Friday, August 15, 2014

NBA Ísland spáir í spilin fyrir veturinn


Það sem átti að verða stutt og létt upphitun fyrir komandi tímabil í NBA deildinni varð auðvitað eitthvað allt annað og miklu meira eins og svo oft hjá okkur.

En við hugsuðum með okkur að það væri nú ekki andskoti mikið NBA-tengt að lesa fyrir aumingja lesendur okkar þessa dagana, svo þeir hefðu kannski bara gaman af því að stauta sig í gegn um hátt í 5000 orða hlemm.

Það sem fylgir hér á eftir er smá hugleiðing um hvers er að vænta frá liðunum í Austurdeildinni næsta vetur, þó þessi pæling sé náttúrulega allt of snemma á ferðinni. Hér er á ferðinni rakalaust blaður út í loftið eins og venjulega þegar ritstjórn þessa miðils tekur sig til.

Ætla mætti að við þyrftum að skrifa annað eins um Vesturdeildina næst - og við gerum það nú væntanlega einn daginn - en þar hefur sumarið verið áberandi rólegra en í austrinu, svo það eru litlar líkur á því að þú verðir í þrjár vikur að lesa þá pælingu eins og þessa.

En nú er best að halda kjafti og leyfa ykkur að lesa þetta í friði. Vesgú, elskurnar.

ATLANTA HAWKS

Atlanta hefði með öllu átt að vera stór "player" á leikmannamarkaðnum í sumar, en sumir hlutir breytast seint og svo virðist sem atvinnumenn í körfubolta kjósi heldur að spila á Svalbarða en í Atlanta. Það er rétt að þeir stuðningsmenn sem á annað borð mæta á leiki hjá Hawks eru með frekar lágan blóðþrýsting, en það verður samt að segjast eins og er að það er fáránlegt að félag með svona efnilegt lið skuli ekki geta fengið til sín leikmenn.

Lið Hawks var ágætis Öskubuskuævintýri á síðustu leiktíð þegar það var í raun klaufi að slá Indiana ekki úr leik í fyrstu umferðinni eftir að hafa komist í 3-2 með sjötta leikinn á heimavelli. Eins og flestir vita var Atlanta þarna án síns besta leikmanns, Al Horford, og því búast flestir við að liðið taki skref fram á við í vor - jafnvel þó það verði ekki stórt. 

Mike Budenholzer þjálfari (úr San Antonio-skólanum) er að gera fína hluti með þetta lið og hefur lýst því yfir að liðið sé tilbúið að taka næsta skref í vetur eftir eðlilegan aðlögunartíma á síðustu leiktíð. Hann nýtur þess munaðar að vera með fagmenn eins og Horford, Paul Millsap, Jeff Teague og Kyle Korver sér til aðstoðar inni á vellinum.

Atlanta væri ekki árennilegt lið ef því hefði tekist að bæta við sig góðum leikmanni í sumar, en það varð að láta sér nægja að ná í varnarjaxlinn Thabo Sefholosha frá Oklahoma City. Sefolosha er fínn varnarmaður og dýpkar bekkinn hjá Hawks, en eins og sást í úrslitakeppninni í vor er hann gjörsamlega gagnslaus sóknarmaður. Fólki er því bent á að halda ekki niðri í sér andanum meðan það bíður eftir því að Svisslendingurinn verði úrslitabitinn í Atlanta-púslinu.

Niðurstaða: Það má því kannski segja að það verði fastir liðir eins og venjulega hjá Atlanta næsta vetur. Liðið ætti að vinna í kring um 50 leiki ef Al Horford heldur heilsu, en það er reyndar alltaf að verða stærra og stærra ef, því piltinum gengur illa að halda sér heilum. Því miður fyrir Atlanta er erfitt að sjá að það hafi burði til að fara lengra en í aðra umferð úrslitakeppninnar með þann mannskap sem það hefur yfir að ráða í dag.

