Monday, August 25, 2014

Körfuboltar sjást betur í tölvum í dag






















Þeir voru átakanlega primitífir, fyrstu körfuboltaleikirnir sem komu á markað í leikjatölvur. Þetta byrjaði rétt fyrir ´80 og árin sem á eftir komu færðu okkur dásamlega pixlaðar og asnalegar útgáfur af körfubolta.




















En eins og alltaf þegar tölvur eru annars vegar, er alltaf stutt í næstu byltingu. Fyrsta stóra byltingin í körfuboltaleikjaflórunni var tvímælalaust Lakers vs Celtics leikurinn góði sem kom út í kring um 1990. Við prófuðum hann fyrst í PC og misstum gjörsamlega andlitið þegar við sáum að nú var hægt að þekkja leikmennina inni á vellinum alveg eins og í alvörunni.






















Við þekktum Kareem á hlífðargleraugunum og Bird á ljósa hárinu og hönnuðir leiksins voru svo klikkaðir að þeir eyddu meira að segja tíma í að gera áhorfendaskarann aðeins meira lifandi.  Svakalegt.

Margir eyddu smá tíma í TV Sports basketball leiknum þegar hann kom út. Hann var aðeins þrívíðari en Lakers vs Celtics ef þannig má að orði komast. En við spiluðum hann samt aldrei. Hraðaupplaupafídusinn var vel stórkostlegur, þar sem völlurinn skiptist í þrennt og ef annað liðið keyrði fram, sá maður leikmennina lúsast í gegn um hvern skjáinn á fætur öðrum.



















Ekki mikið að frétta í þessu. Við vitum um fullt af fólki sem tapaði sér í gleðinni við að spila þennan leik, en árið 1995 kom út leikur sem drullaði yfir allt sem á undan kom.

Það var NBA Live 1995, lang, lang, langbesti körfuboltaleikur síns tíma (og er enn á topp 3 hjá okkur, án gríns). Við höfum sennilega spilað hann í nokkra mánuði samfleytt. Hann setti nýja standarda bæði í spili og grafík og var t.d. fyrsti leikurinn þar sem var bókstaflega hægt að troða í andlitið á fólki. Og hárið á Dennis Rodman (Spurs) breyttist leik frá leik - var stundum grænt og stundum rautt. Þvílíkt meistaraverk.



















Í dag er þetta náttúrulega bara orðið rugl. Það er stutt í það að grafíkin í t.d. NBA2K seríunni verði svo góð að þú greinir ekki á milli ljósmyndar og skjáskots úr leiknum. Þetta eru orðin þvílík vísindi.

Þessir leikir hafa verið mjög misjafnir í spilun, en Tveir Ká er nokkuð þéttur um þessar mundir, þó séu risavaxnir gallar á honum eins og virðingarleysi gagnvart tölfræði og svo eru margar aðgerðir í honum illa merktar og asnalegar, eins og til dæmis einfaldir hlutir eins og að vista stillingar og leiðrétta leikmannahópa eftir félagaskipti.



Hlutinn sem snýr að því að spila sjálfan leikinn er hinsvegar stórkostlegur og á líklega bara eftir að batna. Það er magnað að skoða hvað þróunin í þessu dóti hefur verið rosaleg síðustu rúma tvo áratugina. Hérna geturðu skoðað þessa þróun nánar, með fleiri myndum og upplýsingum.

Og svona lítur nýjasti leikurinn út. Hann kemur í hillurnar í haust og þar verður meðal annars hægt að hlusta á Shaq og Ernie úr Inside the NBA. Þetta verður eitthvað.

Ekki að við förum að eyða stórfé og dýrmætum tíma okkar í vitleysu eins og þetta.

Einmitt.