Thursday, January 31, 2013

Sælar stelpur, Reggie hérna



Verður Memphis miklu betra án Rudy Gay?


Hér fyrir neðan má sjá áhugaverða tölfræðisamantekt sem við rákumst á og lætur forráðamenn Memphis líta út eins og snillinga. Þarna er verið að deila sóknarframlagi Rudy Gay niður á mannskapinn sem eftir er hjá liðinu. Niðurstaðan er mjög áhugaverð.


Memphis þarf ekki lengur að borga Rudy Gay fyrir að spila körfubolta, sem eru ákaflega góð tíðindi


Það hefur verið yfirlýst stefna nýju eigenda Memphis Grizzlies að skera niður launakostnað.

Fyrsta skrefið var að koma félaginu undir launaþakið. Það tókst um daginn, en það var ekki nóg.

Í gær tókst forráðamönnum Memphis að gera nokkuð sem þeir voru búnir að reyna nokkuð lengi, að losa sig við Rudy Gay og tröllvaxinn samning hans. Óháð körfubolta - og þetta er alveg óháð körfubolta - eru þetta ágæt viðskipti.

Sagt er að Memphis sé núna 8 milljónum dollara undir launaþakinu og hafi í heildina sparað sér rúmlega 37 milljónir dollara næstu þrjú árin.

Það er óhemju peningur fyrir félag sem spilar á einum minnsta markaði í deildinni og er augljóslega með eigendur sem ætla að velta hverri krónu.

Ef þú ert alveg úti á túni og skilur ekkert hvað við erum að tala um, þá erum við að tala um leikmannaskipti sem áttu sér stað í gær, þar sem hæst ber að Rudy Gay fer frá Memphis til Toronto. Toronto sendir Jose Calderon til Detroit og Ed Davis til Memphis, sem fær Tayshaun Prince og Austin Daye.

Enginn skilur hvað Toronto er að hugsa með þessum viðskiptum, en það er líklega bara að hugsa með anusnum eins og það virðist jafnan gera þegar kemur að leikmannamálum. Það er hvort sem er öllum sama um Toronto-liðið, því miður er staðan bara þannig. Líka með Detroit auðvitað.

En hvað vakir fyrir John Hollinger og félögum hjá Memphis?

Flestir sem skrifað hafa um málið eru á því að Memphis sé sigurvegarinn í þessum viðskiptum fyrst og fremst vegna sparnaðarins, sem er umtalsverður eins og við greindum frá í upphafi pistilsins. En hvað með körfuboltahliðina á þessu? Skiptir hún allt í einu ekki máli, eða?

Jú, auðvitað skiptir hún máli. En hvernig sem á það er litið, eru þessi skipti óhemju jákvæð fyrir Memphis. Félagið varð einfaldlega að gera eitthvað í þessum Rudy Gay-pakka og er nú búið að losa sig við hann.

Gay fékk allt, allt, allt of stóran samning hjá félaginu á sínum tíma og það gekk augljóslega ekki fyrir svona lítinn klúbb að vera að borga honum max peninga þegar það var að borga þeim Zach Randolph og Marc Gasol risapeninga líka.

Memphis er í mjög öfundsverðri stöðu. Ekkert lið í NBA er með betri mannskap í stöðu leikstjórnanda, kraftframherja og miðherja - ekki nálægt því - og þetta verður stjórn félagsins að nýta sér.

Griz hefur náð að hnoða saman fínt lið úr ágætum mannskap og með góðum þjálfara undanfarin ár, en nú er kominn tími til að hlaða í og gera þetta lið að áskoranda í alvöru.

Til hvers að vera með svona óhemju sterka framlínu og frábæran leikstjórnanda (Mike Conley, vanmetnasta leikstjórnanda í NBA) ef þú ætlar ekki að gera neitt með þetta nema miðjumoðast eitthvað í aðra umferð í úrslitakeppninni?

Það sem Memphis er búið að gera með því að losa sig úr þessum Gay-álögum (no pun intended) er að búa sér til pláss til að gera eitthvað á leikmannamarkaðnum í nánustu framtíð. Helst sem fyrst auðvitað.

Liðið mun auðvitað sakna Rudy Gay eitthvað - maðurinn er jú stigahæsti leikmaður liðsins - en það sýndi sig þegar liðið náði lengst í úrslitakeppninni í hittifyrra að það þarf í rauninni ekki á honum að halda. Tölurnar hans í vetur hafa svo ekki verið neitt æðislegar, reyndar hefur hann droppað í stigum og hrunið í skotnýtingu (rétt slefar í 40% allt í einu).

Það sem hefur verið vandamálið með Rudy Gay er nákvæmlega það sama og hefur verið að plaga Danny Granger hjá Indiana. Þeir eru ágætisleikmenn en ekkert meira. Þeir fá borgað eins og stórstjörnur en eru það ekki. Þeir eru ekki þessir neyðarkarlar sem liðin þeirra þurfa og hafa þess vegna báðir verið falir lengi.

Nú er Memphis með pálmann í höndunum eftir að hafa losað sig við Gay og Indiana bölvar örugglega í hljóði að hafa ekki verið búið að bjóða forráðamönnum Toronto að kaupa Danny Granger (þó þeir séu örugglega búnir að reyna það 100 sinnum).

Það verður einhver að skora þessi 17-20 stig sem Rudy Gay var að skora hjá Memphis. Það er ekki víst að Tayshaun Prince skori nema brot af því en hann ætti að koma með reynslu og fagmennsku inn í lið Memphis - nokkuð sem liðinu veitir ekki af.

Það er stór spurning hvað Prince á eftir á tanknum eftir nokkur hörmuleg ár í Detroit að undanförnu.

Við skrifuðum um Prince fyrir einhverju síðan þar sem við leiddum líkum að því að hann væri löngu búinn að missa áhugann á að spila körfubolta - það væri augljóst á þeirri staðreynd að hann hefði samið aftur við Detroit.

