Monday, January 28, 2013

Michael Cage er 51 árs í dag


Michael Jordan var óumdeildur konungur NBA deildarinnar á árunum 1989 til 1998 og vann til að mynda meistaratitlana sína sex innan þessa tímaramma (1991-93 og 1996-98).

Afmælisbarn dagsins, hörkutólið Michael Cage (ísl: Búri), missti ekki úr leik í NBA deildinni meðan á öllu þessu stóð.

Hann spilaði 736 leiki í röð áður en tognun í læri tók hann úr leik árið sem Chicago vann sjötta og síðasta meistaratitilinn með Michael Jordan í fararbroddi.

Aðeins AC Green sló honum við hvað varðar fjölda leikja spilaða í röð á þessum árum.

Cage var þekktur fyrir krullurnar sínar, varnarleikinn og fráköstin. Hann leiddi meira að segja deildina í fráköstum árið 1988, þegar hann sló Charles Oakley við með því að hirða 30 fráköst í lokaleik deildakeppninnar. Hann hirti 13 fráköst að meðaltali þennan vetur.

Cage hóf ferilinn með Los Angeles Clippers en hann var einmitt valinn númer fjórtán í sama nýliðavali og nafni hans Jordan - draftinu goðsagnakennda árið 1984 (Jordan, Olajuwon, Barkley, Stockton, Robertson, Willis og Perkins svo nokkrir séu nefndir).

Miðherjinn sterki naut mestrar velgengni í þau sex ár sem hann spilaði með Seattle Supersonics. Hann flakkaði svo til Cleveland, Philadelphia og New Jersey áður en hann lauk keppni 38 ára gamall.

Til lukku með daginn, Michael.