Thursday, January 24, 2013

Ballið byrjaði yfir Stjörnuleik



Tölvupóstunum hefur bókstaflega rignt yfir okkur síðustu daga og efni þeirra hefur nánast undantekningarlaust tengst blessuðum Stjörnuleiknum í næsta mánuði.

Eins og þið vitið flest, erum við ekki að deyja úr spenningi yfir Stjörnuleiknum, en af virðingu við efnið ætlum við samt að hripa niður nokkur orð um hann. Þetta gerum við af því áhugi okkar á NBA deildinni kviknaði að hluta til við það að horfa á Stjörnuleik á níunda áratugnum.

Í þá daga vorum við auðvitað fyrst og fremst að dást að troðslum og tilþrifum og því var Stjörnuleikur frábær leið til að kynnast bestu leikmönnum deildarinnar í tilþrifasúpu í lýsingu Einars Bollasonar. Þarna breyttist áhuginn í fyrst í áráttu, ef svo má segja.

Stjörnuleikir í dag eru ekkert í líkingu við Stjörnuleikina eins og þeir voru í denn. Eini munurinn á Stjörnuleik og alvöru leik á níunda áratugnum var að það var spiluð lélegri vörn fyrstu 40 mínúturnar og sóknarleikurinn var aðeins lausari og afslappaðri.

Þrátt fyrir að leikmenn væru léttari á því, leystust þessir leikir aldrei upp í vitleysu.

Það er stóri munurinn.

Stjörnuleikir í dag eru voðalega mikið vitleysa frá fyrstu mínútu og við hættum alveg að nenna að horfa á þá á Marbury-Iverson tímanum þegar menn skiptust á asnalegum þriggja stiga skotum allan leikinn og spilamennskan var engin.

Þetta hefur ef til vill skánað eitthvað aðeins í dag þar sem það eru betri leikstjórnendur í deildinni en oft áður (kannski nokkru sinni), en þetta er enn óttaleg vitleysa allt saman og meðan þetta er svoleiðis nennum við ekki að horfa á þetta.

En hey, við lofuðum ykkur að skoða hvaða menn við ætluðum að senda í prógrammið í Houston í næsta mánuði og við verðum að standa við það. Ekki halda að við gerum það eitthvað eðlilega samt. Við veljum í Stjörnulið eftir okkar höfði og þið verðið bara að taka því, þó þetta verði ómálefnalegt og asnalegt.

Meirihlutinn af því sem við skrifum á þessa síðu er reyndar ómálefnalegur gremjuáróður en það hefur einhverra hluta vegna heldur aukið lesturinn en minnkað hann, svo við ætlum ekkert að óttast að tjá okkur með ristlinum frekar en venjulega.

Ritunin er hafin. Verið róleg á meðan.