Tuesday, October 18, 2011
Skóþáttur Nonna Mæju
Það er gaman að fylgjast með Nonna Mæju spila körfubolta. Hann spilar leikinn á dálítið öðru plani en þeir sem í kring um hann eru. Átti ekki sinn besta leik þegar Snæfell burstaði KR í gær, en það kom ekki að sök.
Hann lenti í óvenjulegu atviki í miðjum leik þegar hann bókstaflega gekk af sér skóinn. Hann bara rifnaði í tvennt.
David Tairu hjá KR var með leikfésið á sér allan tímann og var auðvitað önugur yfir gangi mála eins og allir KR-ingar, en hann gat ekki annað en brosað þegar hann sá Jón Ólaf koma gangandi af velli í öðrum skónum og með hinn dinglandi í tveimur pörtum í hendinni.
Þessi uppákoma vakti mikla kátínu í stúkunni og þegar Jón Ólafur kom aftur inn á völlinn, nú klæddur í hvíta skó, sungu dömurnar í stúkunni:
"Nú er Nonn´á nýju skónum, nú er´að koma jól!"
Mjög skemmtilegt móment.
Við erum ekki sérlega mannglöggir, en gott ef það er ekki sjálf Mæja sem situr þarna hjá dömunum syngjandi í stúkunni. Þið leiðréttið okkur með það ef okkur skjátlast það.
Mikið var gaman að koma í hólminn þó um haustleik væri að ræða.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Hólmurinn heillar
,
KR
,
Nonni Mæju
,
Snæfell