Saturday, October 15, 2011

Framúrakstur á Ásvöllum


Fjörugur leikur á Ásvöllum í kvöld. Haukar voru með þennan hnífjafna leik í höndum sér þegar skammt var til leiksloka, en það var greinilega ekki í kortunum að þeir fengju að vinna góðan sigur í fyrsta leik. Það er ekki hægt að kalla þetta annað en skitu, því miður. Sérð framúraksturinn vel á þessu skemmtilega grafi af vef Körfuknattleikssambandsins.















Það er samt gaman af þessu Haukaliði og það þarf ekki að hafa stórar áhyggjur þó fyrsti leikurinn hafi farið í vaskinn. Mjög skemmtilegt lið, sem gaman verður að fylgjast með í vetur. Snæfell er líka með hörkulið og það verður taumlaus gleði að sjá það taka á móti KR í sveitinni á mánudagskvöldið.



Þetta var skemmtilegur leikur en við erum enn að venjast því að horfa á körfuboltaleiki í gegn um myndavélarlinsu. Það kemur óneitanlega niður á áhorfinu að vera að mynda í leiðinni. Sýnir okkur bara hvað hugsjónamenn eins og Nonni á Körfunni eru að vinna gott starf. Forráðamenn félaganna ættu að taka í höndina á honum og þakka honum fyrir í hvert sinn sem þeir hitta hann. Og gera það vafalítið.


Það er dálítið af myndum hérna af Hólmaranum Quincy Hankins-Cole að troða körfuboltum. Hann stóð sig vel og skilaði 17 stigum og 15 fráköstum. Útnefnum hann því mann leiksins af því félagi hans Brandon Cotton (33 stig, 13-18 fg) gleymdi að gefa stoðsendingu í leiknum.