celtics (x2) og Los Angeles Lakers hafa afrekað það í sögu deildarinnar, svo Miami er að verða búið að rita nafn sitt í sögubækurnar hvað það varðar.

Það tryggir svo auðvitað stöðu sína sem NBA-veldi á sögulegum skala ef það nær að vinna titilinn þriðja árið í röð, en við skulum nú ekki fara að velta okkur upp úr því alveg strax.

Því er þó ekki að neita að þetta lítur vel út hjá LeBron og félögum og hver veit nema þeir verði svo heppnir að klára Indiana fljótlega og geti fyrir vikið tekið sér smá pásu á meðan vesturveldin reyna að drepa hvort annað.

Við treystum okkur ekki til að giska á það áður en þetta einvígi byrjaði, hvort við fengjum góða eða slæma Indiana í úrslitum Austurdeildarinnar. Í fyrsta leiknum fengum við sannarlega góða Indiana og þó að liðið hafi dottið niður inn á milli, hefur það líklega sýnt sæmilega góða spilamennsku lengur en við reiknuðum með.

Gallinn er bara sá að Miami er nákvæmlega sama.

Indiana hefur bara ekki burði til að vinna Miami í sjö leikja seríu. Það ætti að vera orðið ljóst nú þegar við erum farin að sjá fyrir endann á þriðja einvígi liðanna á jafnmörgum árum.

Indiana er ekkert að fara að vinna Miami með þessum mannskap ef allir eru heilir. Það eina sem getur breytt því í framtíðinni eru miklar mannabreytingar, ýmist vegna félagaskipta eða þá þegar eldri borgarar Miami fara á lífeyrir og hætta.

Svo er þessi LeBron James dálítið góður. Og það er Erik Spoelstra líka. Og þvílíkur munur að Chris Bosh skuli allt í einu fatta að hann geti spilað körfubolta og svona.

Indiana er lakara lið í ár en það var í fyrra, þrátt fyrir ágæta viðleitni stjórnarinnar til að laga veikleika þess eins og varamannabekkinn. Bekkurinn er ekki mikið betri hjá liðinu en hann var í fyrra, en gallinn er bara sá að núna eru byrjunarliðsmennirnir af og til í bullandi vandræðum.

Þeir spiluðu meira og minna vel í einvíginu við Miami í fyrra, en núna erum við að sjá svona prump eins og núll stig og fimm fráköst frá Roy Hibbert. Það er nóg til að gera hvaða mann sem er vitlausan.

Margir heimta eflaust að leikmannahópur Indiana verði stokkaður upp eftir öll þessi vandræði sem verið hafa á liðinu í vor, en eins og þið vitið, er afar sjaldgæft að farið sé í slíkar aðgerðir. Enn sjaldgæfara er svo að farið sé í þær hjá liðum sem hafna í 1. sæti í deildinni sinni og fara djúpt inn í úrslitakeppnina. Nei, slík lið eru "pússuð aðeins til" eins og við segjum.

Það er ekkert í spilunum sem segir að Indiana geti ekki náð efsta sætinu í Austurdeildinni næstu tvö ár með óbreyttan mannskap. Það væri hinsvegar mjög sterkur leikur ef Larry Bird og félagar gætu komist að því hvað fór úrskeiðis hjá liðinu í ár og reynt að leiðrétta það fyrir næsta vetur.

Nei, Indiana virðist ekki geta unnið Miami á meðan LeBron James er þar á bæ, en allt er breytingum háð. Nú er svo komið að breytinga gæti verið að vænta hjá Miami vegna samningastöðu sterkari leikmanna liðins og það mál fer bara á tvo vegu eins og þið vitið: Annað hvort verður liðið sterkara eða lakara.

Ef við þekkjum Pat Riley rétt, ætti Miami að verða sterkara. Það er fullt af kjaftasögum í gangi um að félagið nái að lokka til sín mann eins og Carmelo Anthony og það myndi augljóslega halda liðinu á kortinu eitthvað lengur.

Ef allt fer hinsvegar á versta veg og Miami dalar verulega, ætti Indiana að sjá sér leik á borði og vera tilbúið í að taka við keflinu í Austurdeildinni. Þó ekki væri nema þess vegna, liggur Indianamönnum örugglega ekkert á að gera stórar breytingar hjá sér. Sama hversu mikið Larry Bird hristir höfuðið yfir spilamennsku leikmanna sinna.