Við skulum sjá hvað Memphis getur fengið út úr honum. Hann kunni nú einu sinni að spila hörkuvörn og hefur reyndar verið að hitta mjög vel úr þriggja stiga skotunum sínum í vetur. Vonandi heldur hann því áfram fyrir Memphis, sem nú horfir björtum augum á framtíðina - án Rudy Gay.

Dennis Rodman gefur út barnabók


Auðvitað var það næsta skref fyrir Dennis Rodman að gefa út barnabók. Það segir sig alveg sjálft, er það ekki? Verkið heitir Dennis the wild bull  (ísl. Denni Dæmalausi) og er komið í allar betri bókaverslanir... eða eitthvað.

Við sáum síðast til Dennis í (ó)raunveruleikaþættinum með hrokagikknum með kómóverið, þar sem hann gerði ekkert annað en þamba vodka allan daginn. Það eðlilegasta í heimi í framhaldi af þessu er svo auðvitað að skrifa barnabók. Hann heldur alltaf áfram að vera þræleðlilegur hann Rodman.


Meiðsli Rajon Rondo þýða breytingar hjá Boston


Það er enginn Celtics-aðdáandi á ritstjórn NBA Ísland, en við værum ekki mennsk ef við værum ekki í rusli yfir meiðslum Rajon Rondo. Allir sem hafa gaman af NBA eru leiðir yfir því að sjá þennan stórkostlega leikmann ekki á fullum krafti aftur fyrr en eftir eitt til eitt og hálft ár.

Við vorum reyndar búin að vera að hugsa mikið um Celtics áður en ógæfan reið yfir á sunnudaginn. Gengi liðsins í deildakeppninni í vetur hefur verið upp og niður, aðallega niður, en af gömlum vana þorðum við ekki alveg að drulla yfir liðið.

Það hefur gengið á ýmsu í Austurdeildinni undanfarin ár, en alltaf skal Boston vera með í slagnum. Væntingarnar hafa verið mismiklar frá því liðið lék til úrslita í annað sinn árið 2010, en núna verðum við að leyfa okkur að nota setningu sem Einar Bollason gerði ódauðlega á sínum tíma.

Þett´ er búið!

Það er leiðinlegt að segja það, en þetta er sannarlega búið hjá Boston. Flestir fjölmiðlamenn byrja auðvitað að hrópa á að forráðamenn Celtics nái bara í skóflu og kúst og sópi liðinu út og byrji upp á nýtt. Það er bara ekki eins auðvelt og það hljómar, það vita allir sem hafa hálfan heila eða meira.

Okkur dettur ekki í hug að fara í framkvæmdastjóraleik og leggja til hvað Boston á að gera í leikmannamálum. Það eina sem er ljóst í okkar augum er að Celtics-liðið eins og við þekkjum það - liðið sem varð meistari árið 2008 - er nú komið á endastöð.

Líklega var liðið þegar komið á endastöð, þið verðið að viðurkenna það, þeir Paul Pierce og Kevin Garnett hafa á tíðum litið út fyrir að vera nákvæmlega jafn gamlir og þeir eru í vetur.

Við þorðum nú samt ekki að dæma Celtics úr leik og þið sáuð af hverju á sunnudaginn þegar liðið skellti meisturunum. En Boston er ekki að fara að vinna meistarana eða yfir höfuð margar seríur í úrslitakeppni án Rajon Rondo. Það er bara ekki að fara að gerast.

Nú eiga leikmenn liðsins vafalítið eftir að snúa bökum saman og ef liðið fer í úrslitakeppnina, verður það svo sannarlega enginn óskamótherji. Gamlir hundar eins og KG og Pierce eru stoltir og þeir gefast ekki upp án bardaga.

Það verður hinsvegar að teljast ansi ólíklegt að liðið fari langt án sín besta leikmanns og það er Rajon Rondo. Það er langt síðan hann varð besti leikmaður liðsins og sá mikilvægasti.

Það hefur lengi legið í loftinu að breytingar yrðu gerðar hjá Celtics. Við vissum bara ekki að þær kæmu til á þennan hátt. Við hefðum tippað á að Rondo yrði lykilmaður í síðasta dansinum hjá Boston Celtics, en hann verður að láta sér nægja að horfa frá hliðarlínunni.

Megi Rajon Rondo eiga skjótan og öruggan bata.

Smá tölfræði


Leikurinn er búinn að breytast gríðarlega undanfarin ár og ólíklegt að bakvörður hefði verið hagkvæmasti post up leikmaðurinn í deildinni fyrir 20 árum síðan. Við rákumst á þessa töflu í kring um helgina og deilum henni með ykkur hérna til gamans.


Wednesday, January 30, 2013

Hávaðadrama í Portland


Það var sannkölluð flugeldasýning í Portland í nótt, þar sem LaMarcus Aldridge fékk að eiga síðasta orðið (eða síðustu tvö orðin). Sumum fannst það skrítið að við settum Aldridge í lið Vesturdeildarinnar fyrir Stjörnuleikinn á dögunum. Þeim er sérstaklega bent á að horfa á þetta.
Það er eitthvað við leiki Dallas og Portland undanfarið...


Tuesday, January 29, 2013

Monday, January 28, 2013

Af ákvarðanatöku Josh Smith


Þessi hvítklæddi og skotglaði körfuboltamaður sem við sjáum hér til hliðar heitir Josh Smith eins og mörg ykkar vita.

Smith er á sínu níunda ári hjá Atlanta Hawks þar sem hann hefur leikið síðan hann var tekinn 17. í nýliðavalinu árið 2004.

Smith býr yfir gríðarlegum hæfileikum og er mikill íþróttamaður, en stundum er eins og vanti aðeins upp á ákvarðanatökuna hjá honum.

