Friday, August 29, 2014
NBA leikmenn á HM
USA Today birti þessa skemmtilegu grafík, sem sýnir fulltrúa NBA deildarinnar á HM í körfubolta sem nú fer senn að hefjast á Spáni. NBA deildin er sannarlega orðin alþjóðlegri en hún var fyrir aldarfjórðungi, þegar um handfylli "útlendinga" spilaði í deild þeirra bestu.
Efnisflokkar:
Stórmót
Thursday, August 28, 2014
Ísland á EM í körfubolta (+ myndir)
Karlalandsliðið okkar í körfubolta er búið að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta skipti í sögunni og körfuboltaáhugamenn á Íslandi vita hreinlega ekki hvað þeir eiga af sér að gera.
Þetta varð ljóst þrátt fyrir að liðið tapaði 70-78 á heimavelli fyrir Bosníumönnum og Hersigóvum í gærkvöldi. Tölfræðisérfræðingarnir okkar sögðu okkur að íslenska liðið væri sama og komið áfram vegna stöðunnar í öðrum leikjum áður en flautað var til leiks í Höllinni í gær. Íslenska liðið hefði þurft að tapa með yfir 30 stiga mun til að eiga á hættu að sitja eftir. Það var aldrei uppi á teningnum í þessum hnífjafna leik, þar sem gestirnir reyndust sterkari í lokin.
Það kemur enda lítið á óvart að Bosnía skuli vinna körfuboltaleik. Þetta er flott lið hvort sem í það vantar NBA leikmann eða ekki. Sérstaklega þótti okkur varnarleikur beggja liða sterkur í gær og það var varnarleikur gestanna sem tryggði þeim sigurinn að lokum. Íslenska liðið fann ekki svör í sókninni á síðustu mínútunum. Burðarásar eins og Stefánsson skiljanlega orðnir nokkuð þreyttir.
Það vantaði kannski skorunarmaskínu frá Brooklyn Nets í lið gestanna, en líklega hefur skarðið sem Hlynur Bæringsson skildi eftir sig verið enn stærra fyrir íslenska liðið.
Eins og atmennið sem hann er, spilaði Hlynur nokkrar mínútur á krambúleruðum ökklanum, en gat skiljanlega ekki beitt sér að fullu.
Þetta nýttu risarnir frá Bosníu sér vel og það gefur augaleið að ein stærsta breytan á bak við sigur þeirra var yfirburðir þeirra undir körfunni - bæði í sókn (54% nýting í tvistum gegn 32% hjá íslenska liðinu) og í fráköstunum (44-35).
Þetta var fín æfing fyrir strákana okkar á þessu sviði, því þeir eiga eftir að þurfa að kljást við ófáa risana þegar þeir koma á EM, hvar sem það verður nú haldið.
Annars erum við sammála Hauki Helga Pálssyni, sem í samtali við Guðmund Marínó Ingvarsson á Vísi sagði að líklega hefðum við tekið þennan leik ef Hlynur hefði verið 100% heill. Það er grábölvað að vera án hans eins og þið sáuð þegar andstæðingar okkar dældu boltanum hvað eftir annað inn í teiginn og fóru illa með miklu lágvaxnari leikmenn íslenska liðsins.
Þetta lagaðist aðeins þegar þjálfarinn sendi Natvélina á vettvang og við hefðum viljað sjá hana lengur en í sjö mínútur inni á vellinum.
Efnisflokkar:
Hlynur Bæringsson
,
Landsliðið
,
Myndir
,
Ragnar Nathanaelsson
,
Sigurvegarar
,
Sögubækur
,
Tímamót
,
Vel Gert
Monday, August 25, 2014
Körfuboltar sjást betur í tölvum í dag
Þeir voru átakanlega primitífir, fyrstu körfuboltaleikirnir sem komu á markað í leikjatölvur. Þetta byrjaði rétt fyrir ´80 og árin sem á eftir komu færðu okkur dásamlega pixlaðar og asnalegar útgáfur af körfubolta.