Þetta lið er að minnsta kosti einum góðum leikmanni frá því að gera tilkall til Austurdeildartignar, en það þýðir ekki að sé eitthvað leiðinlegt að horfa á það spila körfubolta. Rækjusamlokurnar í Atlanta-borg nenna kannski ekki að mæta á leiki, en lið Hawks getur þó huggað sig við að vera í dag eitt af "költ" liðunum í NBA sem nýtur aðdáunar og virðingar fjölmiðlamanna sem fylgjast með NBA deildinni.

BOSTON CELTICS

Það er skemmst frá því að segja að það er ekkert að frétta hjá gamla stórveldinu. Ekki ef þú miðar við afrek fyrri ára og áratuga. Boston situr bara á biðstofunni og hugsar málið. 

Danny Ainge og félagar hafa sem kunnugt er verið að eltast við kappa eins og Kevin Love en Boston getur ekki boðið Minnesota neitt nógu girnilegt til að ýta þeim viðskiptum í gegn. 

Félagið framlengdi samninginn við bakvörðinn Avery Bradley, fyrir allt of háa upphæð að margra mati, og fékk til sín þá Tyler Zeller, Evan Turner og svo nýliðann Marcus Smart. 

Ákvörðun Celtics að taka bakvörðinn Smart í nýliðavalinu þótti renna stoðum undir þá kenningu að Rajon Rondo væri á förum frá félaginu en það er meira en að segja það að versla með Rajon Rondo. 

Það eina sem er hrikalegra en að hugsa um pressuvörn frá Marcus Smart, Rajon Rondo og Avery Bradley er að hugsa til þess hver skotnýting þeirra utan fimm metra verður næsta vetur.

Niðurstaða: Það verður gaman að fylgjast með Marcus Smart í vetur og það er alltaf dálítið gaman að horfa á Rajon Rondo spila körfubolta, en þar fyrir utan verður sennilega fátt um fína drætti hjá Celtics. Útlit fyrir annan langan vetur sem aðeins þeir hörðustu standa af sér.

BROOKLYN NETS

Milljarðamæringarnir í Brooklyn voru eitt af þeim liðum sem menn voru hvað spenntastir fyrir því að sjá fyrir ári síðan, en ekkert slíkt er uppi á teningnum að þessu sinni þó launatölurnar hjá félaginu haldi áfram að vera stjarnfræðilegar. 

Garnett-Pierce viðskiptin fóru nálægt því eins illa og mögulegt var og meiðslavesen sá til þess að Nets var aldrei nálægt því að ná sínum pótensjal á síðustu leiktíð.

Nú eru þeir Paul Pierce (Washington) og Shaun Livingston (Golden State) farnir frá félaginu, sem hefur fengið lítið í staðinn. 

Kombó-bakvörðurinn Jarrett Jack er mættur til Brooklyn þar sem hann kemur til með að skjóta á körfuna þangað til hann verður látinn fara til næsta liðs. Brooklyn samdi við Bojan Bogdanovic til þriggja ára, en það á tæplega eftir að hreyfa nálina eins og sagt er.

Eins og við höfum skrifað um það bil sautjánhundruð sinnum, er Deron Williams prímusmótorinn í þessu Nets-liði og það eru í rauninni slæmu fréttirnar, því hann getur ekki með nokkru móti haldið sér heilum og spilar því oftast langt undir fyrri getu þegar hann spilar á annað borð. Miðherjinn Lopez á væntanlega eftir að mæta sterkur til leiks á ný eftir að meiðsli tóku hann úr leik á síðustu leiktíð, en hann gæti alveg eins tekið upp á því að meiðast aftur - rétt eins og Kevin Garnett, sem er orðinn 58 ára gamall. 

Það hefur varla farið framhjá nokkrum NBA-manni að Nets er komið með nýjan þjálfara eftir farsakennda uppsögn Jason Kidd í sumar. Lionel Hollins gerði góða hluti með Memphis á sínum tíma og er ágætis þjálfari, en hann er ekki með efnivið í höndunum til að fara langt í úrslitakeppninni. 

