Friday, January 25, 2013

Stjörnulið NBA Ísland: Vesturdeild



















Ef tilgangurinn með því að skrifa niður skoðanir okkar á Austurdeildarliðinu fyrir Stjörnuleikinn hefði verið að æsa fólk upp, hefði það plan gengið nokkuð vel upp.

Viðtökurnar voru samt heilt yfir nokkuð góðar þó nokkrir hausar hafi verið algjörlega ósammála okkur. Það er bara stakur sómi af því og nú skulum við skella okkur í Vesturdeildina þar sem skemmtilegra verkefni bíður okkar.

Alveg eins og fyrir austan fyrr í kvöld, byrjum við á því að skoða byrjunarliðið hjá vestrinu.

Það kemur ykkur ef til vill á óvart en við viljum bara gera eina breytingu á því.

Það liggur í augum uppi að stórveldið Los Angeles Lakers hefur ekkert með tvo leikmenn að gera í byrjunarliðinu verandi skrilljón leikjum undir 50% vinningshlutfalli.

Dwight Howard er með alveg þokkalegar tölur, en hann hefur mestmegnis verið í því að væla og taka dramaköst í vetur. Flestir hallast að því að Howard sé alls ekki með 100% heilsu og það þarf engan geimvísindamann til að sjá það. Hann er ekki með sömu sprengju og áður.

Stóra spurningin er bara hvort eða hvenær nær hann sér að fullu eftir þennan blessaða bakuppskurð sinn í sumar? Enginn treystir sér til að tippa á það - enginn veit neitt, kannski ekki einu sinni Howard sjálfur.

Sú staðreynd að Howard er ekki 100% heill hefur fallið dálítið í skuggann í fjölmiðlafárinu sem verið hefur í gangi um Lakers í allan vetur. Blaðamenn eru svo uppteknir að því að spyrja út í he said, she said bullshit (svo við leyfum okkur að vitna í stórskáldið Fred Durst) að þeir hafa alveg gleymt að spyrja Howard hvort hann eigi eitthvað von á því að fara að spila eins og varnarmaður ársins á næstunni.

Við skulum ekki eyða öllum þessum pistli í Lakersdrama. Við getum sagt ykkur frá því að í allan dag vorum við harðákveðin í að setja Russell Westbrook í byrjunarlið vestursins ásamt Chris Paul (sem er sjálfvirkt, læst val), en svo fórum við að hugsa málið betur og settum Kobe Bryant inn í staðinn.

Kobe er að skoða flippin 29 stig í leik og er enn með sæmilega nýtingu þó hann hafi verið að dala aðeins að undanförnu.

Þið vitið alveg að Kobe fer oft hrottalega í taugarnar á okkur en við gátum bara ekki tekið Russell Westbrook inn í liðið í staðinn fyrir Kobe. Ekki svona þegar við erum nýbúin að horfa á slæma Russ skjóta Oklahoma út úr leiknum við Warriors síðustu nótt.

Talandi um Warriors - eina liðið í NBA sem hefur unnið Miami, Oklahoma og LA Clippers - það er kominn tími á að gefa þessu liði það kúdós sem það á skilið. Fyrir leikinn gegn Warriors gærkvöldi, hafði Oklahoma ekki tapað einum einasta leik þar sem það hafði verið yfir eftir 3.leikhluta (22-0).

Golden State breytti því og það var með ólíkindum hvað liðið náði að spila góðan varnarleik gegn OKC. Það var ekki gamla góða skotárásin sem tryggði sigurinn eins og venjan hefur verið í Oakland, heldur hörkuvörn af gamla skólanum. Frábært fyrir þá.

Dæmi um viðsnúninginn hjá Warriors: Á síðustu leiktíð var liðið 9-18 í leikjum þar sem munurinn var 3 stig eða minna á síðustu einni og hálfri mínútunni. Á þessari leiktíð? 12-5.

