Monday, January 28, 2013

Fara stórveldin snemma í sumarfrí?


Sum okkar hafa svo gaman af því að láta söguna tala fyrir sig.

Ef spár svartsýnustu manna í vetur verða að veruleika, sitja bæði gömlu stórveldin Lakers og Celtics eftir með sárt ennið og komast ekki í úrslitakeppnina.

Í ljósi þess hvernig spilamennsku þau hafa boðið upp á að undanförnu er þessi möguleiki sannarlega til staðar.

Hugsið ykkur, ef svo færi, yrði það aðeins í annað sinn frá því NBA deildin var sett á laggirnar árið 1946 sem bæði þessi lið færu snemma í sumarfrí.

Það segir sína sögu um óhemju velgengni Lakers og Celtics að þetta hafi aðeins gerst einu sinni, en liðin tvö hafa auðvitað unnið um helming allra meistaratitla frá stofnun deildarinnar. Það var leiktíðina 1993-94 sem þessi sérstaki atburður átti sér stað, en þá voru bæði félögin að ganga í gegn um miklar breytingar.

Það tók Lakers ekki langan tíma að koma sér á toppinn aftur og aðeins sex árum síðar var liðið orðið NBA meistari. Það tók Celtics að vísu lengri tíma, en liðinu tókst á endanum að ná sér í titil árið 2008 eins og þið munið. Lakers hefur svo bara bætt í og unnið fimm titla síðan um aldamótin.

Með þessari pælingu erum við alls ekki að segja að Celtics og Lakers missi af úrslitakeppninni, enda yrði hún klárlega fátæklegri án stórveldanna. Við skulum bara segja að við séum að reyna að bakk-jinxa liðin inn í úrslitakeppnina.

Við létum fylgja með tvær skemmtilegar myndir. Önnur er liðsmyndin af Lakers frá umræddu ´93-´94 tímabilinu og hin sýnir nokkur andlit úr liði Celtics, reyndar frá leiktíðinni á eftir, 1994-´95.

Eins og þið sjáið eru þetta nú ekki beint gullaldarárin hjá risunum tveimur, þó vissulega megi skemmtilega leikmenn inn á milli í hóp beggja liða (eins og til dæmis leikmann í treyju númer níu hjá Lakers - lengst til vinstri í fremri röð).