Thursday, January 24, 2013
Stjörnulið NBA Ísland: Austurdeild
Við ætlum að byrja á að velja leikmenn í lið Austurdeildarinnar af því það er erfiðara en að velja í lið Vesturdeildarinnar. Fyrir vestan eru ekki nógu mörg sæti fyrir alla kandídata, en fyrir austan er erfitt að manna lið með gaurum sem eiga skilið að spila Stjörnuleik að okkar mati. Frekar púkalegt.
Byrjum á byrjuninni og förum yfir byrjunarliðið. Við vitum alveg að við eigum ekki að fikta neitt í því, af því byrjunarliðin eru niðurstaða vinsældakeppninnar árlegu sem er í höndum bolsins. Byrjunarliðin sem kosin voru beggja vegna hefðu getað vitlausari, en þau eru samt gölluð á fyrirsjáanlegan hátt.
Það augljósa við byrjunarlið austursins er auðvitað að við höfum ekkert með tvo Celtics-menn að gera í byrjunarliðinu. Okkur er alveg sama hvað Rondo og Garnett eru búnir að spila vel, þeir eru þarna út á vinsældir Celtics, sem er ekki einu sinni með 50% vinninshlutfall þegar þetta er skrifað.
Í hugum okkar ber einn leikstjórnandi höfuð og herðar yfir aðra þessa stundina og það er Kyrie Irving. Jú, jú, strákurinn er ekki búinn að vinna marga leiki með Cleveland, en það hefði Magic Johnson ekki gert heldur ef hann væri í sömu sporum. Irving er að skora eins og andskotinn og raunar að skora allt of mikið af leikstjórnanda að vera ef þú spyrð okkur, en það eru fáir aðrir til þess þarna í Cleveland.
Irving er ekki bara einhver byssa, hann er líka búinn að sanna það aftur og aftur á sínu öðru ári (eins og hann gerði á því fyrsta líka) að hann er hvergi smeykur við að taka stóru skotin. Hann hefur klárað ófá liðin með óstöðvandi tilþrifum sínum í lok leikja og tók síðast Rondo og Boston Celtics og skeindi sér á þeim. Stórkostlegur leikmaður og skemmtilegur, sem er ekki verra að hafa í stjörnuleik.
Við höfum ekkert út á það að setja að LeBron James, Carmelo Anthony og Dwyane Wade séu í byrjunarliði austursins, það segir sig eiginlega sjálft. En það vantar klárlega stærð í þetta lið og það kemur ekki til greina hjá okkur að velja Kevin Garnett í þessa stöðu.
Athugaðu, að ef þú stingur upp á Chris Bosh, skaltu hætta að lesa núna og koma aldrei inn á þessa síðu aftur, af því það eru góðar líkur á því að þú sért fífl!
Nei, það er Joakim Noah sem fær okkar atkvæði í byrjunarliðið í austrinu. Hann er ekki með neitt svakalegar tölur (nánast eins og Tyson Chandler) en það er auðvitað varnarleikurinn sem kemur honum þarna inn. Noah er einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar að okkar mati og hefur að okkar mati spilað betur en Chandler í vetur.
Það var rosalega freistandi að velja Nets-manninn Brook Lopez út á fallegar sóknartölurnar hans, en við tökum bara ekkert mark á miðherjum sem frákasta eins og Chris Bosh. Sorry, stóri, þú kemst ekki í byrjunarliðið en við kippum þér samt inn í stað Al Horford af því hann er hjá Atlanta og öllum verður skítsama um hann meðan hann er þar.
Við vitum hvað þú ert að hugsa -þú ert að spá í hvað þetta er allt málefnalegt. We get that alot.
Ekki hélstu að við myndum gleyma Jrue Holiday, er það? Hann er búinn að vera flottur hjá Philadelphia og við kippum honum inn, þó stundum sé ekki nokkur leið að horfa á Sixers-leiki. (Við gerum það samt, af því við elskum Evan Turner meira en góðu hófi gegnir - gefum honum framtíðar Stjörnuleikja-spaðafimmu).