En eins og alltaf þegar tölvur eru annars vegar, er alltaf stutt í næstu byltingu. Fyrsta stóra byltingin í körfuboltaleikjaflórunni var tvímælalaust Lakers vs Celtics leikurinn góði sem kom út í kring um 1990. Við prófuðum hann fyrst í PC og misstum gjörsamlega andlitið þegar við sáum að nú var hægt að þekkja leikmennina inni á vellinum alveg eins og í alvörunni.
Efnisflokkar:
Fret úr fortíðinni
,
Tæknimál
,
Tölvuleikjagagnrýni
Sunday, August 24, 2014
Nýtt hlaðvarp
Karlalandsliðið okkar í körfuboltanum er búið að standa sig frábærlega að undanförnu og fer á stórmót í fyrsta skipti með sigri á Bosníumönnum á miðvikudaginn kemur.
NBA Ísland sló á þráðinn til Snorra Arnar og spurði hann út í leikina við Breta, spilamennsku íslensku drengjanna, heilsufar og leiðtogahlutverk Hlyns Bæringssonar - og svo auðvitað stórleikinn á miðvikudaginn.
Þið ættuð að vera farin að rata inn á hlaðvarpssíðuna, en ef þið gerið það ekki, getið þið smellt hérna til að fara þangað og hlusta á 29. þáttinn.
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
,
Landsliðið
Wednesday, August 20, 2014
NBA leikmenn í bíó
Í dag hafa Twitter-notendur verið að leika sér að því að troða NBA-leikmönnum inn í kvikmyndatitla og útkoman er á tíðum stórkostleg. Sjáðu t.d. Manu, Lance og Jason Kidd. Epík.
A Teague of their own
My favorite Marcin
Batman and Robin
Efnisflokkar:
Eðlilegt
,
Kvikmyndahornið
,
Sjoppan
,
Skrítlur
,
Stolið efni
Tuesday, August 19, 2014
Ungur Kobe Bryant skorar stig með körfuboltum
Hérna eru skemmtilegar klippur úr leik frá því í febrúar árið 1995, þar sem Kobe Bryant fer mikinn í menntaskólaleik með Lower Merion liðinu sínu. Eftir stutta samantekt úr leiknum sjáum við stutt viðtal við Kobe, sem er nákvæmlega eins þarna og hann er í dag, nema hvað hann var ekki alveg búinn að fylla út í búninginn sinn þarna á menntaskólaárunum. (Því miður þarftu að spóla fram á 8:55 til að losna við óþarfa bull).
Hvað er samt málið með öll myndbönd sem eru eldri en tveggja ára á youtube! Af hverju líta þau frekar út fyrir að vera frá árinu 1948!?! Við erum ekki svona andskoti gömul hérna!
Efnisflokkar:
Fret úr fortíðinni
,
Klassík
,
Kobe Bryant
,
Þetta er ungt og leikur sér
Friday, August 15, 2014
NBA Ísland spáir í spilin fyrir veturinn
Það sem átti að verða stutt og létt upphitun fyrir komandi tímabil í NBA deildinni varð auðvitað eitthvað allt annað og miklu meira eins og svo oft hjá okkur.
En við hugsuðum með okkur að það væri nú ekki andskoti mikið NBA-tengt að lesa fyrir aumingja lesendur okkar þessa dagana, svo þeir hefðu kannski bara gaman af því að stauta sig í gegn um hátt í 5000 orða hlemm.
En við hugsuðum með okkur að það væri nú ekki andskoti mikið NBA-tengt að lesa fyrir aumingja lesendur okkar þessa dagana, svo þeir hefðu kannski bara gaman af því að stauta sig í gegn um hátt í 5000 orða hlemm.
Það sem fylgir hér á eftir er smá hugleiðing um hvers er að vænta frá liðunum í Austurdeildinni næsta vetur, þó þessi pæling sé náttúrulega allt of snemma á ferðinni. Hér er á ferðinni rakalaust blaður út í loftið eins og venjulega þegar ritstjórn þessa miðils tekur sig til.
Ætla mætti að við þyrftum að skrifa annað eins um Vesturdeildina næst - og við gerum það nú væntanlega einn daginn - en þar hefur sumarið verið áberandi rólegra en í austrinu, svo það eru litlar líkur á því að þú verðir í þrjár vikur að lesa þá pælingu eins og þessa.
