Friday, August 8, 2014

NBA Ísland skyggnist inn í framtíðina


Fólk er hlaupandi um göturnar nakið, skrækjandi út i loftið eins og villidýr af því það botnar ekkert í því hvað er að gerast í Austurdeildinni núna. Derrick Rose er loksins byrjaður að spila körfubolta, Paul George er fótbrotinn, LeBron James er að skipta um lið og Kevin Love ætlar að elta hann. Er það von að fólk sé að missa vitið.

Við hér á NBA Ísland verðum að koma til móts við þetta fólk og veita því andlegan stuðning. Leiða það út úr völundarhúsi Austurdeildarinnar sem enn er eitt stórt drullusvað þó sólin sé að brjótast í gegn um skýin. Ja, þó það nú væri.

Mörg ykkar kannast við ESPN-pennan Marc Stein sem skrifað hefur um deildina okkar fögru frá aldamótum. Einn af föstum liðum hjá honum er að halda FIFA-lista NBA deildarinnar þar sem hann metur styrkleika liðanna í deildinni bæði með fræðilegum og huglægum hætti.

Í lok síðustu leiktíðar voru aðeins tvö Austurdeildarlið á topp tíu á FIFA-lista Marc Stein - Miami og Indiana - en nú er útlit fyrir að þau falli bæði af topp tíu listanum og tvö ný komi inn í staðinn.

Ekki er útlit fyrir að verði stórar breytingar á valdajafnvæginu í Vesturdeildinni næsta vetur og því má áfram reikna með að megnið af liðunum þar verði ógnarsterk áfram.

Nokkrar breytingar verða hinsvegar í Austurdeildinni. Hún var mjög "top heavy" á síðustu leiktíð eins og sagt er. Þá erum við að meina að það var nokkuð ljóst allan veturinn að tvö lið yrðu langbest og það stóðst nokkurn veginn. Miami og Indiana voru langefst lengst af og mættust að lokum í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar alveg eins og árið á undan.

Annað verður uppi á teningnum í vetur. Miami er búið að bæta við sig nokkrum sæmilegum körfuboltamönnum, en það missti besta körfuboltamann í heimi og hrapar fyrir vikið af toppi austursins.

Indiana lét Lance Stephenson fara til Charlotte og Paul George meiddist illa á dögunum, sem þýðir að öll spilamennska Pacers riðlast og versnar til mikilla muna.

Margir hafa meira að segja lýst því yfir að liðið komist ekki einu sinni í úrslitakeppnina. Við vitum ekkert um það, en við vitum að ykkur er alveg óhætt að setja Indiana ofan í kassa sem kandídat í stóra hluti í að minnsta kosti eitt ár.

Þá komum við að liðunum tveimur sem ætla að koma í staðinn.

Það eru Chicago og Cleveland - liðin sem voru við og á toppnum hérna fyrir nokkrum árum en eru nú komin aftur í baráttuna mikið til af því þau eru að endurheimta sitt hvora stórstjörnuna. Mennina sem voru handhafar MVP-styttunar eftirsóttu allar götur frá 2009 til 2013 - Derrick Rose og LeBron James. Og þeir taka með sér nokkra góða körfuboltamenn, svo það er morgunljóst að það verða breytingar á toppnum í austrinu í vetur og vor.

Það er galið að spá því í ágúst hvernig staðan verður í NBA í vor, en eins og staðan er núna, hallast flestir að því að það verði Chicago sem verði besta liðið í Austurdeildinni í vetur. Margir af þessum flestum spá því meira að segja að Bulls eigi eftir að stinga af fljótlega.

Þetta eru skiljanlegar pælingar. Það hefur sýnt sig að Derrick Rose er það góður leikmaður að hann fer með Chicago-liðið frá því að vera gott lið yfir í að vera meistarakandídat.  Og nú ku pilturinn vera endanlega kominn til baka eftir þessa löngu og ógeðslegu baráttu sína við meiðsladrauginn.

Ká þjálfari, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna í körfubolta, hefur gefið það út að Rose sé kominn á sama stig sem leikmaður og hann var á þegar hann var upp á sitt besta. Þá fékk hann styttu að launum fyrir leik sinn og leiddi Chicago til 60+ sigra. Núna er hann með talsvert betri meðreiðarsveina, á pappírunum í það minnsta.

Meiðslahrúgaldið Chicago komst í úrslitakeppnina í fyrra af vanefnum, en ef liðið fær nú til liðs við sig heilan Derrick Rose, heilan Pau Gasol, x-faktórinn Nikola Mirotic og skotóðan Doug McDermott, er ekki skrítið að sumir sjái fyrir sér að þetta lið eigi eftir að stinga af í vetur (jafnvel þó það missi Carlos Boozer!).