Leiktíðina 2009-2010 tók hann yfirvegaða ákvörðun í samráði við þáverandi þjálfara sinn Mike Woodson og hætti að taka þriggja stiga skot, enda hafa langskotin aldrei verið hans sterkasta hlið.

Árangurinn lét ekki á sér standa og skotnýtingin hjá honum rauk yfir 50 prósentin í fyrsta og eina skiptið á ferlinum.

Eins og fallinn reykingamaður, náði Smith ekki að halda út í langskotabindindinu og byrjaði aftur að taka þriggja stiga skot í tíma og ótíma. Oft ekkert sérlega vönduð skot heldur. Kannski náði Smith að réttlæta þetta fyrir sér með því að benda á að leiktíðina eftir að hann féll, náði hann bestu nýtingu sinni á ferlinum fram að því.

Þrjátíu og þremur prósentum.

Það var ástæða fyrir því að við bárum þetta umræðuefni hér á borð. Komið hefur bersýnilega í ljós að Josh Smith virðist ekki vera mjög vel gefinn náungi. Væri hann það, myndi trúlega hætta að taka öll þessi langskot.

En þess háttar hugsunarháttur er ekki í boði. Þó hann hafi aðeins tvisvar á ferlinum skotið yfir 30% í þristum.

Í ár er kappinn að taka 2,2 þrista að meðaltali í leik og er sjóðandi heitur með 29% nýtingu - enn betri hittni en á síðustu leiktíð þegar hann lauk keppni með rétt rúmlega 25% nýtingu.

Josh Smith getur sem sagt átt von á því að hitta úr um það bil einu af hverjum fjórum þriggja stiga skotum sínum og það þykja honum alveg nægar vinningslíkur. Hann heldur bara áfram að skjóta.

Þannig tók hann sex stykki í tapi Atlanta fyrir New York í nótt, sennilega af því hann var abbó út í Carmelo Anthony (42 stig, 9-12 í þristum) sem hann átti að vera að dekka og alla þristana sem hann tók.

Já, hann er sannkallaður geimvísindamaður, hann Josh Smith. Hann er með innan við 28% þriggja stiga nýtingu á ferlinum, en það hefur ekki aftrað honum frá því að taka á níunda hundrað þriggja stiga skota. Líklega væri hann dottinn í þúsund ef hann hefði ekki asnast til að hætta þarna um árið.

Josh Smith virðist bara sjá hlutina með öðrum augum en við hin. Hann er reglulega orðaður við flest önnur lið í deildinni önnur en Atlanta og hefur mikið verið orðaður við Lakers síðustu mánuði.

Það væri nú ekki dónalegt fyrir hann að komast á græna ljósið hjá Mike D´Antoni.

Það yrði eitthvað.

Fara stórveldin snemma í sumarfrí?


Sum okkar hafa svo gaman af því að láta söguna tala fyrir sig.

Ef spár svartsýnustu manna í vetur verða að veruleika, sitja bæði gömlu stórveldin Lakers og Celtics eftir með sárt ennið og komast ekki í úrslitakeppnina.

Í ljósi þess hvernig spilamennsku þau hafa boðið upp á að undanförnu er þessi möguleiki sannarlega til staðar.

Hugsið ykkur, ef svo færi, yrði það aðeins í annað sinn frá því NBA deildin var sett á laggirnar árið 1946 sem bæði þessi lið færu snemma í sumarfrí.

Það segir sína sögu um óhemju velgengni Lakers og Celtics að þetta hafi aðeins gerst einu sinni, en liðin tvö hafa auðvitað unnið um helming allra meistaratitla frá stofnun deildarinnar. Það var leiktíðina 1993-94 sem þessi sérstaki atburður átti sér stað, en þá voru bæði félögin að ganga í gegn um miklar breytingar.

Það tók Lakers ekki langan tíma að koma sér á toppinn aftur og aðeins sex árum síðar var liðið orðið NBA meistari. Það tók Celtics að vísu lengri tíma, en liðinu tókst á endanum að ná sér í titil árið 2008 eins og þið munið. Lakers hefur svo bara bætt í og unnið fimm titla síðan um aldamótin.

Með þessari pælingu erum við alls ekki að segja að Celtics og Lakers missi af úrslitakeppninni, enda yrði hún klárlega fátæklegri án stórveldanna. Við skulum bara segja að við séum að reyna að bakk-jinxa liðin inn í úrslitakeppnina.

Við létum fylgja með tvær skemmtilegar myndir. Önnur er liðsmyndin af Lakers frá umræddu ´93-´94 tímabilinu og hin sýnir nokkur andlit úr liði Celtics, reyndar frá leiktíðinni á eftir, 1994-´95.

Eins og þið sjáið eru þetta nú ekki beint gullaldarárin hjá risunum tveimur, þó vissulega megi skemmtilega leikmenn inn á milli í hóp beggja liða (eins og til dæmis leikmann í treyju númer níu hjá Lakers - lengst til vinstri í fremri röð).

Shumpert



Viv



Michael Cage er 51 árs í dag


Michael Jordan var óumdeildur konungur NBA deildarinnar á árunum 1989 til 1998 og vann til að mynda meistaratitlana sína sex innan þessa tímaramma (1991-93 og 1996-98).

Afmælisbarn dagsins, hörkutólið Michael Cage (ísl: Búri), missti ekki úr leik í NBA deildinni meðan á öllu þessu stóð.

Hann spilaði 736 leiki í röð áður en tognun í læri tók hann úr leik árið sem Chicago vann sjötta og síðasta meistaratitilinn með Michael Jordan í fararbroddi.

Aðeins AC Green sló honum við hvað varðar fjölda leikja spilaða í röð á þessum árum.