En nú er best að halda kjafti og leyfa ykkur að lesa þetta í friði. Vesgú, elskurnar.
ATLANTA HAWKS
Atlanta hefði með öllu átt að vera stór "player" á leikmannamarkaðnum í sumar, en sumir hlutir breytast seint og svo virðist sem atvinnumenn í körfubolta kjósi heldur að spila á Svalbarða en í Atlanta. Það er rétt að þeir stuðningsmenn sem á annað borð mæta á leiki hjá Hawks eru með frekar lágan blóðþrýsting, en það verður samt að segjast eins og er að það er fáránlegt að félag með svona efnilegt lið skuli ekki geta fengið til sín leikmenn.
Lið Hawks var ágætis Öskubuskuævintýri á síðustu leiktíð þegar það var í raun klaufi að slá Indiana ekki úr leik í fyrstu umferðinni eftir að hafa komist í 3-2 með sjötta leikinn á heimavelli. Eins og flestir vita var Atlanta þarna án síns besta leikmanns, Al Horford, og því búast flestir við að liðið taki skref fram á við í vor - jafnvel þó það verði ekki stórt.
Efnisflokkar:
Nostradamus
Thursday, August 14, 2014
Monday, August 11, 2014
Ljómandi sigur hjá landsliðinu
Það kom ansi mörgum á óvart a strákarnir okkar í körfuboltalandsliðinu tækju Stór-Bretana og flengdu 83-70 þá í Laugardalshöllinni í kvöld. Piltarnir okkar virðast hinsvegar hafa vitað það allan tímann að þeir ættu eftir að taka þetta.
Af því við höfum ekki hundsvit á körfubolta, spurðum við okkur reyndara fólk út í breska landsliðið og styrk þess. Allir voru á einu máli um að lið sem tryggir sér sæti á hverju stórmótinu á fætur öðru (án þess að nota NBA-menn í undankeppnum) hljóti bara að kunna körfubolta, jafnvel þó Alan Bannister sé hættur að spila.
Þið eruð öll búin að sjá og lesa um hvernig þetta fór allt saman. Hvernig piltar eins og Haukur Pálsson og Martin Hermannsson virtust ákveða það í síðari hálfleiknum að nú væri best að vinna körfuboltaleik.
Mikið er búið að ala þessa stráka vel upp á körfuboltasviðinu.
"Rosalega er gaman að sjá þessa ungu stráka. Þeir mættu bara og kláruðu leikinn!" sagði fyrrum landsliðsmaður himinlifandi eftir leikinn. Brosti hringinn eins og synir hans hefðu verið að vinna Nettómótið.
Flestir strákanna voru að gera eitthvað skemmtilegt fyrir okkur í kvöld. Hlynur Bæringsson Hlynur Bæringsson-aði til dæmis yfir sig með 14/15 leik, hörkuvörn, baráttu og er sjálfsagt enn að plokka tennurnar á Englendingunum úr olnbogunum á sér. Okkur þykir svo vænt um Hlyn.
Efnisflokkar:
Haukur Pálsson
,
Hlynur Bæringsson
,
Landsliðið
,
Martin Hermannsson
,
Pavel Ermolinski
,
Svægi
,
Tebolli
,
Tilþrif
,
Vel Gert
,
Þetta er ungt og leikur sér
Saturday, August 9, 2014
Traffík í Heiðurshöllinni
Alltaf verið að moka fleirum og fleirum inn í Heiðurshöllina góðu. Í nótt fór slatti af liði þar inn, bæði konur og karlar. Þeir sem vöktu mesta athygli hjá okkur voru þeir Mitch Richmond, Alonzo Mourning, Sarunas Marciulionis, David Stern og Nat heitinn "Sweetwater" Clifton.
Það eru einmitt leikmenn eins og Mitch Richmond sem vekja reglulega upp harðar deilur um kríteríuna sem ræður því hverjir komast inn í Heiðurshöllina og hverjir ekki. Þeim fer reyndar ört fækkandi, leikmönnunum sem komast ekki inn að mati þeirra sem harðast gagnrýna regluverkið í Springfield. Menn fara ólíkt að við að dæma ævistarf karla, kvenna, Kana, útlendinga, leikmanna og þjálfara.
