Thursday, August 7, 2014
Shawn Kemp tróð körfuboltum á fólk
Þeir sem hafa fylgst með NBA frá því deildin ruddi sér til rúms hér á landi muna líklega allir eftir framherjanum Shawn Kemp.
Þessi mikli háloftafugl sló í gegn með Seattle Supersonics sáluga á fyrstu árum tíunda áratugarins og líklega er óhætt að segja að hann hafi toppað sem leikmaður í lokaúrslitunum árið 1996 þegar lið hans tapaði þar fyrir Chicago Bulls.
Áður en Kemp varð einn besti framherji deildarinnar, var hann hinsvegar fyrst og fremst þekktur sem háloftafugl og krafttroðari. Tomahawk-troðslurnar hans urðu heimsfrægar og samvinna hans og Gary Payton í hraðaupphlaupum Sonics var sjónvarpsefni í hæsta gæðaflokki.
Við rákumst á þessa skemmtilegu syrpu hérna fyrir neðan með mörgum af mögnuðustu troðslunum hans Kemp og meira að segja Kemp-aðdáendur eins og við fengum smá gæsahúð við það að rifja upp þvílíkt eintak af íþróttamanni drengurinn var fyrir um tuttugu árum síðan.
Við mælum eindregið með því að yngri körfuboltaáhugamenn skoði þetta myndband hérna fyrir neðan vel, þó margar af klippunum líti út fyrir að vera frá því árið 1946 vegna lélegra myndgæða.
Veitið því sérstaklega athygli hvað Kemp tróð fáránlega oft í andlitið á tveimur af bestu skotblokkurum sinnar kynslóðar - þeim Alonzo Mourning og Dikembe Mutombo.
Það má með sanni segja að Kemp hafi verið undanfari Blake Griffin á troðsviðinu, því ekkert fannst honum skemmtilegra en að gefa mönnum slátur - ekki síst leikmönnum Golden State Warriors eins og þið sjáið á mörgum af hans frægari troðslum undir lokin á myndbandinu.
Það er ekki laust við að við fyllumst nostalgíu þegar við horfum á Kemp nudda miðsvæðinu á sér í andlitið á andstæðingunum og láta þá svo vita vel af því eftir á.
Miðað við reglurnar í dag hefði hann fengið tæknivillu eftir um það bil 68% af þessum troðslum sínum, en á síðustu öld mátti nefnilega sýna tilfinningar á körfuboltavöllum, öfugt við það sem tíðkast í dag.
Góða skemmtun.
Efnisflokkar:
Andlitsmeðferð
,
Goðsagnir
,
Shawn Kemp
,
Slátur
,
Sonics
,
Veðrið þarna uppi