Sunday, August 3, 2014

Það er ekki alveg sama hvar þú spilar körfubolta


Stóri-Al Jefferson hjá Charlotte Hornets er prúður og vel upp alinn piltur frá Mississippi, nánar tiltekið frá Monticello, en það er bær á stærð við Sandgerði í suðurhluta ríkisins.

Því má kannski segja að hann hefði alist upp í Mjóafirði í Suður-Múlasýslu ef hann hefði fæðst á Íslandi. Þó má reyndar teljast ólíklegt að hann hefði farið út í körfuboltann ef hann hefði alist upp hjá Fúsa á Brekku, þrátt fyrir að vera vel á þriðja metrann á hæð.

Atlanta-framherjinn Paul Millsap er frá talsvert stærri borg sem heitir Monroe í norðurhluta nágrannaríkisins Louisiana. Hann er kannski ekki alveg sami sveitamaðurinn og Jefferson, en báðir eru þeir rólegir og geðþekkir piltar sem eiga það jú sameiginlegt að vera frambærilegir körfuboltamenn. Vissulega eiga þeir það líka sameiginlegt að hafa verið samherjar hjá Utah Jazz á árunum 2010 til 2013.

Þessar tilgangslausu upplýsingar um Suðurríkjapiltana tvo hafa nákvæmlega ekkert með það að gera hvað við erum að segja með þessum pistli, svo það er víst best að reyna að róa inn á þá stefnu áður en allt fer í rugl.

Utah tók Millsap í annari umferð nýliðavalsins árið 2006 og þar spilaði hann allar götur fram til 2013, en Jefferson stoppaði í þrjú ár í Salt Lake City eftir að hafa leikið með Boston og Minnesota fyrstu sex árin sín í deildinni.

Á þessum árum var lið Utah fast á sama stað og nýju liðin þeirra Jefferson og Millsap eru föst á í dag - versta mögulega stað sem þú getur verið á í NBA deildinni.

Það er að hjakkast í og við áttunda sætið, að vera í miðjumoðinu í stöðutöflunni.

Liðin sem eru þar eru oftar en ekki að borga talsvert há laun og eru með hálfstjörnur í sínum röðum sem ná ekki að draga liðið upp í hóp þeirra bestu, en þau fá heldur aldrei almennilega valrétti í nýliðavalinu.

Sem sagt: þú vinnur ekkert og átt ekki séns á því, en tapar heldur ekki nóg til að eiga möguleika í lotteríinu. Þetta er eins og vera bundinn fastur á Coldplay-tónleikum í átta klukkutíma - það verða allir súrrandi geðveikir á endanum ef þeir eru of lengi á þessum stað.

Jæja, þarna voru þeir Jefferson og Millsap þegar þeir voru hjá Utah. Ef liðið komst á annað borð í úrslitakeppnina í hrikalega sterkri Vesturdeildinni, beið þess ekki annað en að verða slátrað af San Antonio.

Það má deila um það hvort það gerði leikmönnum liðsins eitthvað gott að fara hálfum mánuði síðar í sumarfrí bara til þess að láta San Antonio hoppa ofan á andlitinu á sér. Og það var reyndar deilt um það í Utah.

Þar á bæ var kominn nýr mannskapur á skrifstofuna og hin San Antonio-sentríska stjórn félagsins tók þá ákvörðun (sumir segja ári of seint) að framlengja ekki samninga við þá Jefferson og Millsap, heldur gefa ungum leikmönnum liðsins eins og Enes Kanter og Derrick Favors tækifæri. Nánar tiltekið kasta þeim í djúpu laugina án þess að vera búnir að kenna þeim undirstöðuatriðin í sundi.

Niðurstaðan var eitt ljótasta tímabil í sögu félagsins á síðustu leiktíð. Enginn af ungu mönnunum stóðst fyllilega væntingar og Tyrone Corbin þjálfari með sínar risaeðluaðferðir í þjálfuninni reyndist heldur ekki valda starfi sínu.