Og svo er það stærsta spurningin. Á að taka menn inn í Heiðurshöllina fyrir að vinna körfuboltaleiki eða fyrir að búa til feita tölfræði?
Efnisflokkar:
Chris Mullin
,
David Stern
,
Goðsagnir
,
Heiðurshöllin
,
Klassík
,
Mitch Richmond
,
Tim Hardaway
,
Verðlaun og viðurkenningar
,
Warriors
Friday, August 8, 2014
NBA Ísland skyggnist inn í framtíðina
Fólk er hlaupandi um göturnar nakið, skrækjandi út i loftið eins og villidýr af því það botnar ekkert í því hvað er að gerast í Austurdeildinni núna. Derrick Rose er loksins byrjaður að spila körfubolta, Paul George er fótbrotinn, LeBron James er að skipta um lið og Kevin Love ætlar að elta hann. Er það von að fólk sé að missa vitið.
Við hér á NBA Ísland verðum að koma til móts við þetta fólk og veita því andlegan stuðning. Leiða það út úr völundarhúsi Austurdeildarinnar sem enn er eitt stórt drullusvað þó sólin sé að brjótast í gegn um skýin. Ja, þó það nú væri.
Mörg ykkar kannast við ESPN-pennan Marc Stein sem skrifað hefur um deildina okkar fögru frá aldamótum. Einn af föstum liðum hjá honum er að halda FIFA-lista NBA deildarinnar þar sem hann metur styrkleika liðanna í deildinni bæði með fræðilegum og huglægum hætti.
Í lok síðustu leiktíðar voru aðeins tvö Austurdeildarlið á topp tíu á FIFA-lista Marc Stein - Miami og Indiana - en nú er útlit fyrir að þau falli bæði af topp tíu listanum og tvö ný komi inn í staðinn.
Ekki er útlit fyrir að verði stórar breytingar á valdajafnvæginu í Vesturdeildinni næsta vetur og því má áfram reikna með að megnið af liðunum þar verði ógnarsterk áfram.
Nokkrar breytingar verða hinsvegar í Austurdeildinni. Hún var mjög "top heavy" á síðustu leiktíð eins og sagt er. Þá erum við að meina að það var nokkuð ljóst allan veturinn að tvö lið yrðu langbest og það stóðst nokkurn veginn. Miami og Indiana voru langefst lengst af og mættust að lokum í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar alveg eins og árið á undan.
Annað verður uppi á teningnum í vetur. Miami er búið að bæta við sig nokkrum sæmilegum körfuboltamönnum, en það missti besta körfuboltamann í heimi og hrapar fyrir vikið af toppi austursins.
Indiana lét Lance Stephenson fara til Charlotte og Paul George meiddist illa á dögunum, sem þýðir að öll spilamennska Pacers riðlast og versnar til mikilla muna.
Margir hafa meira að segja lýst því yfir að liðið komist ekki einu sinni í úrslitakeppnina. Við vitum ekkert um það, en við vitum að ykkur er alveg óhætt að setja Indiana ofan í kassa sem kandídat í stóra hluti í að minnsta kosti eitt ár.
Þá komum við að liðunum tveimur sem ætla að koma í staðinn.
Það eru Chicago og Cleveland - liðin sem voru við og á toppnum hérna fyrir nokkrum árum en eru nú komin aftur í baráttuna mikið til af því þau eru að endurheimta sitt hvora stórstjörnuna. Mennina sem voru handhafar MVP-styttunar eftirsóttu allar götur frá 2009 til 2013 - Derrick Rose og LeBron James. Og þeir taka með sér nokkra góða körfuboltamenn, svo það er morgunljóst að það verða breytingar á toppnum í austrinu í vetur og vor.
Það er galið að spá því í ágúst hvernig staðan verður í NBA í vor, en eins og staðan er núna, hallast flestir að því að það verði Chicago sem verði besta liðið í Austurdeildinni í vetur. Margir af þessum flestum spá því meira að segja að Bulls eigi eftir að stinga af fljótlega.
Þetta eru skiljanlegar pælingar. Það hefur sýnt sig að Derrick Rose er það góður leikmaður að hann fer með Chicago-liðið frá því að vera gott lið yfir í að vera meistarakandídat. Og nú ku pilturinn vera endanlega kominn til baka eftir þessa löngu og ógeðslegu baráttu sína við meiðsladrauginn.
