Sunday, October 30, 2011

Stórafmæli hjá Pétri


Körfuboltagoðsögnin Pétur Guðmundsson á afmæli í dag og óskum við honum til hamingju með það.

Miðherjinn fyrrverandi varð þess heiðurs aðnjótandi að verða fyrsti Evrópubúinn sem spilaði í NBA og er vitanlega eini Íslendingurinn sem spilað hefur í deildinni.

Pétur hóf NBA feril sinn hjá Portland Trailblazers leiktíðina 1981-82 og það vill svo skemmtilega til að það var einmitt á þessum degi fyrir sléttum 30 árum sem Portland spilaði opnunarleik vetrarins. Það var sigurleikur gegn Phoenix Suns.

Ef við gefum okkur að Pétur hafi komið við sögu í umræddum leik, sem er ekki ólíklegt því hann spilaði 68 leiki um veturinn, er ljóst að hann hefur spilað þennan tímamótaleik á afmælisdaginn sinn.

Við erum ekki með heimildir við höndina til að fletta þessu upp, en hvort sem Pétur kom við sögu þetta kvöld eða ekki, er gaman að staldra við og minnast merkra manna og góðra verka. Tíminn flýgur augljóslega í öllu sem tengist körfubolta,
einfaldlega af því hann er svo skemmtilegur.

Smelltu hérna til að lesa pistil sem Óskar Ófeigur Jónsson á Fréttablaðinu og Vísi skrifaði í tilefni af fimmtugsafmæli Péturs fyrir þremur árum.

Hver er maðurinn?


Á myndinni hér fyrir neðan má sjá tvo huggulega Þjóðverja etja kappi í NBA leik fyrir nokkrum árum.

Til vinstri er Seattle-maðurinn Detlef Schrempf sem lék til úrslita með liðinu árið 1996 en ungi maðurinn til hægri er auðvitað Dirk Nowitzki, sem tapaði einmitt í úrslitaeinvígi deildarinnar tíu árum síðar áður en hann krækti svo í dolluna í sumar sem leið. Þeir virðast hafa verið með sama rakara á þessum árum.

Það hefði verið gaman að veðja við einhvern eftir þennan leik um að Nowitzki ætti eftir að verða útnefndur bæði verðmætasti leikmaður deildarinnar og lokaúrslitanna í framtíðinni. Einhver hefði eflaust hlegið.

Flest ykkar þekkja eflaust þá Detlef og Dirk, en getur þú sagt okkur hver það er sem stendur á milli þeirra baka til?  Sendu svarið á nbaisland@gmail.com. Þú ert dálítið kúl ef þú ert með þetta.

Saturday, October 29, 2011

Tvífarar dagsins


Immit


   Nike segir...

















   LeBron segir...





















   Durant segir...

























   Einmitt!

Hann heillaði, Hólmurinn


Þá er tveggja vikna útlegð okkar í Hólminum lokið. Það hefði verið betra að fá fleiri leiki meðan á dvölinni stóð, því það er ekki margt annað að gera þarna fyrir vestan.



Þetta var þó mjög uppbyggilegur túr og heimamenn tóku vel á móti okkur. Það verður ekki tekið af þeim, þetta er eitt fallegasta pláss á landinu hvort sem hægt er að fá bernaise-sósu þar eður ei. Ritstjórnin er á betri stað en hún var þegar í Hólminn var haldið og er nú kominn aftur á skrifstofuna.



Það er veisla fram undan og hún hefst á morgun þegar KR tekur á móti Þórsurum úr Þorlákshöfn. Það ætti að verða okkur auðveldara að sinna ritstörfunum nú þegar við erum komin aftur í borgina og búin að ræsa Photoshop aftur.

Þökkum Hólmurum kærlega fyrir okkur. Það var gaman að sækja þá heim. Við verðum eitthvað meira á ferðinni utan höfuðborgarsvæðisins á næstunni. Landsbyggðin alla leið.

Wednesday, October 26, 2011

NBA Ísland fór á körfuboltaæfingu


Kíktum á æfingu hjá Snæfelli áðan. Það var bara ekki annað í boði eftir allt þetta körfuboltaleysi undanfarið - að ógleymdri þeirri staðreynd að við komumst ekki á Star-KR annað kvöld.