Cage var þekktur fyrir krullurnar sínar, varnarleikinn og fráköstin. Hann leiddi meira að segja deildina í fráköstum árið 1988, þegar hann sló Charles Oakley við með því að hirða 30 fráköst í lokaleik deildakeppninnar. Hann hirti 13 fráköst að meðaltali þennan vetur.

Cage hóf ferilinn með Los Angeles Clippers en hann var einmitt valinn númer fjórtán í sama nýliðavali og nafni hans Jordan - draftinu goðsagnakennda árið 1984 (Jordan, Olajuwon, Barkley, Stockton, Robertson, Willis og Perkins svo nokkrir séu nefndir).

Miðherjinn sterki naut mestrar velgengni í þau sex ár sem hann spilaði með Seattle Supersonics. Hann flakkaði svo til Cleveland, Philadelphia og New Jersey áður en hann lauk keppni 38 ára gamall.

Til lukku með daginn, Michael.



Sunday, January 27, 2013

Friday, January 25, 2013

Flautukarfa DeMar DeRozan í Orlando



Stjörnulið NBA Ísland: Vesturdeild



















Ef tilgangurinn með því að skrifa niður skoðanir okkar á Austurdeildarliðinu fyrir Stjörnuleikinn hefði verið að æsa fólk upp, hefði það plan gengið nokkuð vel upp.

Viðtökurnar voru samt heilt yfir nokkuð góðar þó nokkrir hausar hafi verið algjörlega ósammála okkur. Það er bara stakur sómi af því og nú skulum við skella okkur í Vesturdeildina þar sem skemmtilegra verkefni bíður okkar.

Alveg eins og fyrir austan fyrr í kvöld, byrjum við á því að skoða byrjunarliðið hjá vestrinu.

Það kemur ykkur ef til vill á óvart en við viljum bara gera eina breytingu á því.

Það liggur í augum uppi að stórveldið Los Angeles Lakers hefur ekkert með tvo leikmenn að gera í byrjunarliðinu verandi skrilljón leikjum undir 50% vinningshlutfalli.

Dwight Howard er með alveg þokkalegar tölur, en hann hefur mestmegnis verið í því að væla og taka dramaköst í vetur. Flestir hallast að því að Howard sé alls ekki með 100% heilsu og það þarf engan geimvísindamann til að sjá það. Hann er ekki með sömu sprengju og áður.

Stóra spurningin er bara hvort eða hvenær nær hann sér að fullu eftir þennan blessaða bakuppskurð sinn í sumar? Enginn treystir sér til að tippa á það - enginn veit neitt, kannski ekki einu sinni Howard sjálfur.

Sú staðreynd að Howard er ekki 100% heill hefur fallið dálítið í skuggann í fjölmiðlafárinu sem verið hefur í gangi um Lakers í allan vetur. Blaðamenn eru svo uppteknir að því að spyrja út í he said, she said bullshit (svo við leyfum okkur að vitna í stórskáldið Fred Durst) að þeir hafa alveg gleymt að spyrja Howard hvort hann eigi eitthvað von á því að fara að spila eins og varnarmaður ársins á næstunni.

Við skulum ekki eyða öllum þessum pistli í Lakersdrama. Við getum sagt ykkur frá því að í allan dag vorum við harðákveðin í að setja Russell Westbrook í byrjunarlið vestursins ásamt Chris Paul (sem er sjálfvirkt, læst val), en svo fórum við að hugsa málið betur og settum Kobe Bryant inn í staðinn.

Kobe er að skoða flippin 29 stig í leik og er enn með sæmilega nýtingu þó hann hafi verið að dala aðeins að undanförnu.

Þið vitið alveg að Kobe fer oft hrottalega í taugarnar á okkur en við gátum bara ekki tekið Russell Westbrook inn í liðið í staðinn fyrir Kobe. Ekki svona þegar við erum nýbúin að horfa á slæma Russ skjóta Oklahoma út úr leiknum við Warriors síðustu nótt.

Talandi um Warriors - eina liðið í NBA sem hefur unnið Miami, Oklahoma og LA Clippers - það er kominn tími á að gefa þessu liði það kúdós sem það á skilið. Fyrir leikinn gegn Warriors gærkvöldi, hafði Oklahoma ekki tapað einum einasta leik þar sem það hafði verið yfir eftir 3.leikhluta (22-0).

Golden State breytti því og það var með ólíkindum hvað liðið náði að spila góðan varnarleik gegn OKC. Það var ekki gamla góða skotárásin sem tryggði sigurinn eins og venjan hefur verið í Oakland, heldur hörkuvörn af gamla skólanum. Frábært fyrir þá.

Dæmi um viðsnúninginn hjá Warriors: Á síðustu leiktíð var liðið 9-18 í leikjum þar sem munurinn var 3 stig eða minna á síðustu einni og hálfri mínútunni. Á þessari leiktíð? 12-5.

Það er ekki aðeins kominn tími til að verðlauna þá Stephen Curry og David Lee fyrir frábæra frammistöðu með því að velja þá í Stjörnuleikinn, heldur einnig stuðningsmenn Warriors sem hafa verið einir þolinmóðustu áhorfendur í heimi - ekki aðeins síðustu ár heldur áratugi!

Það er nákvæmlega engin spurning í okkar huga að bæði Curry og Lee eiga að fara inn. Það er bókað hjá okkur, hvort sem þjálfararnir í deildinni sjá þetta svo eða ekki.

Clippers á alveg skilið að fá tvo menn í byrjunarliði Vesturdeildarinnar og Guð veit að Kevin Durant á að vera þar. Svo flækist málið dálítið þegar kemur að því að velja mann í staðinn fyrir vælukjóann í miðjunni.

Næstur á blaði hjá okkur í stöðuna er Tim Duncan, sem hefur verið frábær í vetur og á að okkar mati skilið að fara inn núna.