Ká þjálfari, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna í körfubolta, hefur gefið það út að Rose sé kominn á sama stig sem leikmaður og hann var á þegar hann var upp á sitt besta. Þá fékk hann styttu að launum fyrir leik sinn og leiddi Chicago til 60+ sigra. Núna er hann með talsvert betri meðreiðarsveina, á pappírunum í það minnsta.
Meiðslahrúgaldið Chicago komst í úrslitakeppnina í fyrra af vanefnum, en ef liðið fær nú til liðs við sig heilan Derrick Rose, heilan Pau Gasol, x-faktórinn Nikola Mirotic og skotóðan Doug McDermott, er ekki skrítið að sumir sjái fyrir sér að þetta lið eigi eftir að stinga af í vetur (jafnvel þó það missi Carlos Boozer!).
Hástökkvari vikunnar verður svo auðvitað Cleveland. Lið eiga það til að hækka aðeins í áliti hjá mönnum við það að fá til sín tvo af bestu körfuboltamönnum í heimi og þannig er það hjá Cavaliers núna.
Cleveland minnir okkur dálítið á Íslending sem tók 100% gengislán til að kaupa sér allt of dýran bíl en sleppur með skrekkinn, á meðan þeir sem söfnuðu sér fyrir fjárfestingum sínum sáu peningana sína gufa upp.
Cleveland er búið að vera í því að drulla á sig alveg síðan löngu áður en LeBron James fór þaðan í burtu árið 2010, en eina refsingin sem félagið hefur fengið fyrir alla þessa drullu er að fá alltaf fyrsta valréttinn í nýliðavalinu. Svona eins og bara til að leyfa því að halda áfram að drulla og drulla enn meira - drulla jafnvel á aðra. Stundum er lífið bara bæði samhengislaust og óréttlátt.
Lið Cavaliers verður fjarri því fullkomið þó það verði með þrjá af besti leikmönnum deildarinnar hver í sinni stöðu í þeim LeBron James, Kyrie Irving og Kevin Love. Þú ættir að geta unnið 50+ leiki í Austurdeildinni með þessa þrjá í byrjunarliðinu jafnvel þó Ingvi Hrafn og Jónína Ben fylli stöðu miðherja og skotbakvarðar.
Þessir þrír kappar geta skorað 30 stig í svefni, en það verður varnarleikurinn og almennur andi og taktur í liði Cleveland sem ráða því hve langt liðið fer næsta vor.
Það er fátt um fína drætti í miðherjastöðunni hjá Cavs og þó liðið sé komið með reynsluhunda eins og Mike Miller og James Jones (og jafnvel Shawn Marion og Ray Allen síðar) á bekkinn, hafa piltar eins og Dion Waiters og Kyrie Irving ekki unnið svo mikið sem fimmtíukall á Happaþrennu, hvað þá mikilvæga körfuboltaleiki.
Það ætti að verða styrkur fyrir Cleveland að hafa landað David Blatt þjálfara, en þó hann sé með flotta ferilskrá í Evrópu, á hann enn eftir að sanna sig í NBA.
Líklega má í fljótu bragði reikna með því að lélegu liðin í Austurdeildinni haldi áfram að vera lélegu liðin í Austurdeildinni. Miðjupakkinn hinsvegar - liðin sem skriðu í úrslitakeppnina - ættu að geta bætt aðeins við sig.
Þetta eru Toronto, Washington, Charlotte og Atlanta. Þessi fjögur eru sumpart keyrð áfram af ungum mönnum sem ættu að verða betri í vetur og svo eru þau að bæta aðeins við sig mannskap líka. Mest munar þar líklega um það að Charlotte fær til sín Lance Stephenson frá Indiana og Atlanta endurheimtir Al Horford - a.m.k. þangað til hann meiðist aftur og verður aftur frá það sem eftir lifir leiktíðar.
Það er ekki víst að Indiana verði nógu gott til að hanga í þessum svokallaða miðjupakka í austrinu, en það er mjög líklegt að Miami verði á þessum slóðum.