Hvað um það. Það var létt yfir Hólmurum eins og venjulega og þeir buðu fulltrúa NBA Ísland velkominn í þetta innlit. Kannski séð aumur á ræflinum þar sem hann stóð hokinn með myndavélina.

Glöggir taka eftir þvi að það var leynigestur á æfingu hjá Snæfelli. Var þarna á sinni annari æfingu. Pilturinn heitir Marquis Hall og ku vera nokkuð vel að sér í körfuboltafræðunum.

Hann leit amk mjög vel út í augum okkar viðvaninganna og ekki var annað að heyra á Hólmurum að þeir væru sammála, enda stefna þeir hátt eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.




Saturday, October 22, 2011

Bæjarleyfið byrjaði á Ásvöllum


Stálumst aðeins úr Hólminum og sáum Hauka liggja heima fyrir Stjörnunni á Ásvöllum í kvöld. Höfum smá áhyggjur af Haukaliðinu. Varnarleikurinn var á tíðum skelfilegur og það var eins og væri þungt yfir leikmönnum. Vantaði bæði stemningu og grimmd í þá rauðu. Það er auðvitað ekkert gleðiefni að hefja leiktíðina 0-3, en meistari Pétur Ingvarsson verður að reyna að kveikja betur í strákunum sínum. Þeir eiga að geta betur og hljóta að fara að snúa þessu við.

Það myndi strax hjálpa þeim ef fólk nennti að mæta á leikina. Ótrúlega fáir sem mættu á þennan grannaslag í kvöld og því heyrðist lítið nema bölvaður hávaðinn í trommunni sem einn áhorfenda mætti með á leikinn. Svona trommur hafa ekkert að gera á körfuboltaleiki. Sparið þær endilega fyrir handboltann, nú eða stofnið þungarokksband. Miklu meira vit í því.

Stjarnan rúllaði í gegn um þennan leik á krúskontról og byrjar leiktíðina 3-0. Reyndar á móti liðum sem eru samanlagt 0-9, en það er ekki þeim að kenna. Fyrsta alvöru prófið hjá Garðbæingum kemur strax á fimmtudaginn þegar KR mætir í Ásgarðinn. Það verður alveg æðislegt að missa af þeim leik. Engin takmörk fyrir því hvað Hólmurinn heillar okkur þessa dagana.


Sumir láta það koma sér á óvart að Þór frá Þorlákshöfn sé að byrja vel, en það er óþarfi. Þetta lið er ekkert rusl. Flott hjá þeim að skella Snæfelli í kvöld. Við vitum ekkert um þennan leik, en Snæfellsliðið á enn eftir að finna rétta gírinn. Voru heppnir að tapa ekki fyrir Haukum um daginn, straujuðu KR og tapa svo fyrir Þórsurum á flautunni í kvöld. Mætti halda að væri haust.

Við stefnum á að taka rándýrt roadtrip í Þorlákshöfn sem fyrst. Ekki ólíklegt að úr því verði jafnvel hópferð fjölmiðlamanna. Vonum bara að Græni drekinn láti athyglina ekki stíga sér til höfuðs. Þetta verður eitthvað.

Talandi um græna hluti á flugi. Ungliðasveit Njarðvíkur kom til jarðar í vesturbænum í kvöld. Það er annað lið sem við þurfum að fara að sjá.



Að lokum langar okkur að nota þetta tækifæri og senda batakveðjur í Breiðholtið. ÍR-ingarnir eru eitthvað farnir að týna tölunni í meiðsli eins og venjulega. Reglulega óþolandi þróun. Sérstaklega höfum við áhyggjur af Sveinbirni Claessen og hnénu hans. Vonum sannarlega að meiðsli hans og annara ÍR-inga séu ekki alvarleg. Tökum brjálæðiskast ef Sveinbjörn verður tekinn aftur úr umferð.

P.s. - Af hverju gáfuð þið okkur 50 Facebook-like á færslu um Veitingahúsagagnrýni?