Það er hinsvegar einn galli við að velja Duncan og hann er að framherjinn rólegi hefur engan áhuga á að fara til Houston. Hann er búinn að sjá þetta allt saman og vill miklu frekar hvíla lúin og gömul bein og slappa af með fjölskyldunni.

Því ætlum við að fara í þriðja kostinn og velja Marc Gasol og gefa Duncan gamla bara frí.

Rétt eins og á síðasta ári, er Marc nú betri Gasol-inn og fær sæti í Stjörnuleiknum hjá okkur alveg jafn mikið út á varnarleik og sóknarleik, enda er sóknin hjá honum reyndar ekkert rosaleg. Maðurinn kann bara að spila körfubolta.

Vesturdeildarliðið verður að vera dálítið asnalega samansett alveg eins og austurliðið og eins og við sögðum ykkur áðan, gefum við skít í reglurnar af því við viljum að menn fái að fara í leikinn óháð einhverjum asnalegum smáatriðum.

Þess vegna neyðumst við til þess að hafa fjóra leikstjórnendur í Vesturdeildarliðinu en þurfa samt að skilja toppmenn eftir úti í kuldanum. Hefurðu pælt í því að fimm efstu liðin í Vesturdeildinni eiga einn stóran hlut sameiginlegan? Jú, þau eru öll svo heppinn að vera með heimsklassa leikstjórnanda í sínum röðum.

Fjórir af þeim fá inn hjá okkur. Chris Paul, Russell Westbrook, Tony Parker og Stephen Curry.

Það er ekki hægt að sleppa þessum gaurum, þó einhverjir þeirra verði óhjákvæmilega skildir eftir í valinu í kvöld.

Þessir piltar eru ekki bara að spila eins og englar allir saman, heldur eru liðin þeirra öll að gera glæsilega hluti líka.

Og fyrir vikið eiga toppmenn eins og Mike Conley og Damien Lillard ekki séns, sem er leiðinlegt.

Það verða því Chris Paul og Kobe Bryant sem byrja í bakvarðastöðunum hjá vestrinu og við höfum aðeins pláss fyrir einn bakvörð í viðbót út af öllum þessum leikstjórnendum. Það er að sjálfssögðu James Harden.

Þá á bara eftir að ákveða hvaða stóru menn við hendum inn í stað Duncan og Howard. Gasol yngri kemur í staðinn fyrir Howard og LaMarcus Aldridge frá Portland, eftir harða baráttu við Serge Ibaka.

Ef þú ætlar að koma Jamal Crawford inn í Stjörnuleikinn, skaltu skoða tölurnar hans og spyrja þig hvort hann gerir eitthvað annað en að bomba.

Það verður þá einhvern veginn svona sem vesturliðið lítur út hjá okkur. Við hefðum alveg verið til í að henda fleiri mönnum þarna inn, en þetta er að verða drullu-gott og við tippum á að við sofum vært yfir þessu. Gjörið svo vel.

G Chris Paul
G Kobe Bryant
C Marc Gasol
F Blake Griffin
F Kevin Durant
--------------------
G Tony Parker
G Russell Westbrook
G Steph Curry
G James Harden
F Lamarcus Aldridge
F Zach Randolph
F David Lee

Thursday, January 24, 2013

Stjörnulið NBA Ísland: Austurdeild



















Við ætlum að byrja á að velja leikmenn í lið Austurdeildarinnar af því það er erfiðara en að velja í lið Vesturdeildarinnar. Fyrir vestan eru ekki nógu mörg sæti fyrir alla kandídata, en fyrir austan er erfitt að manna lið með gaurum sem eiga skilið að spila Stjörnuleik að okkar mati. Frekar púkalegt.

Byrjum á byrjuninni og förum yfir byrjunarliðið. Við vitum alveg að við eigum ekki að fikta neitt í því, af því byrjunarliðin eru niðurstaða vinsældakeppninnar árlegu sem er í höndum bolsins. Byrjunarliðin sem kosin voru beggja vegna hefðu getað vitlausari, en þau eru samt gölluð á fyrirsjáanlegan hátt.

Það augljósa við byrjunarlið austursins er auðvitað að við höfum ekkert með tvo Celtics-menn að gera í byrjunarliðinu. Okkur er alveg sama hvað Rondo og Garnett eru búnir að spila vel, þeir eru þarna út á vinsældir Celtics, sem er ekki einu sinni með 50% vinninshlutfall þegar þetta er skrifað.

Í hugum okkar ber einn leikstjórnandi höfuð og herðar yfir aðra þessa stundina og það er Kyrie Irving. Jú, jú, strákurinn er ekki búinn að vinna marga leiki með Cleveland, en það hefði Magic Johnson ekki gert heldur ef hann væri í sömu sporum. Irving er að skora eins og andskotinn og raunar að skora allt of mikið af leikstjórnanda að vera ef þú spyrð okkur, en það eru fáir aðrir til þess þarna í Cleveland.

Irving er ekki bara einhver byssa, hann er líka búinn að sanna það aftur og aftur á sínu öðru ári (eins og hann gerði á því fyrsta líka) að hann er hvergi smeykur við að taka stóru skotin. Hann hefur klárað ófá liðin með óstöðvandi tilþrifum sínum í lok leikja og tók síðast Rondo og Boston Celtics og skeindi sér á þeim. Stórkostlegur leikmaður og skemmtilegur, sem er ekki verra að hafa í stjörnuleik.

Við höfum ekkert út á það að setja að LeBron James, Carmelo Anthony og Dwyane Wade séu í byrjunarliði austursins, það segir sig eiginlega sjálft. En það vantar klárlega stærð í þetta lið og það kemur ekki til greina hjá okkur að velja Kevin Garnett í þessa stöðu.

Athugaðu, að ef þú stingur upp á Chris Bosh, skaltu hætta að lesa núna og koma aldrei inn á þessa síðu aftur, af því það eru góðar líkur á því að þú sért fífl!