Frá Indiana ætlum við að taka Paul George, en skila David West eftir. George er rétt að byrja að verða góður, en við tökum hann með út af fjölhæfni hans og varnarleik, sem hann hefur bæði langt fram yfir félaga sinn West. Það eru ekki margir leikmenn í NBA deildinni með meira pótensjal en George. Með aga og vinnu, getur hann auðveldlega orðið einn af fimm bestu körfuboltamönnum í heimi. Hann er það góður.
Við ætlum að láta Kevin Garnett og Rajon Rondo sitja heima í ár og láta Paul gamla Pierce vera eina fulltrúa Celtics í Houston. Lið undir 50% hefur ekkert við fleiri en einn fulltrúa að gera, jafnvel í lélegri Austurdeildinni.
Þessi samantekt segir okkur að við séum aðeins komin með tíu leikmenn í lið Austurdeildarinnar og það verður bara að nægja. Þið vitið að þarna vantar auðvitað Derrick Rose og Andrew Bynum sem væru sjálfvirkir þarna inn ef þeir væru ekki meiddir. John Wall og Anderson Varejao hefðu sömuleiðis verið með í umræðunni ef þeir hefðu haldið heilsu.
Þarna vantar líka inn Deron Williams, en þó hann sé búinn að vera skárri síðustu daga, er hann búinn að drulla allt of mikið á sig og láta reka þjálfara í vetur til að eiga skilið sæti í Stjörnuleik. Sömu sögu er að segja af vini hans Iso-Joe Johnson. Hann er með la la tölur en allt of óstöðugur og á tíðum áhugalaus til að eiga heima í úrvalsliði sem þessu. Hann kemur til greina, en nær ekki inn. Væri fyrsti varamaður inn í hópinn ef einhver meiðist, segjum það.
Atlanta á engan fulltrúa þrátt fyrir að vera með heilt yfir þokkalegan árangur. Þetta kemur af því liðið er loksins að sýna sitt rétta andlit þessa dagana og drulla á sig. Josh Smith er hnúahaus sem tapar þó hann setji fram fallegar tölur og Al Horford er bara bleh og virðist ekki hafa metnað til að verða meira en það.
Og ekki byrja með eitthvað J.R. Smith kjaftæði! Maðurinn rétt slefar í 40% nýtingu og hittir úr nákvæmlega einu af hverjum þremur þriggja stiga skotum sem hann tekur. Hann er skotglaður hnúahaus, sem á ekkert erindi í Stjörnuleik þó við viðurkennum alveg að hann hafi sýnt þroskamerki síðan hann byrjaði að spila með Jason Kidd. Þú verður að vera úti ef þú ætlar með þennan mann til Houston.
Sömu sögu er að segja um þá tvíbura Jennings og Ellis hjá Milwaukee. Þetta eru tvær byssur sem rífast um að taka öll skot sem eru í boði hjá Bucks og hitta úr 40% þeirra. Jennings er aðeins skárri, en á ekkert erindi í Stjörnuleik ef þú ætlar að taka hlutina eitthvað alvarlega.
Þetta er því Stjörnulið Austurdeildarinnar eins og við sjáum það:
G Kyrie Irving
G Dwyane Wade
C Joakim Noah
F LeBron James
F Carmelo Anthony
------------------------
C Tyson Chandler
C Brook Lopez
F Paul George
F Paul Pierce
G Jrue Holiday
Komu til greina, en náðu ekki inn: Kevin Garnett, Rajon Rondo, Al Horford, Deron Williams, Joe Johnson, Luol Deng, David West, Brandon Jennings, Greg Monroe, Carlos Boozer.
Fáránlegt lið, en svona sjáum við þetta. Hvað segir það um Austurdeildina að miðherjastaðan (sem er allt nema dauð, eins og allir vita) skuli eiga þrjá fulltrúa í okkar Stjörnuleik?
Þetta val hlýtur að vera nóg til að gera einhvern brjálaðan. Við getum ekki beðið eftir að byrja á Vesturdeildarliðinu, en þar náum við amk í fullt tólf manna lið manna sem eiga skilið að spila Stjörnuleik.
Vesturliðið dettur inn seinna í kvöld. Stay tuned.
Efnisflokkar:
Stjörnuleikir