Thursday, October 13, 2011

Drekinn er kominn



Það er dásamlegt að geta sagt að Iceland Express deildin sé byrjuð á fullu. Við sáum KR eiga fullt í fangi með Þórsara frá Þorlákshöfn. Ljóst að nýliðarnir hafa alla burði til að ná í fullt af stigum ef þeir spila af sama krafti og í kvöld.

Á hinn bóginn verður að gefa KR strákunum kúdós fyrir að klára dæmið, en þeir þurfa auðvitað að stoppa upp í stór göt frá því í fyrra. Það verður að segjast eins og er að ánægjan af því að sjá þennan fjöruga leik er ekki alveg sú sama eftir að Ed Horton hjá KR var sóttur í DHL höllina á sjúkrabíl. Vonum sannarlega að meiðsli hans séu ekki alvarleg. Hann lenti víst í árekstri við tröllið Grétar Inga Erlendsson og verður ekki öfundaður af því.

Græni Drekinn, stuðningssveit Þórs, setti skemmtilegan svip á leikinn. Þeir tóku sér stöðu fyrir Miðju og létu dólgslega. Hvar eru harðlínustuðningsmenn KR? Fjölskyldufólkið á bandi þeirra svarthvítu mátti hafa sig allt við til að halda í við æsta stuðningsmenn Þórsara. Það er völlur á þeim og vonandi er þessi öflugi stuðningur kominn til að vera með liðinu í úrvalsdeildinni. Það er reglulegur sómi af svona stuðningssveitum ef þær gæta þess að fara ekki yfir strikið.