Nei, það er Joakim Noah sem fær okkar atkvæði í byrjunarliðið í austrinu. Hann er ekki með neitt svakalegar tölur (nánast eins og Tyson Chandler) en það er auðvitað varnarleikurinn sem kemur honum þarna inn. Noah er einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar að okkar mati og hefur að okkar mati spilað betur en Chandler í vetur.

Það var rosalega freistandi að velja Nets-manninn Brook Lopez út á fallegar sóknartölurnar hans, en við tökum bara ekkert mark á miðherjum sem frákasta eins og Chris Bosh. Sorry, stóri, þú kemst ekki í byrjunarliðið en við kippum þér samt inn í stað Al Horford af því hann er hjá Atlanta og öllum verður skítsama um hann meðan hann er þar.

Við vitum hvað þú ert að hugsa -þú ert að spá í hvað þetta er allt málefnalegt. We get that alot.

Ekki hélstu að við myndum gleyma Jrue Holiday, er það? Hann er búinn að vera flottur hjá Philadelphia og við kippum honum inn, þó stundum sé ekki nokkur leið að horfa á Sixers-leiki. (Við gerum það samt, af því við elskum Evan Turner meira en góðu hófi gegnir - gefum honum framtíðar Stjörnuleikja-spaðafimmu).

Frá Indiana ætlum við að taka Paul George, en skila David West eftir. George er rétt að byrja að verða góður, en við tökum hann með út af fjölhæfni hans og varnarleik, sem hann hefur bæði langt fram yfir félaga sinn West. Það eru ekki margir leikmenn í NBA deildinni með meira pótensjal en George. Með aga og vinnu, getur hann auðveldlega orðið einn af fimm bestu körfuboltamönnum í heimi. Hann er það góður.

Við ætlum að láta Kevin Garnett og Rajon Rondo sitja heima í ár og láta Paul gamla Pierce vera eina fulltrúa Celtics í Houston. Lið undir 50% hefur ekkert við fleiri en einn fulltrúa að gera, jafnvel í lélegri Austurdeildinni.

Þessi samantekt segir okkur að við séum aðeins komin með tíu leikmenn í lið Austurdeildarinnar og það verður bara að nægja. Þið vitið að þarna vantar auðvitað Derrick Rose og Andrew Bynum sem væru sjálfvirkir þarna inn ef þeir væru ekki meiddir. John Wall og Anderson Varejao hefðu sömuleiðis verið með í umræðunni ef þeir hefðu haldið heilsu.

Þarna vantar líka inn Deron Williams, en þó hann sé búinn að vera skárri síðustu daga, er hann búinn að drulla allt of mikið á sig og láta reka þjálfara í vetur til að eiga skilið sæti í Stjörnuleik. Sömu sögu er að segja af vini hans Iso-Joe Johnson. Hann er með la la tölur en allt of óstöðugur og á tíðum áhugalaus til að eiga heima í úrvalsliði sem þessu. Hann kemur til greina, en nær ekki inn. Væri fyrsti varamaður inn í hópinn ef einhver meiðist, segjum það.

Atlanta á engan fulltrúa þrátt fyrir að vera með heilt yfir þokkalegan árangur. Þetta kemur af því liðið er loksins að sýna sitt rétta andlit þessa dagana og drulla á sig. Josh Smith er hnúahaus sem tapar þó hann setji fram fallegar tölur og Al Horford er bara bleh og virðist ekki hafa metnað til að verða meira en það.

Og ekki byrja með eitthvað J.R. Smith kjaftæði! Maðurinn rétt slefar í 40% nýtingu og hittir úr nákvæmlega einu af hverjum þremur þriggja stiga skotum sem hann tekur. Hann er skotglaður hnúahaus, sem á ekkert erindi í Stjörnuleik þó við viðurkennum alveg að hann hafi sýnt þroskamerki síðan hann byrjaði að spila með Jason Kidd. Þú verður að vera úti ef þú ætlar með þennan mann til Houston.

Sömu sögu er að segja um þá tvíbura Jennings og Ellis hjá Milwaukee. Þetta eru tvær byssur sem rífast um að taka öll skot sem eru í boði hjá Bucks og hitta úr 40% þeirra. Jennings er aðeins skárri, en á ekkert erindi í Stjörnuleik ef þú ætlar að taka hlutina eitthvað alvarlega.

Þetta er því Stjörnulið Austurdeildarinnar eins og við sjáum það:

G Kyrie Irving
G Dwyane Wade
C Joakim Noah
F LeBron James
F Carmelo Anthony
------------------------
C Tyson Chandler
C Brook Lopez
F Paul George
F Paul Pierce
G Jrue Holiday

Komu til greina, en náðu ekki inn: Kevin Garnett, Rajon Rondo, Al Horford, Deron Williams, Joe Johnson, Luol Deng, David West, Brandon Jennings, Greg Monroe, Carlos Boozer.

Fáránlegt lið, en svona sjáum við þetta. Hvað segir það um Austurdeildina að miðherjastaðan (sem er allt nema dauð, eins og allir vita) skuli eiga þrjá fulltrúa í okkar Stjörnuleik?

Þetta val hlýtur að vera nóg til að gera einhvern brjálaðan. Við getum ekki beðið eftir að byrja á Vesturdeildarliðinu, en þar náum við amk í fullt tólf manna lið manna sem eiga skilið að spila Stjörnuleik.

Vesturliðið dettur inn seinna í kvöld. Stay tuned.



Ballið byrjaði yfir Stjörnuleik



Tölvupóstunum hefur bókstaflega rignt yfir okkur síðustu daga og efni þeirra hefur nánast undantekningarlaust tengst blessuðum Stjörnuleiknum í næsta mánuði.