Það eru nokkrir ágætir körfuboltamenn í liði Nets en planið sem unnið hefur verið eftir til þessa er ekki að virka. Við erum ekki viss hvort við eigum að hrósa Mikhail Prokhorov eða hlæja að honum fyrir sturlaða eyðsluna á síðustu leiktíð, þegar hann setti NBA met með því að ausa einhverjum 100 milljónum dollara í lúxusskattinn. 

Það er augljóst að það er meira en að segja það að "kaupa sér titil" í NBA eins og hægt er að gera í fótboltanum. Prokhorov ætlaði að reyna það, en nú er talið að meira að segja hann sé að hugsa um að slaka aðeins á í eyðslunni. Gallinn er sá að Brooklyn er búið að skuldsetja sig í botn hvað varðar valrétti næstu árin, svo það verður ekkert grín að reyna að byggja upp nýtt lið þar.

CHARLOTTE HORNETS

Guði sé lof að Charlotte skuli vera komið með upprunalega nafnið sitt. Verstur fjandinn að við eigum sjálfsagt öll eftir að kalla það Kettina áfram í nokkra mánuði áður en við náum að tileinka okkur enn eina nafnabreytinguna. 

Rúsínan í afturendanum hvað þetta varðar er án nokkurs vafa nýjasti búningurinn hjá Hornets. Hann er alveg óskaplega fallegur.

Og talandi um fallega hluti. Öskubuskuævintýrið Charlotte gæti átt eftir að halda áfram næsta vetur eftir að hafa dansað svona fallega alla leið inn í úrslitakeppnina í vor sem leið. 

Þetta lið, sem var búið að vera lélegur brandari árin á undan, byrjaði allt í einu að vinna körfuboltaleiki. Viðsnúningur Charlotte kom að hluta til vegna þess að yngri leikmenn liðsins byrjuðu loksins að gera eitthvað gagn, en þá má auðvitað ekki gleyma þætti Al Jefferson, sem gaf liðinu nýja vídd í sóknarleikinn.

Michael Jordan og félagar eru staðráðnir í því að stefna hærra á komandi tímabili og til að undirstrika þann metnað, náðu þeir að stela glaumgosanum Lance Stephenson frá Indiana Pacers. Það á eftir að koma í ljós hvort Stephenson heldur sér á mottunni, en ef hann verður til friðs og spilar eins og hann getur best, ætti hann að verða ljómandi viðbót við efnilegt lið Charlotte.

Liðið vann 43 leiki á síðustu leiktíð, en það var aðeins í annað skipti síðan árið 2002 sem liðið vann yfir 40 leiki á tímabili. Vissulega lélegt, en það er erfitt að byggja upp lið í NBA deildinni. Enn erfiðara ef enginn á skrifstofunni veit hvað hann er að gera.

Meðan fækkar ört á t.d. Úlfavagninum, er traffíkin á Geitungavagninum að þyngjast með hverjum deginum. Veðurkortið segir að Charlotte ætti að geta bætt vinningshlutfallið sitt þokkalega í vetur og við sjáum ekki ástæðu til annars en að stökkva um borð í þann vagn. Við skulum bara segja að glasið sé hálffullt hjá Jordan og félögum, sem taka því fagnandi að prófa aðeins að synda um í meðalmennskunni eftir að hafa verið að setja NBA met í lélegheitum undanfarin ár.

CHICAGO BULLS

Manstu þegar Chicago vann 62 leiki, Derrick Rose var kjörinn MVP og Bulls fór alla leið í úrslit Austurdeildarinnar? 

Ef þér finnst langt síðan, er það af því það eru þrjú ár síðan. Einmitt.

Það hefur ekki verið neitt grín að halda með Chicago Bulls síðan þetta var. Endalaus meiðsli Derrick Rose og reyndar flestra lykilmanna liðsins hafa gert það að verkum að ekkert varð úr meistarametnaði Chicago-manna. 