Það er ekki aðeins kominn tími til að verðlauna þá Stephen Curry og David Lee fyrir frábæra frammistöðu með því að velja þá í Stjörnuleikinn, heldur einnig stuðningsmenn Warriors sem hafa verið einir þolinmóðustu áhorfendur í heimi - ekki aðeins síðustu ár heldur áratugi!

Það er nákvæmlega engin spurning í okkar huga að bæði Curry og Lee eiga að fara inn. Það er bókað hjá okkur, hvort sem þjálfararnir í deildinni sjá þetta svo eða ekki.

Clippers á alveg skilið að fá tvo menn í byrjunarliði Vesturdeildarinnar og Guð veit að Kevin Durant á að vera þar. Svo flækist málið dálítið þegar kemur að því að velja mann í staðinn fyrir vælukjóann í miðjunni.

Næstur á blaði hjá okkur í stöðuna er Tim Duncan, sem hefur verið frábær í vetur og á að okkar mati skilið að fara inn núna.

Það er hinsvegar einn galli við að velja Duncan og hann er að framherjinn rólegi hefur engan áhuga á að fara til Houston. Hann er búinn að sjá þetta allt saman og vill miklu frekar hvíla lúin og gömul bein og slappa af með fjölskyldunni.

Því ætlum við að fara í þriðja kostinn og velja Marc Gasol og gefa Duncan gamla bara frí.

Rétt eins og á síðasta ári, er Marc nú betri Gasol-inn og fær sæti í Stjörnuleiknum hjá okkur alveg jafn mikið út á varnarleik og sóknarleik, enda er sóknin hjá honum reyndar ekkert rosaleg. Maðurinn kann bara að spila körfubolta.

Vesturdeildarliðið verður að vera dálítið asnalega samansett alveg eins og austurliðið og eins og við sögðum ykkur áðan, gefum við skít í reglurnar af því við viljum að menn fái að fara í leikinn óháð einhverjum asnalegum smáatriðum.

Þess vegna neyðumst við til þess að hafa fjóra leikstjórnendur í Vesturdeildarliðinu en þurfa samt að skilja toppmenn eftir úti í kuldanum. Hefurðu pælt í því að fimm efstu liðin í Vesturdeildinni eiga einn stóran hlut sameiginlegan? Jú, þau eru öll svo heppinn að vera með heimsklassa leikstjórnanda í sínum röðum.

Fjórir af þeim fá inn hjá okkur. Chris Paul, Russell Westbrook, Tony Parker og Stephen Curry.

Það er ekki hægt að sleppa þessum gaurum, þó einhverjir þeirra verði óhjákvæmilega skildir eftir í valinu í kvöld.

Þessir piltar eru ekki bara að spila eins og englar allir saman, heldur eru liðin þeirra öll að gera glæsilega hluti líka.

Og fyrir vikið eiga toppmenn eins og Mike Conley og Damien Lillard ekki séns, sem er leiðinlegt.

Það verða því Chris Paul og Kobe Bryant sem byrja í bakvarðastöðunum hjá vestrinu og við höfum aðeins pláss fyrir einn bakvörð í viðbót út af öllum þessum leikstjórnendum. Það er að sjálfssögðu James Harden.

Þá á bara eftir að ákveða hvaða stóru menn við hendum inn í stað Duncan og Howard. Gasol yngri kemur í staðinn fyrir Howard og LaMarcus Aldridge frá Portland, eftir harða baráttu við Serge Ibaka.

Ef þú ætlar að koma Jamal Crawford inn í Stjörnuleikinn, skaltu skoða tölurnar hans og spyrja þig hvort hann gerir eitthvað annað en að bomba.

Það verður þá einhvern veginn svona sem vesturliðið lítur út hjá okkur. Við hefðum alveg verið til í að henda fleiri mönnum þarna inn, en þetta er að verða drullu-gott og við tippum á að við sofum vært yfir þessu. Gjörið svo vel.

G Chris Paul
G Kobe Bryant
C Marc Gasol
F Blake Griffin
F Kevin Durant
--------------------
G Tony Parker
G Russell Westbrook
G Steph Curry
G James Harden
F Lamarcus Aldridge
F Zach Randolph
F David Lee