Þetta er gott og vel fyrir Utah, liðið heldur bara áfram að tapa svona ljómandi vel þangað til það verður búið að safna nógu mörgum góðum nýliðum til að ná sér á strik aftur, svona eins og gengur (oftast) í NBA.

Þetta er auðvitað handónýtt fyrirkomulag, en við getum ekkert að því gert (Adam Silver er að spá í að breyta sýsteminu til að reyna að koma í veg fyrir tank).

En aftur að þeim Jefferson og Millsap.  Það var ekki beinlínis fjaðrafokið þegar þeir skiptu um félög fyrir síðustu leiktíð.

Jefferson gerði stóran samning við Charlotte (c.a. þrjú ár og 40 kúlur) en Millsap fór til Atlanta á tiltölulega nettan samning - tvö ár og 19 milljónir dollara.

Það var viðurkennt að þeir Jefferson og Millsap væru ágætis leikmenn, en sýndi ekki hóflegur árangur Utah Jazz það svart á hvítu að þeir væru ekki nógu góðir? Tja, þannig sá stjórn Jazz málið fyrir sér. Hún vildi ekki meðalmennsku og sagði bless.

En hvað gerist nú þegar tvímenningarnir skipta um lið og halda austur?

Það er sumpart pælingin á bak við þennan pistil.

Það eina sem gerðist var að Paul Millsap spilaði sinn fyrsta Stjörnuleik á ferlinum og Jefferson var valinn í þriðja úrvalslið deildarinnar eftir að hafa verið kjörinn leikmaður mánaðarins í Austurdeildinni í bæði mars og apríl!

Það voru sem sagt jólin hjá þeim báðum og báðir komust þeir svo í úrslitakeppnina með nýju klúbbunum sínum meðan fyrrum félagar þeirra rétt skriðu yfir tuttugu sigrana og drulluðu gjörsamlega á sig - voru eitt lélegasta lið deildarinnar.

Við veittum því athygli að það fór dálítið meira fyrir tvímenningunum okkar í fjölmiðlum eftir að þeir losnuðu úr fjölmiðlafjósinu í Utah og héldu austur yfir heiðar. Gaman fyrir þá að fá smá feistæm í fjömiðlum og gaman hvað þeir virtust báðir lyfta leik sínum á hærra plan þegar þeir skiptu um lið.

Eða hvað?

Jú, jú, í það heila áttu þeir líklega betri ár með nýju liðunum sínum en þeir gerðu þegar þeir sögðu skilið við Utah, það er erfitt að þræta fyrir það.

En það munar ekki svo miklu og okkar finnst það bara dálítið skondið að menn sem eru ósýnilegir í Vesturdeildinni hljóti báðir viðurkenningar við það eitt að flytja austur.

Kíkjum aðeins á tölfræðina hjá strákunum. Byrjum á Jefferson. Hann er einn af sjö mönnum í heiminum í dag sem virðast geta spilað með bakið í körfuna og nýtir sér það óspart. Hann fór úr 18 stigum og 9 fráköstum hjá Jazz upp í 22/11 hjá Charlotte, sem er vissulega drullu flott hjá honum.

Stundum er hann klaufi í því að senda boltann út úr tvídekkunum eða láta hann ganga yfirleitt og sem betur fer fyrir hann, kemur varnarleikur ekki fram á almennum tölfræðiskýrslum.

Það er þekkt að Jefferson er slakur varnarmaður og heimildamenn okkar í Salt Lake City hafa sagt okkur að það hafi öðru fremur verið ástæða þess að hann var látinn fara frá Jazz. Hann er góður sóknarmaður, en það sem hann gerir í sókninni, missir hann niður í vörninni og meira til. Hann kom því út í mínus í öllum ökónómíurannsóknum framhaldstölfræðinjarða.

Þú vinnur ekki meistaratitil nema með vera með sterka miðju í vörninni en slíkir tilburðir eru ekki á ferilskrá Al Jefferson þó honum sé margt til lista lagt.

Það er kannski stórkarlalegt að láta mann fara bara af því hann er ekki nógu góður til að loka vörn meistaraliðs, en frammistaða hans á þeim enda vallarins var bara búin að gera alla gráhærða(ri) hjá Utah og því fór sem fór.