Í dag er útlitið þó allt annað og við höfum meira að segja séð einn og einn stuðningsmann Bulls brosa í sumar. Þetta er af því Derrick Rose hefur lofað góðu á landsliðsæfingum og af því forráðamenn Bulls hafa aldrei þessu vant opnað veskin aðeins í sumar.

Chicago komst í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð þrátt fyrir að vera ekki með mikið sterkari sóknarleik en Sindri á Höfn í Hornafirði, en það kom til út af sterkum varnarleik liðsins og jú þeirri staðreynd að Austurdeildin var rusl. 

Núna er annað uppi á teningnum í Borg vindanna og ekki laust við að beri jafnvel á bjartsýni. Þetta er af því Derrick Rose er að koma aftur og af því menn á borð við Pau Gasol, Nikola Mirotic og nýliðinn og stórskyttan Nikola Mirotic eru mættir á svæðið. Bættu svo við efnilegum leik Tony Snell í Sumardeildunum og þú ert kominn með ástæðuna á bak við þessa bjartsýni.

Chicago náði kannski ekki að landa Carmelo Anthony í sumar eins og vonir stóðu til um, en þó Pau Gasol sé kominn af léttasta skeiði, er engin ástæða til að ætla annað en að Bulls muni taka gott stökk upp á við næsta vetur. Þeir eru kannski ansi hvítir, en þessir nýju menn eiga eftir að styrkja liðið til muna. 

Það getur vel verið að Cleveland sé búið að bæta við sig tveimur af bestu leikmönnum deildarinnar, en við fullyrðum að Chicago verði með besta árangurinn í Austurdeildinni næsta vetur ef það sleppur við meiðsli. Magnað að lið sem er búið að vera í svona rosalegu þunglyndi og vonleysi síðustu tvo ár sé allt í einu að hóta því að verða fulltrúi austursins í lokaúrslitunum í júní næstkomandi. Svona er þetta stundum - ekki síst í Austurdeildinni.

CLEVELAND CAVALIERS

Við skrifuðum nokkur orð um Cleveland um daginn og í rauninnin er ekki mjög miklu við það að bæta. 

Þar reiknuðum við með því eins og allir aðrir að Cleveland ætti eftir að taka stórt stökk upp á við. Það tryggja sleggjur eins og LeBron James og Kevin Love. 

Það eru gríðarlega skiptar skoðanir um það hvort Kevin Love er bara gaur sem setur upp flotta tölfræði í lélegu liði eða hvort hann er í raun og veru sá topp tíu leikmaður sem margir segja að hann sé.

Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig James og Love smella saman við strákana sem fyrir eru hjá Cavs og lykilatriðið er svo auðvitað hvernig nýráðnum þjálfaranum David Blatt tekst að stýra öllu dæminu. Það sem vegur þyngst er hinsvegar varnarleikurinn. 

Það er alltaf talsverður hávaði í fjölmiðlum þegar lið eins og Cleveland verða til, en það eru samt engar ýkjur þegar sagt er að þetta lið verði frábært sóknarlið. Á pappírunum, er þetta einhvert svakalegasta sóknarlið sem sett hefur verið saman og ef allir halda heilsu og spila vel saman, verður ógjörningur að ráða við Cavaliers. 

Eins og alltaf verður það hinsvegar varnarleikurinn sem segir til um það hversu langt liðið nær. Það og hvort bekkurinn nær að gera eitthvað. Kannski verður Cleveland bara svo hrikalegt sóknarlið að það útskorar allt og alla næsta vetur. En við tippum nú frekar á það að liðið þurfi lengri tíma og meiri mannskap til að vinna andstæðing úr Vesturdeildinni í úrslitakeppninni.

DETROIT PISTONS

Það er sorglegt hvað gengi Pistons endurspeglar á margan hátt gang mála í borginni sem það spilar í. Fáar borgir í Bandaríkjunum eiga undir annað eins högg að sækja og Detroit og það er eins og eymdin í þjóðfélaginu hafi smitast í körfuboltalið bæjarins.

