Tuesday, January 22, 2013

Kobe Bryant ætlar að horfa á sjálfan sig


Kobe Bryant lýsti því yfir á Twitter í kvöld að á morgun ætlaði hann í fyrsta skipti að horfa á upptöku frá leiknum þegar hann sallaði 81 stigi á Toronto hérna um árið og tísta á meðan.

Með þessu tókst honum að útskýra hugtakið "sjálfsmiðun" með aðeins 140 stöfum. Geri aðrir betur.

Reyndar alveg helvíti líklegt að hann sé ekki búinn að sjá þennan leik. Einmitt, Kobe!

Twitter sprakk þegar Kobe tísti þessu í kvöld, en hefði sjálfsagt sprungið þó hann hefði sagt að hann ætlaði á klósettið á morgun.

Bryant er allt of vinsæll á Twitter. Hann gefur lítið, en tekur mikið. Sérstaklega á taugarnar. Dálítið eins og í alvörunni.

Eigum eftir að sjá hann standa við þetta tíst sitt ef Lakers fær þungan skell í Chicago í kvöld. En kannski þarf hann þá einmitt á einhverju upplífgandi að halda. Ef þú kallar það upplífgandi að horfa á Kobe Bryant spila líklega samviskulausasta körfuboltaleik sögunnar. Fjórði leikhlutinn er bannaður börnum.