Monday, August 11, 2014

Ljómandi sigur hjá landsliðinu


Það kom ansi mörgum á óvart a strákarnir okkar í körfuboltalandsliðinu tækju Stór-Bretana og flengdu 83-70 þá í Laugardalshöllinni í kvöld. Piltarnir okkar virðast hinsvegar hafa vitað það allan tímann að þeir ættu eftir að taka þetta.

Af því við höfum ekki hundsvit á körfubolta, spurðum við okkur reyndara fólk út í breska landsliðið og styrk þess. Allir voru á einu máli um að lið sem tryggir sér sæti á hverju stórmótinu á fætur öðru (án þess að nota NBA-menn í undankeppnum) hljóti bara að kunna körfubolta, jafnvel þó Alan Bannister sé hættur að spila.

Þið eruð öll búin að sjá og lesa um hvernig þetta fór allt saman. Hvernig piltar eins og Haukur Pálsson og Martin Hermannsson virtust ákveða það í síðari hálfleiknum að nú væri best að vinna körfuboltaleik.

Mikið er búið að ala þessa stráka vel upp á körfuboltasviðinu.

"Rosalega er gaman að sjá þessa ungu stráka. Þeir mættu bara og kláruðu leikinn!" sagði fyrrum landsliðsmaður himinlifandi eftir leikinn. Brosti hringinn eins og synir hans hefðu verið að vinna Nettómótið.

Flestir strákanna voru að gera eitthvað skemmtilegt fyrir okkur í kvöld. Hlynur Bæringsson Hlynur Bæringsson-aði til dæmis yfir sig með 14/15 leik, hörkuvörn, baráttu og er sjálfsagt enn að plokka tennurnar á Englendingunum úr olnbogunum á sér. Okkur þykir svo vænt um Hlyn.


Pavel vinur okkar skvetti út fjórtán stoðsendingum fyrir okkur og í framhaldinu fórum við að velta því fyrir okkur hvert vinningshlutfall liðanna hans Pavels sé þegar hann gefur 10+ stoðsendingar. Hvað þá þegar hann gefur 14+ stoðsendingar. Við tippum á að það sé þolanlegt.

Þú til dæmis vinnur ekkert KR ef Pavel er með 10+ stoðsendingar. Það er bara þannig.

Haukur Pálsson er alltaf að verða sterkari og sterkari leikmaður og við kunnum ákaflega vel við það hvað hann var duglegur að skíta út tölfræðiskýrsluna sína í kvöld með 24/9/4/3 leiknum sínum og ljómandi hittni.

Svo sá undrabarnið okkar Martin Hermannsson til þess að við þurftum ekki að sakna Jóns Arnórs Stefánssonar í smá stund. Það var gaman að sjá Martin spila aftur, því við fáum ekkert allt of mörg tækifæri til þess á næstu misserum.

Svo magnað hvað Martin er með sérstakan takt í sóknarleiknum og er alltaf að finna leiðir til að setja körfubolta ofan í körfur - jafnvel þó hann sé stundum í bölvanlegum aðstæðum til að reyna að varpa körfuboltanum ofan í körfuna!

Sjáðu bara síkvensið hérna fyrir neðan - undrakörfuna hans. Taktu eftir því að Martin hefur tíma til að úrbeina hreindýr á tímanum sem líður frá því hann tekur skotið með tveggja metra mann hangandi á sér og þangað til boltinn fer ofan í körfuna. Fær svo öskur, fimmu og kassa frá Bæringssyni, sem hugsar eflaust með sér að kannski sé bara hægt að nota þennan pjakk eitthvað í landsliðinu...



























The name is Hermannsson. Martin, Hermannsson!

Við nennum ekki að vera með einhverja hæperbólu þó landsliðið okkar vinni einn leik og við fíflumst aðeins með því að bjóða upp á þessa dásamlega hræðilegu fyrirsögn þarna uppi.

En mikið fjandi stóðu þeir sig vel í dag piltarnir okkar. Hérna einu sinni var verkefnið að komast í Evrópukeppni svona eins og að ganga yfir Sahara, en í dag er það eitthvað mannlegra. Við skulum samt ekkert vera að hugsa svo langt og njóta þess bara að smjatta á þessum ljómandi fína sigri á Stóra-Bretlandi.

Eitthvað var tekið af myndum á þessum leik. Kíktu endilega á þær, þó þær séu ekki góðar. Það á að henda þeim hvort sem er.