Eins og þið vitið flest, erum við ekki að deyja úr spenningi yfir Stjörnuleiknum, en af virðingu við efnið ætlum við samt að hripa niður nokkur orð um hann. Þetta gerum við af því áhugi okkar á NBA deildinni kviknaði að hluta til við það að horfa á Stjörnuleik á níunda áratugnum.

Í þá daga vorum við auðvitað fyrst og fremst að dást að troðslum og tilþrifum og því var Stjörnuleikur frábær leið til að kynnast bestu leikmönnum deildarinnar í tilþrifasúpu í lýsingu Einars Bollasonar. Þarna breyttist áhuginn í fyrst í áráttu, ef svo má segja.

Stjörnuleikir í dag eru ekkert í líkingu við Stjörnuleikina eins og þeir voru í denn. Eini munurinn á Stjörnuleik og alvöru leik á níunda áratugnum var að það var spiluð lélegri vörn fyrstu 40 mínúturnar og sóknarleikurinn var aðeins lausari og afslappaðri.

Þrátt fyrir að leikmenn væru léttari á því, leystust þessir leikir aldrei upp í vitleysu.

Það er stóri munurinn.

Stjörnuleikir í dag eru voðalega mikið vitleysa frá fyrstu mínútu og við hættum alveg að nenna að horfa á þá á Marbury-Iverson tímanum þegar menn skiptust á asnalegum þriggja stiga skotum allan leikinn og spilamennskan var engin.

Þetta hefur ef til vill skánað eitthvað aðeins í dag þar sem það eru betri leikstjórnendur í deildinni en oft áður (kannski nokkru sinni), en þetta er enn óttaleg vitleysa allt saman og meðan þetta er svoleiðis nennum við ekki að horfa á þetta.

En hey, við lofuðum ykkur að skoða hvaða menn við ætluðum að senda í prógrammið í Houston í næsta mánuði og við verðum að standa við það. Ekki halda að við gerum það eitthvað eðlilega samt. Við veljum í Stjörnulið eftir okkar höfði og þið verðið bara að taka því, þó þetta verði ómálefnalegt og asnalegt.

Meirihlutinn af því sem við skrifum á þessa síðu er reyndar ómálefnalegur gremjuáróður en það hefur einhverra hluta vegna heldur aukið lesturinn en minnkað hann, svo við ætlum ekkert að óttast að tjá okkur með ristlinum frekar en venjulega.

Ritunin er hafin. Verið róleg á meðan.

Tuesday, January 22, 2013

Tólfþúsundáttahundruðsextíuogfjórar milljónir


Þú gætir örugglega fundið margar skemmtilegar leiðir til að leika þér ef þú finndir 87 þúsund dollara uppi á háalofti hjá þér.

Hver getur ekki notað rúmar ellefu milljónir króna í eitthvað skemmtilegt? Þetta er fjandi mikill peningur, þannig séð.

Já, pældu nú í því ef þú ættir 87 þúsund dollara. Veistu hvað þú gætir gert?

Þú gætir beðið einhvern að lána þér hundrað milljónir dollara í viðbót og þá gætirðu borgað laun leikmanna Los Angeles Lakers í vetur.

Það er auðveldara að reikna þessar hundrað kúlur yfir í Matador-peningana sem eru notaðir á Íslandi. Lakers er að borga 12,86 milljarða í leikmannalaun í vetur.

Árangurinn ekki aaalveg eftir því núna. Lakers er
2-11 í síðustu þrettán. Þeir verða að fara að reka
Gasol. Augljóslega allt honum að kenna!

Áfram skal drullað yfir góða stuðningsmenn



Það væri lélegt ef við segðum ekki okkar skoðun á því að nú virðast vera 99% líkur á því að Sacramento sé að missa körfuboltafélagið sitt til Seattle. Hið rétta er að við höfum ekki með nokkru móti nennt að setja okkur almennilega inn í þetta mál af því það er svo mikil skítalykt af því.

Það fór gríðarlega í taugarnar á okkur eins og öllum (nema Oklahoma-búum) þegar Supersonics var stolið frá Seattle og því er það óendanlega kaldhæðnislegt að hinir flottu stuðningsmenn í Seattle séu nú aftur að fá NBA lið - og það stolið alveg eins og Sonics forðum.

Undirmálsmennirnir Maloof-bræður hafa verið milli tannanna á fólkinu í Sacramento í mörg ár, en þessir drulluhalar sem voru búnir að lofa að liðið færi ekki frá Sacramento, stukku auðvitað beint á að losa það þegar ljóst varð að þeir fengju þessar fáránlega háu upphæðir fyrir Kings. Þetta félag er ekki nálægt því að vera 500 milljón dollara virði, það er brandari.

Nú erum við þegar búin að skrifa allt of mikið um þetta. Því miður eru þessi mál fastur partur af lífinu í NBA og þegar þessi bisness er annars vegar, er öllum skítstama um alla.

Fólkið í Sacramento, með fyrrum NBA leikmanninn og borgarstjórann Kevin Johnson í fararbroddi, hefur barist blóðugri baráttu fyrir því að fá að halda liðinu sínu í borginni og hefur gert allt sem til þurfti.

Það er bara ekki nóg.

Vissulega er það þannig að Kings hefur verið brandari í NBA deildinni og að undanskildum árunum með Chris Webber, hefur það verið að gólfmotta í besta falli. Það verður því enginn söknuður af liði Sacramento Kings - ekki nokkur - en við erum bókstaflega í rusli fyrir hönd stuðningsmanna Kings.

Þetta fólk er búið að vera ótrúlega duglegt að styðja við bakið á liðinu þó það hafi verið drullandi á sig áratugum saman og loksins þegar liðið byrjaði að geta eitthvað um aldamótin, voru stuðningsmennirnir ef til vill þeir háværustu og bestu í deildinni.