Okkur langar rosalega að reyna að hressa stuðningsmenn Pistons við og ljúga einhverjum rósum í þá. Segja þeim að Stan Van Gundy eigi eftir að sópa upp ruslið eftir Joe Dumars og gera allt betra. Við höfum bara ekki samvisku í það.

Jú, vissulega gerði félagið vel að krækja í Van Gundy og rétta honum lyklana að klúbbnum (skrifstofudjobb líka). Það er nefnilega með ólíkindum hvað félög bæði í fótbolta og körfubolta virðast ekki átta sig á því að það eru mjög litlar líkur á því að þau nái árangri nema þau séu með plan og stöðugleika. Þú getur kannski púllað óþolinmæði og óstöðugleika ef þú heitir Chelsea eða Real Madrid, en það er almennt gáfulegra að reyna að gera hlutina eins og San Antonio og Barcelona.

Nú er Detroit (vonandi) komið með einhvers konar hornstein í Stan Van Gundy, sem er ýmsu vanur eftir að hafa skipt um skítableyjur á Dwight Howard í mörg ár. Þó að leikmenn eins og Andre Drummond gefi stuðningsmönnum Pistons einhverja von, er enn allt of mikið af hægðaheilum í þessu Pistons-liði og satt best að segja skiljum við ekki alveg hvað félagið var að gera á leikmannamarkaðnum í sumar. 

Það er morgunljóst að þú ferð ekki andskoti langt með menn eins og Brandon Jennings og Josh Smith í byrjunarliði og okkur er til efs að þú verðir eitthvað betri með því að semja við menn eins og D.J. Augustin og Jodie Meeks í sumar.

Van Gundy ætti að geta beint einhverjum af þessum trúðum á rétta braut, en þetta lið er allt of gallað til að gera eitthvað, ekki síst í ljósi þess að Austurdeildin er orðin skárri en hún var á síðustu leiktíð þegar Pistons vann ekki nema 29 leiki. Þetta verður langur vetur í Bílaborginni alveg eins og undanfarin ár.

INDIANA PACERS

Úff. 

Það er orðið sem kemur upp í hugann þegar nafn Indiana Pacers ber á góma. Einhver hefði haldið að vandræðagangurinn á þessu liði á síðustu leiktíð hefði verið nóg. Ekki aldeilis. Vandræðin voru ekki einu sinni byrjuð. 

Forráðamenn Indiana sýndu það og sönnuðu með framkomu sinni í kjaradeilunni við Lance Stephenson í sumar að þeim var aldrei alvara með að halda honum. 

Á pappírunum er það glórulaus ákvörðun að láta Stephenson fara út af einhverjum skitnum krónum, en það er alveg ljóst að þar var ekki öll sagan sögð. Það er ekkert leyndarmál lengur að Stephenson átti stóran þátt í erfiðleikum liðsins á síðustu leiktíð og svo virðist sem Larry Bird og félagar hafi metið það þannig að það væri ekki þess virði að borga nema x háa upphæð til að halda honum. Charlotte var tilbúið að borga umrætt x og því er enginn Lance til að hlaupa í risavaxið skarðið sem Paul George skilur eftir sig eftir fótbrotið ógeðslega á dögunum.

George og Stephenson voru á að giska 70-80% af sóknarleik Indiana á síðustu leiktíð og gegndu báðir stórum hlutverkum í varnarleiknum líka. Það er því algjört áfall fyrir Pacers að missa þá báða á einu bretti og Bird og félögum er óhætt að setja möppuna sem þeir tóku saman fyrir tímabilið ofan í skúffu.

