Saturday, August 9, 2014

Traffík í Heiðurshöllinni


Alltaf verið að moka fleirum og fleirum inn í Heiðurshöllina góðu. Í nótt fór slatti af liði þar inn, bæði konur og karlar. Þeir sem vöktu mesta athygli hjá okkur voru þeir Mitch Richmond, Alonzo Mourning, Sarunas Marciulionis, David Stern og Nat heitinn "Sweetwater" Clifton.

Það eru einmitt leikmenn eins og Mitch Richmond sem vekja reglulega upp harðar deilur um kríteríuna sem ræður því hverjir komast inn í Heiðurshöllina og hverjir ekki. Þeim fer reyndar ört fækkandi, leikmönnunum sem komast ekki inn að mati þeirra sem harðast gagnrýna regluverkið í Springfield. Menn fara ólíkt að við að dæma ævistarf karla, kvenna, Kana, útlendinga, leikmanna og þjálfara.

Og svo er það stærsta spurningin. Á að taka menn inn í Heiðurshöllina fyrir að vinna körfuboltaleiki eða fyrir að búa til feita tölfræði?


Mitch Richmond var frábær skotbakvörður á sínum tíma og sá var ekki lengi að búa til fallegar tölur, en afrekaskrá hans í úrslitakeppninni var svo stutt og tómleg að það er næstum því einsdæmi. En hann fór nú samt inn, skorarinn skemmtilegi sem fékk viðurnefnið "Hnullungurinn" vegna þess hve sterkur hann var á blokkinni af bakverði að vera.

Richmond hóf feril sinn hjá Golden State Warriors þar sem hann myndaði hið ógurlega Run-TMC-gengi með þeim Chris Mullin og Tim Hardaway.

Það var einmitt Mullin sem fylgdi Richmond upp á svið eins og venjan er á serimóníunni. Richmond átti þó ekki eftir að endast lengi hjá Warriors, því honum var skipt á öskuhaugana í Sacramento eftir aðeins þrjú ár við Flóann.

Hann var sex ár hjá Sacramento og þar var hann auðvitað stimplaður sem leikmaður með fallega en innantóma tölfræði hjá liði sem væri drasl. Það er reyndar mikið til í þessu, en það er ekki Richmond að kenna að honum hafi verið skipt til eins versta og metnaðarlausasta félagsins í deildinni.

Það tók reyndar ekkert betra við þegar hann losnaði loksins frá Sacramento, en þá var ferðinni heitið í höfuðborgina Washington. Það er kaldhæðnislegt að fljótlega eftir að Richmond fór frá Kings náði liðið loksins að rétta úr kútnum og verða meira að segja þrælgott í upp úr aldamótunum.

Já, það var ekki mikið að frétta hjá Richmond ræflinum á vorin á árunum sem hann var á hátindi ferilsins. Fyrsta áratuginn sinn í NBA skoraði hann oftast meira en 20 stig að meðaltali í leik, en því miður fyrir hann urðu sigrarnir stundum ekki mikið fleiri en 20 hjá Kings og liðið fór aðeins einu sinni í úrslitakeppnina á þeim sjö árum sem hann spilaði með Sacramento.

Það var því ansi góð sárbót fyrir Richmond þegar hann náði að verða NBA meistari með Los Angeles Lakers á lokaárinu sínu í deildinni árið 2002, en hann var þá reyndar orðinn hundgamall aukaleikari hangandi á bekknum fyrir aftan Kobe Bryant.

Richmond spilaði í NBA meðan Michael Jordan var upp á sitt besta og í á daga voru margir mjög sterkir skotbakverðir í deildinni. Fæstir þeirra voru betri en Richmond og ætli hann væri ekki besti skotbakvörður deildarinnar í dag ef við kæmum honum upp í tímavél.

En nóg um þetta í bili.
Hér eru nokkrar myndir frá stuðinu í nótt.