Monday, January 28, 2013

Af ákvarðanatöku Josh Smith


Þessi hvítklæddi og skotglaði körfuboltamaður sem við sjáum hér til hliðar heitir Josh Smith eins og mörg ykkar vita.

Smith er á sínu níunda ári hjá Atlanta Hawks þar sem hann hefur leikið síðan hann var tekinn 17. í nýliðavalinu árið 2004.

Smith býr yfir gríðarlegum hæfileikum og er mikill íþróttamaður, en stundum er eins og vanti aðeins upp á ákvarðanatökuna hjá honum.

Leiktíðina 2009-2010 tók hann yfirvegaða ákvörðun í samráði við þáverandi þjálfara sinn Mike Woodson og hætti að taka þriggja stiga skot, enda hafa langskotin aldrei verið hans sterkasta hlið.

Árangurinn lét ekki á sér standa og skotnýtingin hjá honum rauk yfir 50 prósentin í fyrsta og eina skiptið á ferlinum.

Eins og fallinn reykingamaður, náði Smith ekki að halda út í langskotabindindinu og byrjaði aftur að taka þriggja stiga skot í tíma og ótíma. Oft ekkert sérlega vönduð skot heldur. Kannski náði Smith að réttlæta þetta fyrir sér með því að benda á að leiktíðina eftir að hann féll, náði hann bestu nýtingu sinni á ferlinum fram að því.

Þrjátíu og þremur prósentum.

Það var ástæða fyrir því að við bárum þetta umræðuefni hér á borð. Komið hefur bersýnilega í ljós að Josh Smith virðist ekki vera mjög vel gefinn náungi. Væri hann það, myndi trúlega hætta að taka öll þessi langskot.

En þess háttar hugsunarháttur er ekki í boði. Þó hann hafi aðeins tvisvar á ferlinum skotið yfir 30% í þristum.

Í ár er kappinn að taka 2,2 þrista að meðaltali í leik og er sjóðandi heitur með 29% nýtingu - enn betri hittni en á síðustu leiktíð þegar hann lauk keppni með rétt rúmlega 25% nýtingu.

Josh Smith getur sem sagt átt von á því að hitta úr um það bil einu af hverjum fjórum þriggja stiga skotum sínum og það þykja honum alveg nægar vinningslíkur. Hann heldur bara áfram að skjóta.

Þannig tók hann sex stykki í tapi Atlanta fyrir New York í nótt, sennilega af því hann var abbó út í Carmelo Anthony (42 stig, 9-12 í þristum) sem hann átti að vera að dekka og alla þristana sem hann tók.

Já, hann er sannkallaður geimvísindamaður, hann Josh Smith. Hann er með innan við 28% þriggja stiga nýtingu á ferlinum, en það hefur ekki aftrað honum frá því að taka á níunda hundrað þriggja stiga skota. Líklega væri hann dottinn í þúsund ef hann hefði ekki asnast til að hætta þarna um árið.

Josh Smith virðist bara sjá hlutina með öðrum augum en við hin. Hann er reglulega orðaður við flest önnur lið í deildinni önnur en Atlanta og hefur mikið verið orðaður við Lakers síðustu mánuði.

Það væri nú ekki dónalegt fyrir hann að komast á græna ljósið hjá Mike D´Antoni.

Það yrði eitthvað.