Saturday, August 2, 2014

Paul George úr leik eftir hroðalegt fótbrot


Rétt á meðan við vorum að fagna endurkomu Derrick Rose með hressilegri troðslu í æfingaleik með liði Bandaríkjanna í Las Vegas í nótt, urðum við vitni að hlut sem enginn vill sjá þegar hann horfir á íþróttakappleiki.

Paul George mölbraut á sér fótinn þegar hann lenti illa undir lok leiksins og þegar búið að var að stumra yfir honum í góða stund, var einfaldlega ákveðið að hætta leiknum. 

Við gætum farið að lýsa þessu óhappi eitthvað betur eða sýna ykkur myndir eða myndbönd af því, en við erum ekki sadistar og hálfvitar, svo við sleppum því. 

Atvikið var endursýnt einu sinni í sjónvarpsútsendingunni af því margir misstu af því, en sjónvarpsmenn ákváðu að sýna það ekki aftur vegna þess hve ljótt það var.

Það eina sem við höfum um þetta að segja er að við vonum að Paul George nái sér að fullu eftir þessa hræðilegu byltu. Það er engin hætta á því að hann fari nokkuð að spila körfubolta á næstunni aumingja strákurinn.