Tuesday, January 22, 2013

Úlfavaktin er enn ekki farin af stað


Það sáu það ekki endilega allir fyrir í fyrra, en á síðustu leiktíð, varð Minnesota eitt mest spennandi lið deildarinnar á að horfa. Það var ekki síst vegna þess að við sáum fram á að Timberwolves yrði keyrt áfram af ungstirnunum Ricky Rubio og Kevin Love.

Fyrirbærið sem síðar fékk nafnið #Úlfavaktin hefur svo náð enn minna flugi í vetur út af meiðslum bæði Love og Rubio. Eins og það hafi ekki verið nóg, hefur meiðsladraugurinn nánast tröllriðið öllum leikmannahópnum.

Vissirðu að Ricky Rubio og Kevin Love hafa aðeins spilað 27 leiki saman í byrjunarliði?

Jebb. Tuttugu og sjö. Þetta er hrikalegt.

Ætli við verðum ekki að taka ofan fyrir strákunum hans Rick Adelman í vetur fyrir að vera aðeins þremur leikjum undir 50 prósentunum í ógnarsterkri Vesturdeildinni?

Andrei Kirilenko hefur heldur betur reynst liðinu góður fengur í vetur með varnarleik og fagmennsku og þá hefur tröllið Nikola Pekovic bætt sig í miðjunni.

Langskotin hafa hinsvegar verið til sögulegra vandræða hjá Úlfunum og það hefur ekki verið á það bætandi að tvær af bestu langskyttum liðsins hafi verið meiddar meira og minna í allan vetur.

Líklega eru möguleikar Úlfanna á að komast í úrslitakeppnina litlir sem engir og því verða þeir annað árið í röð að reyna að eiga gott sumar og keyra sig í gang fyrir næsta keppnistímabil.

Það er bara eins gott að þetta lið drullist til að haldast heilt á næsta ári. Annars verður Úlfavaktin ekki annað en blautur draumur í minningunni. Guð forði okkur frá því.

Og úr því við erum farin að tala um Guð, er líklega best að láta þessari stuttu hugleiðingu um Úlfana lokið að sinni.