Tuesday, October 18, 2011

Hólmurinn heillar
Ritstjórnin heldur til í Stykkishólmi þessa dagana og er það vel á dögum sem þessum, þegar KR er í heimsókn. Hitastigið hefur ekki farið upp fyrir -18 gráður ef vindkæling er tekin með. Ef við værum ekki utan af landi, værum við búin að stimpla Hólminn skítapleis bara af því veðrið hefur ekki leikið við okkur. Hlökkum samt til að upplifa almennilegt veður hérna einn daginn.

Það er skömm frá því að segja að þetta er aðeins í annað sinn sem við heimsækjum þetta fallega bæjarfélag. Það er ekkert nema fáránlegt að þetta pláss, sem er á stærð við Eskifjörð, skuli hafa landað Íslands- og bikarmeistaratitli i körfubolta. Það verður bara ekki of oft sagt.

Það var ekki mikil spenna í leik KR og Snæfells. Heimamenn sáu til þess og unnu öruggan sigur. Það hefði verið gaman að setja inn myndir úr leiknum, en nettengingin sem er í boði hérna virðist ekki ráða við að setja þær hérna inn. Blessunarlega veldur það okkur engri sérstakri gremju eða neitt svoleiðis. Reynum aftur á morgun.