Sem sagt: ef við skjótum út í loftið á það í ágúst hvernig Austurdeildin á eftir að líta út í vetur, gætum við tippað á að Chicago yrði með besta liðið, Cleveland kæmi þar á eftir og svo einhver súpa af Miami, Toronto, Washington, Charlotte og jafnvel Brooklyn.
Restin af liðunum í austrinu ættu ekki að verða merkileg í vetur, en það þarf þó alls ekki að þýða að verði eitthvað leiðinlegt að horfa á þau spila körfubolta.
Þannig eru mjög spennandi nýliðar í liðum eins og Milwaukee, Boston, Philadelphia og Orlando svo eitthvað sé nefnt, svo þetta verður ekki allskostar ömurlegt. Að minnsta kosti aldrei eins og á síðustu leiktíð, þegar Austurdeildin setti vetrarbrautarmet í langskitu án atrennu.
Austurdeildarleikirnir voru margir svo lélegir á síðustu leiktíð að það var farið að hafa áhrif langt út fyrir körfuboltavöllinn. Leikur New York og Detroit í byrjun mars var til dæmis svo lélegur að vörubíll í úthverfi í Lansing í Michigan skautaði út af veginum og keyrði í gegn um hárgreiðslustofu og hænsnabú áður en hann endaði ónýtur á toppnum úti á túni.
Þetta var ekkert grín þarna í austrinu á síðustu leiktíð, en þetta lítur allt miklu betur út í ár. Þér er óhætt að treysta því þegar meira að segja neikvæðnihundar og vestansleikjur eins og við segjum þér það.
Efnisflokkar:
Ákvörðunin
,
Austurdeildin
,
Bulls
,
Cavaliers
,
Framfarir
,
Leikmannamál
,
Nostradamus
Thursday, August 7, 2014
Shawn Kemp tróð körfuboltum á fólk
Þeir sem hafa fylgst með NBA frá því deildin ruddi sér til rúms hér á landi muna líklega allir eftir framherjanum Shawn Kemp.
Þessi mikli háloftafugl sló í gegn með Seattle Supersonics sáluga á fyrstu árum tíunda áratugarins og líklega er óhætt að segja að hann hafi toppað sem leikmaður í lokaúrslitunum árið 1996 þegar lið hans tapaði þar fyrir Chicago Bulls.
Áður en Kemp varð einn besti framherji deildarinnar, var hann hinsvegar fyrst og fremst þekktur sem háloftafugl og krafttroðari. Tomahawk-troðslurnar hans urðu heimsfrægar og samvinna hans og Gary Payton í hraðaupphlaupum Sonics var sjónvarpsefni í hæsta gæðaflokki.
Við rákumst á þessa skemmtilegu syrpu hérna fyrir neðan með mörgum af mögnuðustu troðslunum hans Kemp og meira að segja Kemp-aðdáendur eins og við fengum smá gæsahúð við það að rifja upp þvílíkt eintak af íþróttamanni drengurinn var fyrir um tuttugu árum síðan.
Við mælum eindregið með því að yngri körfuboltaáhugamenn skoði þetta myndband hérna fyrir neðan vel, þó margar af klippunum líti út fyrir að vera frá því árið 1946 vegna lélegra myndgæða.
Veitið því sérstaklega athygli hvað Kemp tróð fáránlega oft í andlitið á tveimur af bestu skotblokkurum sinnar kynslóðar - þeim Alonzo Mourning og Dikembe Mutombo.
Það má með sanni segja að Kemp hafi verið undanfari Blake Griffin á troðsviðinu, því ekkert fannst honum skemmtilegra en að gefa mönnum slátur - ekki síst leikmönnum Golden State Warriors eins og þið sjáið á mörgum af hans frægari troðslum undir lokin á myndbandinu.
Það er ekki laust við að við fyllumst nostalgíu þegar við horfum á Kemp nudda miðsvæðinu á sér í andlitið á andstæðingunum og láta þá svo vita vel af því eftir á.
Miðað við reglurnar í dag hefði hann fengið tæknivillu eftir um það bil 68% af þessum troðslum sínum, en á síðustu öld mátti nefnilega sýna tilfinningar á körfuboltavöllum, öfugt við það sem tíðkast í dag.