Fyrir 9 mánuðum síðan var Indiana eitt af liðunum sem menn töluðu um að ættu besta möguleika á að velta Miami af stalli sem besta lið deildarinnar. Í dag teldist það kraftaverk ef liðið kæmist í úrslitakeppnina. Vonandi nær Paul George sér að fullu eins og spáð er, en hann er ekki inni í myndinni fyrr en á þarnæstu leiktíð og enginn veit hvað verður í gangi þá. 

Með smá óheppni eru dagar Indiana sem úrvalsliðs í NBA taldir. Það er viðbjóðsleg tilhugsun, en svona er bara stutt á milli í þessu stundum. Láttu þér batna, Paul George.

MIAMI HEAT

Allt of margir - allt frá óbreyttum bolum að blaðamönnum - fengu sér feitan túss og skrifuðu Miami Heat út af sakramentinu þegar LeBron James speglaði ákvörðun sína um daginn. 

Við ætlum ekki að vera svo andskoti dramatísk. Það getur vel verið að Dwyane Wade sé stundum á annari löppinni og LeBron James sé farinn, en það þýðir ekki að Miami sé allt í einu orðið lélegt í körfubolta! Látt´ekki svona! 

Þó Austurdeildin verði ekki alveg sama ruslið og hún var á síðustu leiktíð, er morgunljóst að lið með menn eins og Dwyane Wade, Chris Bosh og Luol Deng sem er þjálfað af Erik Spoelstra er ekkert drasl. 

Auðvitað koma menn eins og Deng og Josh McRoberts ekkert í staðinn fyrir James, en ef Spoelstra tekst að mótívera þennan mannskap, hefur hann bæði reynslu og getu til að halda Miami í mjög virðingarverðri stöðu í Austurdeildinni. Þannig sjáum við það að minnsta kosti.

MILWAUKEE BUCKS

Milwaukee er borg sem menn fara til ef þeir vilja gleyma því hvernig á að spila körfubolta. Formúlan fyrir unga leikmenn er að koma inn með látum, sýna stutta spretti af góðum töktum, vekja vonir og fara svo á fyllerí og drulla yfir allt saman. 

Þetta fyllerí getur verið heimska, leti eða metnaðarleysi - það er ekki gott að segja - en svona hefur þetta verið í Milwaukee.

Það eru nokkrir strákar með hæfileika þarna. Gríska stafrófið Giannis Antetokounmpo þótti lofa óhemju góðu á síðustu leiktíð og svo er talað um það að Jabari Parker sé nýliðinn sem er hvað tilbúnastur í að byrja að skila einhverju strax. 

Ef það sem Parker skilar strax er til dæmis San Antonio Spurs, er komin ástæða til bjartsýni fyrir Bucks. En við vitum auðvitað að það er ekkert slíkt uppi á teningnum og því verður Milwaukee áfram í eintómu rugli. 

Það er því kannski vel við hæfi að Jason Kidd hafi tekið við þjálfun liðsins í sumar. Hann virðist hafa gaman af því að hafa hlutina í rugli. En svona að öllu gríni slepptu, þarf Kidd á öllum sínum leiðtogahæfileikum og allri þeirri litlu reynslu sem hann hefur af þjálfun að halda til að vinna 25 leiki með þennan efnivið í höndunum. 

Byrjunin hjá Kidd í Brooklyn á síðustu leiktíð var skaðræði, en þegar upp var staðið náði hann að gera þokkalega hluti með lemstrað lið fullt af risavöxnum egóum. Hann hefur sem sagt sýnt að leiðtogahæfileikar hans ná út fyrir völlinn, en það er spurning hvort hann þarf ekki að að taka próf í klínískri sálfræði til að díla við hnúahausa eins og Larry Sanders. Hann þarf a.m.k. ekki að hafa áhyggur af því að vinna allt of marga körfuboltaleiki.

NEW YORK KNICKS

Skiptu um fólk á skrifstofunni, skiptu um þjálfara, semdu við ´Melo og losaðu þig við Raymond Felton - þú ert ennþá New York Knicks. 

