Thursday, August 28, 2014

Ísland á EM í körfubolta (+ myndir)


Karlalandsliðið okkar í körfubolta er búið að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta skipti í sögunni og körfuboltaáhugamenn á Íslandi vita hreinlega ekki hvað þeir eiga af sér að gera.

Þetta varð ljóst þrátt fyrir að liðið tapaði 70-78 á heimavelli fyrir Bosníumönnum og Hersigóvum í gærkvöldi. Tölfræðisérfræðingarnir okkar sögðu okkur að íslenska liðið væri sama og komið áfram vegna stöðunnar í öðrum leikjum áður en flautað var til leiks í Höllinni í gær. Íslenska liðið hefði þurft að tapa með yfir 30 stiga mun til að eiga á hættu að sitja eftir. Það var aldrei uppi á teningnum í þessum hnífjafna leik, þar sem gestirnir reyndust sterkari í lokin.

Það kemur enda lítið á óvart að Bosnía skuli vinna körfuboltaleik. Þetta er flott lið hvort sem í það vantar NBA leikmann eða ekki. Sérstaklega þótti okkur varnarleikur beggja liða sterkur í gær og það var varnarleikur gestanna sem tryggði þeim sigurinn að lokum. Íslenska liðið fann ekki svör í sókninni á síðustu mínútunum. Burðarásar eins og Stefánsson skiljanlega orðnir nokkuð þreyttir.

Það vantaði kannski skorunarmaskínu frá Brooklyn Nets í lið gestanna, en líklega hefur skarðið sem Hlynur Bæringsson skildi eftir sig verið enn stærra fyrir íslenska liðið.

Eins og atmennið sem hann er, spilaði Hlynur nokkrar mínútur á krambúleruðum ökklanum, en gat skiljanlega ekki beitt sér að fullu.

Þetta nýttu risarnir frá Bosníu sér vel og það gefur augaleið að ein stærsta breytan á bak við sigur þeirra var yfirburðir þeirra undir körfunni - bæði í sókn (54% nýting í tvistum gegn 32% hjá íslenska liðinu) og í fráköstunum (44-35).

Þetta var fín æfing fyrir strákana okkar á þessu sviði, því þeir eiga eftir að þurfa að kljást við ófáa risana þegar þeir koma á EM, hvar sem það verður nú haldið.

Annars erum við sammála Hauki Helga Pálssyni, sem í samtali við Guðmund Marínó Ingvarsson á Vísi sagði að líklega hefðum við tekið þennan leik ef Hlynur hefði verið 100% heill. Það er grábölvað að vera án hans eins og þið sáuð þegar andstæðingar okkar dældu boltanum hvað eftir annað inn í teiginn og fóru illa með miklu lágvaxnari leikmenn íslenska liðsins.

Þetta lagaðist aðeins þegar þjálfarinn sendi Natvélina á vettvang og við hefðum viljað sjá hana lengur en í sjö mínútur inni á vellinum.


Nú þegar ljóst er að við erum að fara á stórmót, er líka augljóst að íslenska liðið kemur til með að þurfa mikið á áðurnefndri vél að halda, svo það er eins gott fyrir hana að fara í tjúneringu, uppherslu, ventlaslípun, heddpakkningu, smurningu og tímareimarskipti til að gera sig klára fyrir alvöruna.

Auðvitað var súrt fyrir strákana að tapa þessum leik fyrir framan allt þetta fólk sem kom að styðja þá - fulla Laugardalshöll. Bara ef liðið fengi nú alltaf svona stuðning á landsleikjum.

Ritstjórn NBA Ísland hefur engin pólitísk áhrif innan Körfuknattleikssambandsins og vegur fjarri því þungt í heildarmenginu sem er íslenskur körfubolti. Hvað sem því líður, viljum við á ritstjórninni nota þetta tækifæri til að þakka öllu fólkinu sem mætti til að styðja strákana.

Við fórum þess á leit við íslenskan almenning um daginn að hann mætti á leikinn í gær til að sýna piltunum í landsliðinu að þjóðin stæði á bak við þá - að fólki væri ekki skítsama - og þó ekki væri nema til þess að hrósa þeim fyrir árangurinn sem náðst hafði fram að síðasta leiknum, þar sem sætið á EM var nálægt því tryggt eins og þið vitið.

Okkur þykir óhemju vænt um að fólk hafi orðið við þessari bón og fyllt kofann. Það var auðvitað ekki okkur að þakka að Höllin fylltist, en kannski hefur jarmið í okkur náð til einnar manneskju, sem ákvað að slá til og mæta á leikinn í stað þess að horfa á hann í sjónvarpinu. Það væri sannarlega skemmtilegt að bera ábyrgð á slíku.

Við sögðum ykkur frá því um daginn að sú staðreynd að íslenska liðið væri á leiðinni inn á stórmót væri bókstaflega búin að slá nokkra menn út af laginu - þeir væru viti sínu fjær af gleði yfir þessum árangri. Þetta á ekki síst við um alla þjálfarana okkar. Þeir eiga margir hverjir mikið í þessum strákum og hafa jafnvel þjálfað einhverja þeirra svo árum skiptir.

Þess vegna er það engin klisja heldur dagsatt þegar fólkið í kring um körfuna segir að við séum öll að komast á EM - að við eigum öll okkar þátt í þessum árangri. Þessi árangur liðsins núna er uppskera ára- og sumpart áratuga erfiðis og það er því heill hellingur af fólki sem á sinn þátt í þessu ævintýri. Þetta er alveg öskrandi jákvætt allt saman.

Vonandi verður þessi árangur strákanna til þess að auka hróður íþróttarinnar á allan hátt hér á landi. Svona velgengni fylgir gjarnan uppsveifla og aukinn ástundun og áhugi.

Íslensk æska hefur sannarlega gott af því að æfa körfubolta og auðvitað ættu öll börn á Íslandi að æfa körfubolta ef allt væri eðlilegt. Það væri ekki nema rökrétt af því körfubolti er langbesta, skemmtilegasta og göfugasta íþrótt sem fundin hefur verið upp, svona hlutlaust séð.

Þá má ekki gleyma peningahliðinni á þessu öllu saman. Það er vonandi að árangur strákanna þýði líka að ríkið sé tilbúið að leggja Körfuknattleikssambandinu til eitthvað meira en þær þrjúhundruðsjötíuogníukrónur sem það er rekið á í dag. Svo myndast við þetta ný og áður óþekkt sóknarfæri í sponsi. Það verður að taka föstum tökum.

Það er góð regla fara að grjóthalda kjafti þegar talið berst að pólitík og viðskiptum og við ætlum að halda okkur við það.

Að lokum viljum við á ritstjórn NBA Ísland nota þetta tækifæri til að óska öllum hjá Körfuknattleikssambandinu, landsliðsnefndinni, landsliðsþjálfarateyminu og svo auðvitað leikmönnunum sjálfum til hamingju með þennan frábæra árangur.

Svona er körfuboltinn dásamlegur. Alltaf eitthvað nýtt sem gleður.

Til hamingju Ísland!

------------------------------------------------------------------------

Hey, já! Nokkrar myndir líka...

Nokkrar.