Við vissum öll að þetta gæti orðið erfitt hjá Oklahoma án Serge Ibaka. Kannski ekki alveg svona erfitt. Oklahoma átti möguleika í einhverjar tvær eða þrjár mínútur í fyrsta leiknum við San Antonio. Meira var það ekki.
Þið eruð öll búin að lesa þrjátíu og sjö greinar um það hvað Oklahoma saknaði Ibaka. San Antonio skoraði 66 stig inni í teig í leik eitt, sem er ómannúðlega mikið. Það eru til dæmis fleiri stig en allt Miami-liðið skoraði í fyrstu þremur leikhlutunum í sigrinum á Indiana í kvöld. Nei, við sögðum ykkur að þetta gæti orðið svona.
Það sem kom okkur kannski einna helst á óvart var hve óagaður leikurinn varð á kafla. Scott Brooks ræfillinn varð auðvitað að prófa sig áfram með þetta. Læra á flugi, eins og þeir segja.
Munið þið hvað Oklahoma átti rosalega erfitt uppdráttar án Russell Westbrook í úrslitakeppninni í fyrra? Það var ekki bara af því hann er frábær leikmaður, það var líka vegna þess að liðið hafði aldrei, aldrei, aldrei þurft að spila án hans.
Þetta nákvæmlega er uppi á teningnum með Ibaka-leysið hjá þeim. Ibaka er búinn að missa úr einhverja 3-4 leiki hjá liðinu síðan á nýliðaárinu sínu og það að missa hann og þurfa að fara út í einhverja tilraunastarfsemi í miðri úrslitakeppni - og það gegn San Antonio - er... ómögulegt.
Allar þessar improvisjónir, þar sem Kevin Durant þurfti m.a. að kljást við menn sem voru þyngri en bíllinn hans, gerðu nær út af við hann. Við höfum aldrei séð Kevin Durant svona gjörsamlega búinn á því í leik áður.
Stóra vandamálið sem við höfum verið að hamra á í allan vetur er líka að koma óþægilega í ljós fyrir Oklahoma núna. Scott Brooks getur orðið ekki réttlætt það að láta Thabo Sefolosha spila af því hann er gjörsamlega rúinn sjálfstrausti í sóknarleiknum.
Fyrir vikið er Oklahoma að spila 2 á 5 í sóknarleiknum í hverri einustu sókn og samherjar þeirra Durant og Westbrook geta ekki einu sinni teygt á gólfinu - hvað þá skorað eitthvað.
Það tekur þá enginn alvarlega og Spurs getur leyft sér að eyða öllu sínu púðri í Russ og KD. Segir sína sögu um hvað þeir eru ótrúlegir sóknarmenn að þeir skuli báðir ná sínu þrátt fyrir þetta.
Við segjum tveir á fimm, en þegar San Antonio er annars vegar, er það meira tveir á móti tíu. Þannig hefur liðið verið að spila síðan það kláraði Dallas. Höggin bara halda áfram að dynja á þér, alveg sama hver er inni á vellinum.
Það er allt að falla San Antonio í hag þessa stundina og við gátum ekki fundið neitt jákvætt til að segja um Oklahoma þrátt fyrir tólf tíma umhugsun.
Annar punktur sem fellur með Spurs og enginn hefur bent á:
Manu Ginobili var afleitur í fyrri hálfleiknum og var að hóta því að halda áfram að vera lélegur eins og hann var í Portland-seríunni, þó það hefði reyndar ekki skipt nokkru máli í því stutta einvígi.
En nei.
Í staðinn fyrir að setjast bara á bekkinn í fýlu, fékk hann að halda áfram að spila og skaut sig endanlega í gang þegar Spurs var að byrja að hoppa ofan á andlitinu á Oklahoma þegar skammt var eftir.
Þegar leiknum lauk, var Manu svo búinn að skjóta sig í stuð og allt í einu leit allt miklu betur út hjá honum - eina flippin´ manninum sem átti ekki óaðfinnanlegan leik hjá Spurs.
Tony Parker sagði öllum sem heyra vildu (og þjálfarinn hans tók undir það) að lærið á honum væri í fínasta lagi. Það er haugalygi og þeir sem þekkja leik hans sáu það augljóslega í þessum leik. Parker gengur ekki alveg heill til skógar, en það kom ekki að sök í þessum leik, hann kláraði verkefnið sitt með sóma þrátt fyrir það eins og fagmaðurinn sem hann er.
Fólk ætti að vera farið að átta sig á því að þú vinnur ekki San Antonio ef...
- Tim Duncan skorar 21 stig í fyrri hálfleik og fær að leika lausum hala í teignum
- Tony Parker er á pari
- Manu dettur í gang
- Kawhi Leonard er grimmur á báðum endum vallarins
- Menn eins og Danny Green eru sjóðandi fyrir utan
- Boris Diaw getur nýtt sér veika bletti á andstæðingunum
- Bekkurinn sem heild spilar vel
- Liðið hittir fáránlega vel og skorar meira en helminginn af stigum sínum í teignum
Vonandi nær Oklahoma að finna einhver svör við þessu sem í byrjun virkar eins og martröð.
Við gætum dottið í þá gryfju að benda á það að liðið hafi nú lent undir 2-0 á móti Spurs fyrir tveimur árum en samt unnið.
En það var þá og þetta er núna. Þá var Oklahoma með James Harden og Serge Ibaka.
Núna?
Það er oft þumalputtaregla í seríum í úrslitakeppni að liðið með besta leikmanninn vinni. Þessi regla verður sett ofan í skúffu og lögð af ef þetta einvígi fer eins og á horfir, því Oklahoma er líklega með tvo bestu leikmennina í einvíginu - en miðað við ófarir liðsins í fyrsta leik, er ekki að sjá að það muni fleyta því langt.