Wednesday, October 19, 2011

Digranes í Hólminum: Veitingahúsagagnrýni


Þeir segja að ekkert jafnist á við Bernaise-borgarann á Narfeyrarstofu. Það var því ekki annað að gera en að smakka kvikindið. Við vitum af þremur viðskiptavinum í gegn um árin sem fengið hafa pakka-bernaise í stað alvöru. Það var áhættunnar virði að prófa. Ekkert annað til að éta.






























Spennan var því gríðarleg síðustu skrefin að þessu fallega húsi. Það var kalt í veðri og okkur var farið að hlakka til að komast inn í hlýjuna og takast á við Bernaise-bombuna - hvort sem hún kæmi úr pakka eða ekki.



Þessi skemmtilega saga verður ekki mikið lengri. Við komum að læstum dyrum. Opnunartími bæði á húsinu og á heimasíðu staðarins segir allt annað eins og þið sjáið á efri myndinni. Neðri myndin sýnir svo glöggt hvað það er helvíti mikið opið þarna.

Vel gert, Narfeyrarstofa.

Núll stjörnur af fimm.

Tuesday, October 18, 2011

Sígild æskulist


Listformið sem þú sérð hérna á myndinni á líklega eftir að standa lengi í mann- og fornleifafræðingum framtíðarinnar.

Þetta táknmál endurspeglar vinsælt tjáningarform ungmenna í plássunum umhverfis Ísland frá árinu 1980. 

Þetta eru klassísk rokkhljómsveitarnöfn, skorin og krössuð ofan í borð úr skólastofu úti á landi.

Það vekur upp svo mikla nostalgíu að sjá þetta.

Svona var þetta gert í okkar sveit í gamla daga, svona vitum við að þetta var gert fyrir norðan - og nú höfum við skjalfest það á þessu litla ferðalagi okkar í Stykkishólm að svona gera menn þetta líka á vesturlandinu. Listaverkið hér á myndinni var skrifað á borð sem staðsett var í óhefðbundinni blaðamannastúku Snæfellsliðsins.

Kannski er unga fólkið okkar ekki vonlaust eftir allt. Ekki nema hann Leifur, sem var einn þeirra sem settu nafnið sitt við þetta tiltekna verkefni, hafi verið ungur maður fyrir löngu síðan. Það kæmi svo sem ekki á óvart.

Skóþáttur Nonna Mæju


Það er gaman að fylgjast með Nonna Mæju spila körfubolta. Hann spilar leikinn á dálítið öðru plani en þeir sem í kring um hann eru. Átti ekki sinn besta leik þegar Snæfell burstaði KR í gær, en það kom ekki að sök.

Hann lenti í óvenjulegu atviki í miðjum leik þegar hann bókstaflega gekk af sér skóinn. Hann bara rifnaði í tvennt.

David Tairu hjá KR var með leikfésið á sér allan tímann og var auðvitað önugur yfir gangi mála eins og allir KR-ingar, en hann gat ekki annað en brosað þegar hann sá Jón Ólaf koma gangandi af velli í öðrum skónum og með hinn dinglandi í tveimur pörtum í hendinni.

Þessi uppákoma vakti mikla kátínu í stúkunni og þegar Jón Ólafur kom aftur inn á völlinn, nú klæddur í hvíta skó, sungu dömurnar í stúkunni:

"Nú er Nonn´á nýju skónum, nú er´að koma jól!"  

Mjög skemmtilegt móment.

Við erum ekki sérlega mannglöggir, en gott ef það er ekki sjálf Mæja sem situr þarna hjá dömunum syngjandi í stúkunni. Þið leiðréttið okkur með það ef okkur skjátlast það.

Mikið var gaman að koma í hólminn þó um haustleik væri að ræða.










Óþægileg endurkoma Emils í Hólminn


"Af hverju ertu í KR? Hvað ertu að gera í KR? Þú átt ekkert að vera í KR!" 

Eitthvað á þessa leið sagði ungur gutti þegar Emil Þór Jóhannsson gekk inn í Íþróttamiðstöðina í Stykkishólmi með félögum sínum í vesturbæjarliðinu í gærkvöldi.

Emil gat ekki annað en brosað, eins og fullorðna fólkið sem heyrði til. "Svona gerir maður ekki," sagði einn úr miðasölunni hjá Snæfelli þegar guttinn áttaði sig á því að fólki fannst það sem hann sagði fyndið - og byrjaði að kýla Emil í magann.