Þríhyrningur, smíhyrningur, við getum bara ekki búið okkur til trú á þessu Knicks-rugli. Það má vel vera að Tyson Chandler hafi verið skugginn af sjálfum sér á síðustu leiktíð, en þegar hann er farinn, er varnarleikur Knicks orðinn dálítið eins og blökkumenn í alpagreinum. Það er ekkert rosalega mikið af þeim.

Það getur vel verið að einhver ykkar nenni að horfa á Knicks í vetur og það getur meira að segja verið að Derek Fisher nái að töfra fram nokkra sigra fyrir þetta lið. Samt ekki. Aumingja stuðningsmenn Knicks. Af hverju skiptið þið bara ekki um lið, svona í alvöru?

ORLANDO MAGIC

Þarna er ekki mikið að frétta, en Orlando er enn að byggja til framtíðar og liggur sko ekkert á að byrja að vinna körfuboltaleiki. 

Það sést best á því að það leyfði stigahæsta leikmanninum sínum (Arron Afflalo) að yfirgefa klúbbinn. 

Það er nóg af ungum og skemmtilegum leikmönnum í Orlando og það bætti við sig tveimur efnilegum piltum í sumar í þeim Elfrid Payton og Aaron Gordon sem báðir hafa vakið verðskuldaða athygli og búa yfir haug af hæfileikum. 

Hvorugur þeirra kann að skjóta, sem er atriði sem hefði komið Orlando að góðu, en þeir eru báðir efnilegir og nógu spennandi spilarar til að svo gæti jafnvel farið að við horfum á nokkra leiki með liðinu á komandi vetri - nokkuð sem enginn gat séð fyrir.  

PHILADELPHIA 76ERS

Lol! Þú veist að þú ert komin(n) í ruglið þegar þú ert búin(n) að skrifa 3500 orð og áttar þig á því að þú þarft að fara að skrifa eitthvað um Philadelphiha 76ers. Þú veist, liðið sem er að færa listina að "tanka" í áður óþekktar hæðir.

Það er náttúrulega ekki við Sixers að sakast nema að hluta til. Eins og reglurnar eru í NBA, verður þú að sjúga kamelljónsrassgat áður en þú getur byggt upp gott lið og meðalmennska er dauði. 

Þetta vita forráðamenn Sixers og þeir hafa því ákveðið að tefla fram blöndu af nýliðum, D-deildarmönnum og dúkalagningamönnum til að tryggja að þeir fái að velja nógu andskoti snemma í nýliðavalinu. Og ekki nóg með það, heldur tók Philadelphia þetta enn lengra með því að velja bara leikmenn sem eru ekkert að fara í búning liðsins næstu mánuði og ár af ýmsum ástæðum og tryggja þar með áframhaldandi eðlusog. 

Það eina sem hægt er að tala um á jákvæðan hátt hjá Sixers í vetur er nýliðinn Nerlens Noel (sem var meiddur allan síðasta vetur) sem sýndi lipra takta í Sumardeildinni um daginn og gæti vel átt eftir að nýtast Sixers vel ef þeir ákveða að fara að spila körfubolta í framtíðinni. 

Kannski vonast forráðamenn Sixers til þess að hann og Michael Carter-Williams eigi báðir eftir að togna á endaþarmi og missa úr hálfan veturinn svo liðið endi nú ekki fyrir ofan Milwaukee eins og á síðustu leiktíð, en við skulum vona að svo verði ekki. Kannski verður svo biðin eftir Joel Embiid þess virði, hver veit.

TORONTO RAPTORS

Eftir ansi mörg mögur ár fór Kanadaliðið Toronto loksins að geta eitthvað smávegis í körfubolta á síðustu leiktíð. 

Það setti þá félagsmet með 48 sigrum þrátt fyrir 6-12 skitu í byrjun. 

Svo var liðið ef til vill klaufi að komast ekki í aðra umferð úrslitakeppninnar þegar það lét Brooklyn henda sér út á eigin heimavelli í oddaleik, en það grætur enginn lengi yfir því hjá félagi sem hafði ekki komist í úrslitakeppnina síðan 2008.