Hástökkvari vikunnar verður svo auðvitað Cleveland. Lið eiga það til að hækka aðeins í áliti hjá mönnum við það að fá til sín tvo af bestu körfuboltamönnum í heimi og þannig er það hjá Cavaliers núna.

Cleveland minnir okkur dálítið á Íslending sem tók 100% gengislán til að kaupa sér allt of dýran bíl en sleppur með skrekkinn, á meðan þeir sem söfnuðu sér fyrir fjárfestingum sínum sáu peningana sína gufa upp.

Cleveland er búið að vera í því að drulla á sig alveg síðan löngu áður en LeBron James fór þaðan í burtu árið 2010, en eina refsingin sem félagið hefur fengið fyrir alla þessa drullu er að fá alltaf fyrsta valréttinn í nýliðavalinu. Svona eins og bara til að leyfa því að halda áfram að drulla og drulla enn meira - drulla jafnvel á aðra. Stundum er lífið bara bæði samhengislaust og óréttlátt.

Lið Cavaliers verður fjarri því fullkomið þó það verði með þrjá af besti leikmönnum deildarinnar hver í sinni stöðu í þeim LeBron James, Kyrie Irving og Kevin Love. Þú ættir að geta unnið 50+ leiki í Austurdeildinni með þessa þrjá í byrjunarliðinu jafnvel þó Ingvi Hrafn og Jónína Ben fylli stöðu miðherja og skotbakvarðar.

Þessir þrír kappar geta skorað 30 stig í svefni, en það verður varnarleikurinn og almennur andi og taktur í liði Cleveland sem ráða því hve langt liðið fer næsta vor.

Það er fátt um fína drætti í miðherjastöðunni hjá Cavs og þó liðið sé komið með reynsluhunda eins og Mike Miller og James Jones (og jafnvel Shawn Marion og Ray Allen síðar) á bekkinn, hafa piltar eins og Dion Waiters og Kyrie Irving ekki unnið svo mikið sem fimmtíukall á Happaþrennu, hvað þá mikilvæga körfuboltaleiki.

Það ætti að verða styrkur fyrir Cleveland að hafa landað David Blatt þjálfara, en þó hann sé með flotta ferilskrá í Evrópu, á hann enn eftir að sanna sig í NBA.

Líklega má í fljótu bragði reikna með því að lélegu liðin í Austurdeildinni haldi áfram að vera lélegu liðin í Austurdeildinni. Miðjupakkinn hinsvegar - liðin sem skriðu í úrslitakeppnina - ættu að geta bætt aðeins við sig.

Þetta eru Toronto, Washington, Charlotte og Atlanta. Þessi fjögur eru sumpart keyrð áfram af ungum mönnum sem ættu að verða betri í vetur og svo eru þau að bæta aðeins við sig mannskap líka. Mest munar þar líklega um það að Charlotte fær til sín Lance Stephenson frá Indiana og Atlanta endurheimtir Al Horford - a.m.k. þangað til hann meiðist aftur og verður aftur frá það sem eftir lifir leiktíðar.

Það er ekki víst að Indiana verði nógu gott til að hanga í þessum svokallaða miðjupakka í austrinu, en það er mjög líklegt að Miami verði á þessum slóðum.

Sem sagt: ef við skjótum út í loftið á það í ágúst hvernig Austurdeildin á eftir að líta út í vetur, gætum við tippað á að Chicago yrði með besta liðið, Cleveland kæmi þar á eftir og svo einhver súpa af Miami, Toronto, Washington, Charlotte og jafnvel Brooklyn.

Restin af liðunum í austrinu ættu ekki að verða merkileg í vetur, en það þarf þó alls ekki að þýða að verði eitthvað leiðinlegt að horfa á þau spila körfubolta.

Þannig eru mjög spennandi nýliðar í liðum eins og Milwaukee, Boston, Philadelphia og Orlando svo eitthvað sé nefnt, svo þetta verður ekki allskostar ömurlegt. Að minnsta kosti aldrei eins og á síðustu leiktíð, þegar Austurdeildin setti vetrarbrautarmet í langskitu án atrennu.

Austurdeildarleikirnir voru margir svo lélegir á síðustu leiktíð að það var farið að hafa áhrif langt út fyrir körfuboltavöllinn. Leikur New York og Detroit í byrjun mars var til dæmis svo lélegur að vörubíll í úthverfi í Lansing í Michigan skautaði út af veginum og keyrði í gegn um hárgreiðslustofu og hænsnabú áður en hann endaði ónýtur á toppnum úti á túni.

Þetta var ekkert grín þarna í austrinu á síðustu leiktíð, en þetta lítur allt miklu betur út í ár. Þér er óhætt að treysta því þegar meira að segja neikvæðnihundar og vestansleikjur eins og við segjum þér það.