Svo héldu fyrrum félagar Emils í Snæfells-liðinu áfram að lemja hann þegar inn á völlinn var komið.

Kannski hefði hann átt að hugsa sig um tvisvar áður en hann yfirgaf Snæfell og fór í KR. En kannski vildi hann bara prófa að leika með báðum liðum eins og maðurinn sem er með honum á myndinni.

Hólmurinn heillar




Ritstjórnin heldur til í Stykkishólmi þessa dagana og er það vel á dögum sem þessum, þegar KR er í heimsókn. Hitastigið hefur ekki farið upp fyrir -18 gráður ef vindkæling er tekin með. Ef við værum ekki utan af landi, værum við búin að stimpla Hólminn skítapleis bara af því veðrið hefur ekki leikið við okkur. Hlökkum samt til að upplifa almennilegt veður hérna einn daginn.

Það er skömm frá því að segja að þetta er aðeins í annað sinn sem við heimsækjum þetta fallega bæjarfélag. Það er ekkert nema fáránlegt að þetta pláss, sem er á stærð við Eskifjörð, skuli hafa landað Íslands- og bikarmeistaratitli i körfubolta. Það verður bara ekki of oft sagt.

Það var ekki mikil spenna í leik KR og Snæfells. Heimamenn sáu til þess og unnu öruggan sigur. Það hefði verið gaman að setja inn myndir úr leiknum, en nettengingin sem er í boði hérna virðist ekki ráða við að setja þær hérna inn. Blessunarlega veldur það okkur engri sérstakri gremju eða neitt svoleiðis. Reynum aftur á morgun.

Saturday, October 15, 2011

Framúrakstur á Ásvöllum


Fjörugur leikur á Ásvöllum í kvöld. Haukar voru með þennan hnífjafna leik í höndum sér þegar skammt var til leiksloka, en það var greinilega ekki í kortunum að þeir fengju að vinna góðan sigur í fyrsta leik. Það er ekki hægt að kalla þetta annað en skitu, því miður. Sérð framúraksturinn vel á þessu skemmtilega grafi af vef Körfuknattleikssambandsins.















Það er samt gaman af þessu Haukaliði og það þarf ekki að hafa stórar áhyggjur þó fyrsti leikurinn hafi farið í vaskinn. Mjög skemmtilegt lið, sem gaman verður að fylgjast með í vetur. Snæfell er líka með hörkulið og það verður taumlaus gleði að sjá það taka á móti KR í sveitinni á mánudagskvöldið.



Þetta var skemmtilegur leikur en við erum enn að venjast því að horfa á körfuboltaleiki í gegn um myndavélarlinsu. Það kemur óneitanlega niður á áhorfinu að vera að mynda í leiðinni. Sýnir okkur bara hvað hugsjónamenn eins og Nonni á Körfunni eru að vinna gott starf. Forráðamenn félaganna ættu að taka í höndina á honum og þakka honum fyrir í hvert sinn sem þeir hitta hann. Og gera það vafalítið.


Það er dálítið af myndum hérna af Hólmaranum Quincy Hankins-Cole að troða körfuboltum. Hann stóð sig vel og skilaði 17 stigum og 15 fráköstum. Útnefnum hann því mann leiksins af því félagi hans Brandon Cotton (33 stig, 13-18 fg) gleymdi að gefa stoðsendingu í leiknum.

Thursday, October 13, 2011

Drekinn er kominn



Það er dásamlegt að geta sagt að Iceland Express deildin sé byrjuð á fullu. Við sáum KR eiga fullt í fangi með Þórsara frá Þorlákshöfn. Ljóst að nýliðarnir hafa alla burði til að ná í fullt af stigum ef þeir spila af sama krafti og í kvöld.

Á hinn bóginn verður að gefa KR strákunum kúdós fyrir að klára dæmið, en þeir þurfa auðvitað að stoppa upp í stór göt frá því í fyrra. Það verður að segjast eins og er að ánægjan af því að sjá þennan fjöruga leik er ekki alveg sú sama eftir að Ed Horton hjá KR var sóttur í DHL höllina á sjúkrabíl. Vonum sannarlega að meiðsli hans séu ekki alvarleg. Hann lenti víst í árekstri við tröllið Grétar Inga Erlendsson og verður ekki öfundaður af því.