Hjá Charlotte datt Jefferson inn í fínan pakka, fékk að sjá mikið af boltanum, skoraði grimmt og frákastaði vel. Þótt ótrúlegt megi virðast, var hann líka partur af einni sterkustu liðsvörn í deildinni hjá Kisunum. Það er eitthvað sem við munum aldrei skilja, en þetta er gaman fyrir Jefferson og fyrir frammistöðuna var hann kjörinn í 3. úrvalslið deildarinnar eins og við sögðum ykkur áðan.

Var einhver brjálaður munur á tölfræðinni hans? Ekki svo,  en dæmið snýst ekki um það. Þetta snýst um það með hvaða gleraugum fólk horfir á þetta.

Hjá Utah hafði Jefferson verið að bjóða upp á innantóma tölfræði hjá miðlungsliði sem var aðeins fallbyssufóður fyrir San Antonio í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

En hjá Charlotte var hann hetjan sem fór fyrir ungu liði Charlotte sem reif sig upp úr flórnum eftir sögulega léleg ár og komst alla leið í úrslitakeppnina.

Liðinu var að vísu sópað af Miami í fyrstu umferðinni á nákvæmlega sama hátt og Utah - eini munurinn var sá að það voru miklu lélegri lið í austrinu.

Eins og við sögðum ykkur áðan var það ekki síst að þakka frábærri rispu Jefferson á tveimur síðustu mánuðunum í deildakeppninni sem tryggði honum sætið í 3. úrvalsliði deildarinnar.

Hefði þessi rispa komið fyrr hjá honum, hefði hann væntanlega verið valinn í sinn fyrsta Stjörnuleik á ferlinum. Ekkert varð úr því í þetta skiptið frekar en árin níu þar á undan, en það var hinsvegar Paul Millsap vinur hans sem sá um þá hlið mála. Það hefur eflaust unnið gegn Jefferson að Charlotte var langt undir 50% vinningshlutfalli þegar valið var í Stjörnuliðin í febrúar, svo það minnkaði enn líkurnar á því að hann yrði valinn í austurliðið.

Haukarnir hans Paul Millsap voru hinsvegar á rjúkandi siglingu með um 50% vinningshlutfall og Millsap að spila vel - svo hann hlaut náð fyrir augum dómnefndar og restin heyrir sögunni til. Millsap fékk meira vægi og frelsi í sóknarleik Budenholzer og fyrir vikið tók tölfræðin hans kipp upp á við á flestum stöðum.

Hann fór úr 15/7 upp í 18/8,5 og þó skotnýtingin hafi lækkað talsvert hjá honum, er það að hluta til vegna þess að í vetur fékk hann fyrst grænt ljós á að taka þriggja stiga skot á ferlinum og hitti bara sæmilega úr þeim (36%).

Þó Atlanta og Charlotte hafi bæði fallið úr leik í fyrstu umferðinni í vor, verður að segjast að hvorugt liðanna hafði heppnina með sér. Atlanta hefði með smá heppni getað slegið Indiana út, en hafði ekki það sem til þurfti.

Þetta sem til þurfti hefði til dæmis geta verið Stjörnuliðsmiðherjinn Al Horford sem var meiddur allt árið eins og við sögðum ykkur. Ómögulegt að segja hvað hefði gerst ef hans hefði notið við.

Svipuð sorg var á borðum hjá Charlotte, því téður Al Jefferson - aðalskorari liðsins - meiddist strax í fyrsta leik gegn Miami og eftir það áttu Kettirnir engan möguleika og Miami sópaði þeim örugglega.

Já, það er ekki sama hvernig gleraugu þú setur upp þegar þú ert að skoða hlutina, það ætti að vera niðurstaðan á þessari pælingu þó við vitum að þetta hafi að mestu verið samhengislaust þvaður út í loftið. Það er ekki sama hvar þú spilar, hvað er undir og hvernig á það er litið.

Og svo má umfram allt ekki rugla þeim saman, þeim Jóni og séra Jóni.