Saturday, August 2, 2014

Svona var sumarið 2014: LeBron James


Lætin í kring um leikmannamarkaðinn, nýliðavalið og sumardeildirnar í Orlando og Las Vegas eru orðin svo mikil að segja má að NBA-pennar vestra fái sama og ekkert sumarfrí. Bættu svo við það HM í körfubolta og þá er sumarið orðið ansi stutt hjá þeim sem vinna t.d. við það að fjalla um NBA á einn eða annan hátt.

Ekkert að því.

Við sögðum ykkur eftir að lokaúrslitaeinvíginu lauk að við ætluðum ekki að taka okkur langt sumarfrí og við ætlum að reyna að standa við það. Auðvitað er andinn á ritstjórninni ekki eins frjór á sumrin og hann er yfir veturinn, en eins og við sögðum áðan, hefur ekki verið nein lognmolla í NBA deildnni í sumar.

Það er yfirlýst stefna NBA-manna að reyna að gera deildina að skemmtiatriði sem nær yfir allt árið og þannig eru t.d. uppi hugmyndir um að færa nýliðavalið fram í júlí. Ekkert að því fyrir okkur venjulega fólkið, en það yrðu skelfileg tíðindi fyrir t.d. fjölmiðlafólk sem fengi þá enn þrengri glugga til að komast í sumarfrí.

En hvað um það. Þessi pistill átti ekki að verða grátpistill fyrir ameríska blaðamenn. Við ætluðum að kíkja aðeins á hvað er búið að vera að gerast á leikmannamarkaðnum í sumar. Hvaða félögum hefur tekist vel til og hver sitja eftir með sárt ennið.

Ef við ættum að skila eins stuttri skýrslu og mögulegt væri um hvað gerðist í NBA í sumar, yrði hún eitthvað á þá leið að Cleveland hefði dottið í lukkupottinn og Austurdeildin væri orðin miklu sterkari. 

Þið sem eruð búin að fylgjast með á NBA Ísland lengur en í tvær vikur vitið hinsvegar að ritstjórnin á þessum miðli hefur aldrei verið þekkt fyrir að koma hlutunum frá sér í stuttu máli.

En fyrst skal frægan telja - LeBron James og ævintýri hans.

LeBron James ákvað að yfirgefa Sólstrandargæjana í Miami og snúa aftur heim eftir að hafa verið miðpunkturinn í partíi sem stóð yfir í fjögur ár. Ákvörðun James að skipta yfir til Miami árið 2010 var ein sú umdeildasta í sögu deildarinnar, en drengurinn náði að gera nokkurn veginn það sem hann ætlaði sér hjá Miami - að vinna meistaratitil - og titla, meira að segja.

Þegar einhvert fíflið með falska Woj-twitterinn tísti um það snemma í sumar að LeBron James ætlaði að fara frá Miami, sögðum við strax að það væri frétt ársins í NBA deildinni. Mínútu síðar áttuðum við okkur á því að umrætt tíst var kjaftæði, en þá grunaði okkur ekki að fíflagangurinn ætti eftir að verða að veruleika.

James var svo krúttlegur að gefa strák á Sports Illustrated "skúbbið" um að hann ætlaði að snúa aftur heim og það var vissulega frétt ársins, hvort sem einhver hálfviti var búinn að taka spennuna úr því nokkrum dögum fyrr með því að stofna falskan Twitter-reikning.

Það er einfaldlega frétt ársins í NBA ef besti körfuboltamaður í heimi ákveður að yfirgefa félagið sem hann spilar með þegar hann er á hátindi ferilsins. Og nú er LeBron James búinn að gera það tvisvar sinnum. Hann er sannarlega engum líkur hann LeBron James, hvorki sem leikmaður né manneskja.

Og aftur er LeBron James búinn að breyta valdajafnvæginu í NBA deildinni á umtalsverðan hátt með því að skipta um heimilisfang. 

Þetta flakk hans á milli Cleveland og Miami eru þýðingarmestu flutningar einstaklings í NBA deildinni hvað valdajafnvægi varðar síðan Shaquille O´Neal fór frá Los Angeles Lakers fyrir tíu árum síðan (Garnett til Boston árið 2007 kemst nálægt því, en þar fylgdi Ray Allen með í kaupunum líka).

Eins og James gat um í bréfinu sínu fallega til Cleveland-búa á dögunum, gerir hann sér fulla grein fyrir því að þó lið Cavaliers verði ansi álitlegt með hann innanborðs, á það langt í land með að verða tekið alvarlega sem meistarakandídat. Þetta veit enginn betur en James sjálfur, sem er búinn að leika til úrslita fjögur ár í röð, þar sem hann hefur bæði lamið og verið laminn (í hakk).