Góða skemmtun.
Efnisflokkar:
Andlitsmeðferð
,
Goðsagnir
,
Shawn Kemp
,
Slátur
,
Sonics
,
Veðrið þarna uppi
Monday, August 4, 2014
Sunday, August 3, 2014
Það er ekki alveg sama hvar þú spilar körfubolta
Stóri-Al Jefferson hjá Charlotte Hornets er prúður og vel upp alinn piltur frá Mississippi, nánar tiltekið frá Monticello, en það er bær á stærð við Sandgerði í suðurhluta ríkisins.
Því má kannski segja að hann hefði alist upp í Mjóafirði í Suður-Múlasýslu ef hann hefði fæðst á Íslandi. Þó má reyndar teljast ólíklegt að hann hefði farið út í körfuboltann ef hann hefði alist upp hjá Fúsa á Brekku, þrátt fyrir að vera vel á þriðja metrann á hæð.
Atlanta-framherjinn Paul Millsap er frá talsvert stærri borg sem heitir Monroe í norðurhluta nágrannaríkisins Louisiana. Hann er kannski ekki alveg sami sveitamaðurinn og Jefferson, en báðir eru þeir rólegir og geðþekkir piltar sem eiga það jú sameiginlegt að vera frambærilegir körfuboltamenn. Vissulega eiga þeir það líka sameiginlegt að hafa verið samherjar hjá Utah Jazz á árunum 2010 til 2013.
Efnisflokkar:
Aftanmóðumas og steinsmugustiklur
,
Al Jefferson
,
Austurdeildin
,
Hawks
,
Hornets
,
Jazz
,
Jón og séra Jón
,
Leikmannamál
,
Paul Millsap
,
Prósi
,
West is best
Saturday, August 2, 2014
Paul George úr leik eftir hroðalegt fótbrot
Paul George mölbraut á sér fótinn þegar hann lenti illa undir lok leiksins og þegar búið að var að stumra yfir honum í góða stund, var einfaldlega ákveðið að hætta leiknum.
Við gætum farið að lýsa þessu óhappi eitthvað betur eða sýna ykkur myndir eða myndbönd af því, en við erum ekki sadistar og hálfvitar, svo við sleppum því.
Atvikið var endursýnt einu sinni í sjónvarpsútsendingunni af því margir misstu af því, en sjónvarpsmenn ákváðu að sýna það ekki aftur vegna þess hve ljótt það var.
Það eina sem við höfum um þetta að segja er að við vonum að Paul George nái sér að fullu eftir þessa hræðilegu byltu. Það er engin hætta á því að hann fari nokkuð að spila körfubolta á næstunni aumingja strákurinn.
Efnisflokkar:
Meiðsli
,
Paul George
Rose hendir einni niður
Lið Bandaríkjanna er nú að æfa á fullu fyrir HM í körfubolta sem fram fer á Spáni eftir um það bil mánuð. Í kvöld spilaði liðið smá æfingaleik þar sem bláir kepptu við hvíta. Þarna er um að ræða blöndu af leikmönnum sem fara á HM og nokkra boxpúða sem þeir nota á æfingum. Það vakti eðlilega mikla kátínu þegar Derrick Rose bauð upp á þessa strax í upphafi leiks. Mikið erum við öll búin að sakna þess að horfa á þessa mennsku handsprengju spila körfubolta.
Efnisflokkar:
Bulls
,
Derrick Rose
,
Endurkomur
,
Team USA
,
Veðrið þarna uppi
Svona var sumarið 2014: LeBron James
Ekkert að því.
Við sögðum ykkur eftir að lokaúrslitaeinvíginu lauk að við ætluðum ekki að taka okkur langt sumarfrí og við ætlum að reyna að standa við það. Auðvitað er andinn á ritstjórninni ekki eins frjór á sumrin og hann er yfir veturinn, en eins og við sögðum áðan, hefur ekki verið nein lognmolla í NBA deildnni í sumar.
Efnisflokkar:
Ákvörðunin
,
Andrew Wiggins
,
Ástþór
,
Cavaliers
,
Félagaskiptaglugginn
,
LeBron James
,
Nostradamus
Friday, August 1, 2014
Subscribe to:
Posts (Atom)