Saturday, October 1, 2011
Haustdollur
Það er orðið ansi langt síðan við höfum farið á þrjá leiki á fjórum dögum, en mikið óskaplega var það nú gaman. Sáum KR leggja sprækt lið Fjölnis í úrslitum Reykjavíkurmótsins á fimmtudagskvöldið og á föstudagskvöldið skellti Stjarnan Keflavík í úrslitum Reykjanesmótsins.
Eini gallinn við þessa veislu er sá að það er enn hálfur mánuður í að blessuð deildin fari af stað. Þetta er eins og að skella í sig fjórum bjórum en fara svo í kirkju í staðinn fyrir partí. En svona vilja menn hafa þetta, þeir um það. Þéttara prógramm í vetur í staðinn. Ætli við verðum ekki að fara á æfingaleiki til að drepa tímann fram að móti.
Annars er rétt að óska Stjörnunni og KR til hamingju með upphitunartitlana. Ætli þessi skemmtilegu lið verði ekki að elta þá stærri í vor. Mannskapurinn er til staðar í það.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
KR
,
Stjarnan