Saturday, October 22, 2011
Bæjarleyfið byrjaði á Ásvöllum
Stálumst aðeins úr Hólminum og sáum Hauka liggja heima fyrir Stjörnunni á Ásvöllum í kvöld. Höfum smá áhyggjur af Haukaliðinu. Varnarleikurinn var á tíðum skelfilegur og það var eins og væri þungt yfir leikmönnum. Vantaði bæði stemningu og grimmd í þá rauðu. Það er auðvitað ekkert gleðiefni að hefja leiktíðina 0-3, en meistari Pétur Ingvarsson verður að reyna að kveikja betur í strákunum sínum. Þeir eiga að geta betur og hljóta að fara að snúa þessu við.
Það myndi strax hjálpa þeim ef fólk nennti að mæta á leikina. Ótrúlega fáir sem mættu á þennan grannaslag í kvöld og því heyrðist lítið nema bölvaður hávaðinn í trommunni sem einn áhorfenda mætti með á leikinn. Svona trommur hafa ekkert að gera á körfuboltaleiki. Sparið þær endilega fyrir handboltann, nú eða stofnið þungarokksband. Miklu meira vit í því.
Stjarnan rúllaði í gegn um þennan leik á krúskontról og byrjar leiktíðina 3-0. Reyndar á móti liðum sem eru samanlagt 0-9, en það er ekki þeim að kenna. Fyrsta alvöru prófið hjá Garðbæingum kemur strax á fimmtudaginn þegar KR mætir í Ásgarðinn. Það verður alveg æðislegt að missa af þeim leik. Engin takmörk fyrir því hvað Hólmurinn heillar okkur þessa dagana.
Sumir láta það koma sér á óvart að Þór frá Þorlákshöfn sé að byrja vel, en það er óþarfi. Þetta lið er ekkert rusl. Flott hjá þeim að skella Snæfelli í kvöld. Við vitum ekkert um þennan leik, en Snæfellsliðið á enn eftir að finna rétta gírinn. Voru heppnir að tapa ekki fyrir Haukum um daginn, straujuðu KR og tapa svo fyrir Þórsurum á flautunni í kvöld. Mætti halda að væri haust.
Við stefnum á að taka rándýrt roadtrip í Þorlákshöfn sem fyrst. Ekki ólíklegt að úr því verði jafnvel hópferð fjölmiðlamanna. Vonum bara að Græni drekinn láti athyglina ekki stíga sér til höfuðs. Þetta verður eitthvað.
Talandi um græna hluti á flugi. Ungliðasveit Njarðvíkur kom til jarðar í vesturbænum í kvöld. Það er annað lið sem við þurfum að fara að sjá.
Að lokum langar okkur að nota þetta tækifæri og senda batakveðjur í Breiðholtið. ÍR-ingarnir eru eitthvað farnir að týna tölunni í meiðsli eins og venjulega. Reglulega óþolandi þróun. Sérstaklega höfum við áhyggjur af Sveinbirni Claessen og hnénu hans. Vonum sannarlega að meiðsli hans og annara ÍR-inga séu ekki alvarleg. Tökum brjálæðiskast ef Sveinbjörn verður tekinn aftur úr umferð.
P.s. - Af hverju gáfuð þið okkur 50 Facebook-like á færslu um Veitingahúsagagnrýni?
Efnisflokkar:
Haukar
,
Heimabrugg
,
ÍR
,
Stjarnan
,
Þór Þorlákshöfn