Sunday, October 30, 2011

Stórafmæli hjá Pétri


Körfuboltagoðsögnin Pétur Guðmundsson á afmæli í dag og óskum við honum til hamingju með það.

Miðherjinn fyrrverandi varð þess heiðurs aðnjótandi að verða fyrsti Evrópubúinn sem spilaði í NBA og er vitanlega eini Íslendingurinn sem spilað hefur í deildinni.

Pétur hóf NBA feril sinn hjá Portland Trailblazers leiktíðina 1981-82 og það vill svo skemmtilega til að það var einmitt á þessum degi fyrir sléttum 30 árum sem Portland spilaði opnunarleik vetrarins. Það var sigurleikur gegn Phoenix Suns.

Ef við gefum okkur að Pétur hafi komið við sögu í umræddum leik, sem er ekki ólíklegt því hann spilaði 68 leiki um veturinn, er ljóst að hann hefur spilað þennan tímamótaleik á afmælisdaginn sinn.

Við erum ekki með heimildir við höndina til að fletta þessu upp, en hvort sem Pétur kom við sögu þetta kvöld eða ekki, er gaman að staldra við og minnast merkra manna og góðra verka. Tíminn flýgur augljóslega í öllu sem tengist körfubolta,
einfaldlega af því hann er svo skemmtilegur.

Smelltu hérna til að lesa pistil sem Óskar Ófeigur Jónsson á Fréttablaðinu og Vísi skrifaði í tilefni af fimmtugsafmæli Péturs fyrir þremur árum.