Vissulega er allt of snemmt að segja til um hversu sterkt Cleveland verður næsta vor, því við vitum ekki einu sinni hvernig liðið verður mannað - hvað þá hvernig því kemur til með að takast til. 

Stóra spurningin hjá Cleveland í dag er hvort því tekst að krækja í ofur-framherjann Kevin Love eins og til hefur staðið í allt sumar. Forráða- og stuðningsmenn Cavaliers slefa yfir tilhugsuninni að geta teflt fram byrjunarliði með LeBron James, Kyrie Irving og Kevin Love, þremur af skærustu stjörnum deildarinnar hver á sínu sviði.

Til að næla í Ástþór er þó nokkuð ljóst að Cleveland þarf að sætta sig við að missa ungstirnið Andrew Wiggins sem liðið tók með enn einum fyrsta valréttinum sínum í nýliðavalinu á dögunum. 

Wiggins þessi þykir gríðarlegt efni, en er ungur að árum og þó hann geti vissulega hjálpað LeBron James og félögum í vetur, þykir ljóst að framlag hans yrði aldrei nema brotabrot af því sem Kevin Love kæmi með inn á borðið. 

Fari hinsvegar svo að Wiggins standi undir öllum þeim björtu væntingum sem til hans eru gerðar, er ljóst að hann myndi hjálpa liðinu miklu lengur en Love og taka þá væntanlega við keflinu af LeBron James þegar að því kemur.

Þetta er mjög erfitt val og sitt sýnist hverjum um ágæti þessara meintu viðskipta milli Cleveland og Minnesota. Margir eru hissa á því af hverju Minnesota er ekki þegar búið að taka þeim tilboðum sem sagt er að því hafi boðist í Ástþór, því hann verður bráðum með lausa samninga og þá missir Minnesota auðvitað allan meðbyr í samningaviðræðunum. 

Úr því sem komið er, er því útlit fyrir að félögin sem hafa áhuga á að reyna að landa Kevin Love ætli bara að bíða róleg þangað til óhjákvæmileg örvænting grípur um sig hjá Minnesota þegar líður á veturinn. Þó það nú væri. Engin ástæða til að eltast við þrjóskuna í forráðamönnum Úlfanna. Til hvers í andskotanum? Ef þeir ætla að láta Ástþór fara fyrir ekki neitt - þá þeir um það.

En aftur að Cleveland. Lið sem fær til sín hákarl eins og LeBron James verður umsvifalaust meistarakandídat í augum fjölmiðla hvort sem það eru raunhæft eður ei. 

Eins og við sögðum áðan, er alls ekki raunhæft að ætla þessu liði að vinna titil næsta vetur, en lið með LeBron James og þokkalegan mannskap í kring um hann ætti að geta komist í úrslit Austurdeildar. Sérstaklega þessarar Austurdeildar, þó hún verði líklega mun skárri í vetur en á síðustu leiktíð.

Hvort sem það verður Love eða Wiggins sem keyrir Cleveland áfram með James og Irving, verður það varnarleikurinn sem verður stærsti veikleiki liðsins á næstu leiktíð. Styrkur Cleveland liggur í því að það er með nokkra mjög hæfileikaríka leikmenn í sínum röðum og nýjan þjálfara sem er miklu betri en þeir sem fyrir voru.

Veikleikarnir eru aftur á móti fleiri og vega þyngra. Þó menn eins og LeBron James og Mike Miller komi með gríðarlega reynslu með sér inn í liðið, eru strákarnir sem eru þar fyrir nánast undantekningarlaust algjörlega grænir og kunna ekki að vinna. 

Stóru mennirnir hjá liðinu eru alls ekki nógu góðir og sá sem er skárstur og reyndastur af þeim (Anderson Varejao, eini maðurinn sem spilaði með LeBron James hjá Cleveland fyrir fimm árum) er alltaf meiddur.

Það sem vegur svo þyngst er að allir þessir reynslulausu (og sumir skotglöðu) leikmenn sem fyrir eru hjá Cleveland, geta ekki spilað vörn til að bjarga lífi sínu. Það er því gríðarleg vinna fyrir höndum hjá David Blatt og þjálfarateymi hans í vetur.

En LeBron James vissi vel hvað hann var að fara út í þegar hann ákvað að fara aftur heim og hann virðist staðráðinn í að færa Cleveland-búum fyrsta meistaratitil sinn í atvinnuíþróttum síðan ruðningsgoðsögnin Jim Brown gerði það með Browns fyrir sléttri hálfri öld síðan.

Þetta er gríðarleg áskorun og það verður gaman að fylgjast með því hvernig honum tekst til.

Það er nefnilega eitt að gera lið að meistara.

Það er annað að gera það í Cleveland.