Græni Drekinn, stuðningssveit Þórs, setti skemmtilegan svip á leikinn. Þeir tóku sér stöðu fyrir Miðju og létu dólgslega. Hvar eru harðlínustuðningsmenn KR? Fjölskyldufólkið á bandi þeirra svarthvítu mátti hafa sig allt við til að halda í við æsta stuðningsmenn Þórsara. Það er völlur á þeim og vonandi er þessi öflugi stuðningur kominn til að vera með liðinu í úrvalsdeildinni. Það er reglulegur sómi af svona stuðningssveitum ef þær gæta þess að fara ekki yfir strikið.

Prótótýpan var að detta í hús


Tuesday, October 11, 2011

Monday, October 10, 2011

Gleðilega hátíð


Auðvitað réðust úrslitin í fyrsta leik vetrarins á flautukörfu. Það bara segir sig sjálft. Frábær leikur í vesturbænum í kvöld, þar sem Páll Axel Vilbergsson tryggði Grindvíkingum sigur í meistarakeppninni 2011 á dramatískan hátt. Svona verður þetta í allan vetur krakkar. Endalaus skemmtun.

Hentum inn nokkrum myndum úr gleðinni hérna fyrir neðan. Þær eru misgóðar og útskýra sig að mestu sjálfar. Pax á eflaust eftir að kyssa Sigurð Þorsteinsson á ennið fyrir bear-hug-hindrunina sem hann setti á stóru strákana í KR og fyrir vikið fékk Grindavík galopið skot. Ekki verður deilt um tímavörslu hér, en þetta var allt of skemmtilegur endir til að eyðileggja hann með tækniatriðum.

Við höfum ekki hundsvit á körfubolta, en ef við héldum með Grindavík, myndum við krefjast þess að fá titil í hús með þetta lið í vor. Loksins kominn öflugur leikstjórnandi, hrikalegur fjarki á leiðinni og breiddin góð. Kannski ekki margar skyttur, en hvaða lið í deildinni er með margar skyttur?

Hvað um það. Kíktu á myndirnar. Nenntum ekki að merkja þær, svo farðu vel með þær.








Thursday, October 6, 2011

Wednesday, October 5, 2011

Með þeirra augum


Grant Hill er 39 ára í dag


Og hefur aldrei verið í betra formi.

Þetta hefði verið sjúkasti brandarinn í bókinni ef einhver hefði sagt hann árunum 2000-2006, en svona er nú lífið skrítið.

Hill er búinn að spila 82, 81 og 80 leiki á síðustu þremur tímabilum og hefur aldrei áður á ferlinum náð að spila svona marga leiki á þremur árum.

Samkvæmt lauslegri athugun okkar er hann næstelsti leikmaður deildarinnar á eftir Kurt Thomas, sem varð 39 ára í gær.

Grant Hill spilar ekki 80 leiki í vetur, það er að verða útséð með það. Kannski fáum við aldrei aftur að sjá hann spila í NBA.

Takk, Stern og co.

Þið eruð með þetta.

Bara í Rússlandi




Saturday, October 1, 2011

Haustdollur


Það er orðið ansi langt síðan við höfum farið á þrjá leiki á fjórum dögum, en mikið óskaplega var það nú gaman. Sáum KR leggja sprækt lið Fjölnis  í úrslitum Reykjavíkurmótsins á fimmtudagskvöldið og á föstudagskvöldið skellti Stjarnan Keflavík í úrslitum Reykjanesmótsins.

Eini gallinn við þessa veislu er sá að það er enn hálfur mánuður í að blessuð deildin fari af stað. Þetta er eins og að skella í sig fjórum bjórum en fara svo í kirkju í staðinn fyrir partí. En svona vilja menn hafa þetta, þeir um það. Þéttara prógramm í vetur í staðinn. Ætli við verðum ekki að fara á æfingaleiki til að drepa tímann fram að móti.

Annars er rétt að óska Stjörnunni og KR til hamingju með upphitunartitlana. Ætli þessi skemmtilegu lið verði ekki að elta þá stærri í vor. Mannskapurinn er til staðar í það.