Metnaðurinn hjá Toronto ætti því að vera að stefna hærra en á síðustu leiktíð og engin stór ástæða til að ætla að það takist. Lið sem heldur sínum mannskap og kláraði tímabilið 42-22 eftir hikst í byrjun hlýtur að eiga að geta gert fína hluti í Austurdeildinni. Engar stórkostlegar breytingar hafa orðið á liðinu í sumar, en lykilmenn liðsins eru í yngri kantinum og því ætti að vera pláss fyrir góðar bætingar í vetur eins og kraftlyftingamennirnir segja.

Öllum er reyndar skítsama, en ef ekkert lið væri leiðinlegra en Toronto, væri deildin falleg. Snældugeðveikir stuðningsmenn Raptors eiga líka allt gott skilið, þó þeir séu stundum aðeins of, blessaðir.


WASHINGTON WIZARDS

Hér er á ferðinni lið sem áfram ætti að verða í efri hluta Austurdeildarinnar. Félagið framlengdi samninga sína við miðherjann Marcin Gortat og það kostaði sannarlega sitt, en það leyfði tveimur Trevor-um að fara - þeim Ariza og Booker. 

Það kemur í hlut Paul Pierce að fylla skarð Trevor Ariza á vængnum og þó sá gamli sé seigur, er hann skref niður á við í þeirri stöðu enda var hann farinn að spila fjarka hjá Nets í fyrra. Til að fylla skarð Booker á bekknum fékk Washington til sín þá DeJuan Blair og Kris "Kardashian" Humphries, sem er svo sem sómi.

Bakvarðapar Wizards, þeir John Wall og Bradley Beal, er eitt það efnilegasta í deildinni og þeir félagar ættu að verða enn betri á næstu leiktíð. Þið getið samt hengt ykkur upp á það að það verður meiðslavesen á Nene í vetur eins og venjulega og ekki minnkar það eftir því sem hann eldist.

Heilt yfir ætti Washington í það minnsta að geta jafnað þessa 44 sigra sem það vann á síðustu leiktíð en við vitum að þar á bæ er metnaður til að gera meira. Það er bara spurning hvort innistæða er fyrir því. Velgengni liðsins á síðustu leiktíð varð til þess að félagið framlengdi samning þjálfarans Randy Wittman og það segja menn sem vita meira en við að sé grábölvað mál, því hann kunni ekkert að þjálfa.

Washington er með ágætislið á pappírunum, en við höfum ekki trú á að það geti farið lengra í úrslitakeppni en í aðra umferð eins og í vor. Heppnin er einhvern veginn aldrei með Washington og það er engin ástæða til að ætla að hún verði það eitthvað frekar í vetur en undanfarin ár. 

Ef þér finnst þetta eitthvað bölsýnt hjá okkur, viljum við minna þig á að þegar Wizards náði í aðra umferðina í vor, var það í annað skipti síðan árið 1982 sem liðið komst upp úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Það er því ekki eins og sagan sé sérstaklega á bandi atvinnukörfuboltaliðsins í Washington eins og Joe House kallar það.

---------------------------------------------------------

P.s. -- NBA Ísland er ókeypis, en þeim sem hafa tök á því er bent á að þeir geta hjálpað til við rekstur síðunnar með frjálsum framlögum. Það er hægt að gera á einfaldan hátt með því að smella á gula hnappinn til hægri á síðunni sem á stendur "Þitt framlag." 

Við gerum okkur grein fyrir því að svona væl er ekki vinsæll lestur, en þetta skiptir talsverðu máli. Ef þú hefur þannig gaman af að lesa NBA Ísland og langar að sýna þakklæti þitt eða jafnvel halda upp á fimm ára afmæli síðunnar, getur þú smellt á áðurnefndan hnapp og glatt ritstjórnina óendanlega.

Takk elskurnar

Ritstjórnin