Ef við skoðum hina hliðina á peningnum, er gaman að fólkið í Seattle sé að fá NBA lið aftur, en alveg eins og með Oklahoma, er ekki hægt að gleðjast að fullu fyrir hönd félagsins á næstu árum út af drullunni sem gengið hefur á í sögu þess.

Drullusekkurinn sem á Oklahoma City var búinn að lofa því að Seattle gæti fengið Supersonics nafnið aftur ef borgin fengi lið á ný (hann á réttinn á nafninu) en það er einskis virði ef félagið fær ekki sögu sína til baka. Við sjáum ekki að svo geti orðið, þó auðvitað eigi að slíta sögu Sonics frá Thunder og miða sögu OKC við árið þegar það flutti til Oklahoma.

Við botnum ekkert í þessari hringavitleysu.

Skál fyrir þér og þínum skítaplönum enn eina ferðina David Stern. Gangi þér vel í að hrauna frekar yfir deildina áður en þú drullast loksins til að hætta, elliæra fífl.

Allt snýst þetta um peninga og pólitík og það eru einmitt atriðin sem okkur leiðast mest.
Sérstaklega fyrra atriðið. Pólitík á ekki heima í jafn fallegum leik og körfubolta. Á ekki að sjást.

Úlfavaktin er enn ekki farin af stað


Það sáu það ekki endilega allir fyrir í fyrra, en á síðustu leiktíð, varð Minnesota eitt mest spennandi lið deildarinnar á að horfa. Það var ekki síst vegna þess að við sáum fram á að Timberwolves yrði keyrt áfram af ungstirnunum Ricky Rubio og Kevin Love.

Fyrirbærið sem síðar fékk nafnið #Úlfavaktin hefur svo náð enn minna flugi í vetur út af meiðslum bæði Love og Rubio. Eins og það hafi ekki verið nóg, hefur meiðsladraugurinn nánast tröllriðið öllum leikmannahópnum.

Vissirðu að Ricky Rubio og Kevin Love hafa aðeins spilað 27 leiki saman í byrjunarliði?

Jebb. Tuttugu og sjö. Þetta er hrikalegt.

Ætli við verðum ekki að taka ofan fyrir strákunum hans Rick Adelman í vetur fyrir að vera aðeins þremur leikjum undir 50 prósentunum í ógnarsterkri Vesturdeildinni?

Andrei Kirilenko hefur heldur betur reynst liðinu góður fengur í vetur með varnarleik og fagmennsku og þá hefur tröllið Nikola Pekovic bætt sig í miðjunni.

Langskotin hafa hinsvegar verið til sögulegra vandræða hjá Úlfunum og það hefur ekki verið á það bætandi að tvær af bestu langskyttum liðsins hafi verið meiddar meira og minna í allan vetur.

Líklega eru möguleikar Úlfanna á að komast í úrslitakeppnina litlir sem engir og því verða þeir annað árið í röð að reyna að eiga gott sumar og keyra sig í gang fyrir næsta keppnistímabil.

Það er bara eins gott að þetta lið drullist til að haldast heilt á næsta ári. Annars verður Úlfavaktin ekki annað en blautur draumur í minningunni. Guð forði okkur frá því.

Og úr því við erum farin að tala um Guð, er líklega best að láta þessari stuttu hugleiðingu um Úlfana lokið að sinni.

Tvennur...


... hjá piltum sem komu inn í NBA deildina eftir 1990.

Hér er átt við leiki þar sem viðkomandi skorar yfir tíu stig og hirðir 10 fráköst eða meira.

Í tilviki Jason Kidd er þó oftar um að ræða 10+ stig og 10+ stoðsendingar, þó hann hafi
reyndar oft náð tvennu með stigum og fráköstum, verandi einn seigasti frákastari sem
spilað hefur leikstjórnandastöðuna í sögu NBA.

Sjáðu Iso Joe Johnson loka Knicks



Kobe Bryant ætlar að horfa á sjálfan sig


Kobe Bryant lýsti því yfir á Twitter í kvöld að á morgun ætlaði hann í fyrsta skipti að horfa á upptöku frá leiknum þegar hann sallaði 81 stigi á Toronto hérna um árið og tísta á meðan.

Með þessu tókst honum að útskýra hugtakið "sjálfsmiðun" með aðeins 140 stöfum. Geri aðrir betur.

Reyndar alveg helvíti líklegt að hann sé ekki búinn að sjá þennan leik. Einmitt, Kobe!

Twitter sprakk þegar Kobe tísti þessu í kvöld, en hefði sjálfsagt sprungið þó hann hefði sagt að hann ætlaði á klósettið á morgun.

Bryant er allt of vinsæll á Twitter. Hann gefur lítið, en tekur mikið. Sérstaklega á taugarnar. Dálítið eins og í alvörunni.

Eigum eftir að sjá hann standa við þetta tíst sitt ef Lakers fær þungan skell í Chicago í kvöld. En kannski þarf hann þá einmitt á einhverju upplífgandi að halda. Ef þú kallar það upplífgandi að horfa á Kobe Bryant spila líklega samviskulausasta körfuboltaleik sögunnar. Fjórði leikhlutinn er bannaður börnum.

Monday, January 21, 2013

Hakeem og Detlef eru fimmtugir í dag


Það er ekki á hverjum degi sem tveir stórhöfðingjar eiga stórafmæli.

Þannig er það þó mánudaginn 21. janúar árið 2013, þegar stórmestararnir Detlef Schrempf og Hakeem Olajuwon eiga báðir fimmtugsafmæli.

Báðir þessir leikmenn áttu frábæran feril í NBA deildinni á níunda og tíunda áratugnum og eru því flestum körfuboltaáhugamönnum á Íslandi vel kunnugir.

Í tilefni þessa merka áfanga í lífi þeirra beggja, ákváðum við að kíkja inn á myndalager og athuga hvort við finndum ekki nokkrar gamlar myndir af afmælisbörnunum handa ykkur.