Thursday, January 31, 2013

Memphis þarf ekki lengur að borga Rudy Gay fyrir að spila körfubolta, sem eru ákaflega góð tíðindi


Það hefur verið yfirlýst stefna nýju eigenda Memphis Grizzlies að skera niður launakostnað.

Fyrsta skrefið var að koma félaginu undir launaþakið. Það tókst um daginn, en það var ekki nóg.

Í gær tókst forráðamönnum Memphis að gera nokkuð sem þeir voru búnir að reyna nokkuð lengi, að losa sig við Rudy Gay og tröllvaxinn samning hans. Óháð körfubolta - og þetta er alveg óháð körfubolta - eru þetta ágæt viðskipti.

Sagt er að Memphis sé núna 8 milljónum dollara undir launaþakinu og hafi í heildina sparað sér rúmlega 37 milljónir dollara næstu þrjú árin.

Það er óhemju peningur fyrir félag sem spilar á einum minnsta markaði í deildinni og er augljóslega með eigendur sem ætla að velta hverri krónu.

Ef þú ert alveg úti á túni og skilur ekkert hvað við erum að tala um, þá erum við að tala um leikmannaskipti sem áttu sér stað í gær, þar sem hæst ber að Rudy Gay fer frá Memphis til Toronto. Toronto sendir Jose Calderon til Detroit og Ed Davis til Memphis, sem fær Tayshaun Prince og Austin Daye.

Enginn skilur hvað Toronto er að hugsa með þessum viðskiptum, en það er líklega bara að hugsa með anusnum eins og það virðist jafnan gera þegar kemur að leikmannamálum. Það er hvort sem er öllum sama um Toronto-liðið, því miður er staðan bara þannig. Líka með Detroit auðvitað.

En hvað vakir fyrir John Hollinger og félögum hjá Memphis?

Flestir sem skrifað hafa um málið eru á því að Memphis sé sigurvegarinn í þessum viðskiptum fyrst og fremst vegna sparnaðarins, sem er umtalsverður eins og við greindum frá í upphafi pistilsins. En hvað með körfuboltahliðina á þessu? Skiptir hún allt í einu ekki máli, eða?

Jú, auðvitað skiptir hún máli. En hvernig sem á það er litið, eru þessi skipti óhemju jákvæð fyrir Memphis. Félagið varð einfaldlega að gera eitthvað í þessum Rudy Gay-pakka og er nú búið að losa sig við hann.

Gay fékk allt, allt, allt of stóran samning hjá félaginu á sínum tíma og það gekk augljóslega ekki fyrir svona lítinn klúbb að vera að borga honum max peninga þegar það var að borga þeim Zach Randolph og Marc Gasol risapeninga líka.

Memphis er í mjög öfundsverðri stöðu. Ekkert lið í NBA er með betri mannskap í stöðu leikstjórnanda, kraftframherja og miðherja - ekki nálægt því - og þetta verður stjórn félagsins að nýta sér.

Griz hefur náð að hnoða saman fínt lið úr ágætum mannskap og með góðum þjálfara undanfarin ár, en nú er kominn tími til að hlaða í og gera þetta lið að áskoranda í alvöru.

Til hvers að vera með svona óhemju sterka framlínu og frábæran leikstjórnanda (Mike Conley, vanmetnasta leikstjórnanda í NBA) ef þú ætlar ekki að gera neitt með þetta nema miðjumoðast eitthvað í aðra umferð í úrslitakeppninni?

Það sem Memphis er búið að gera með því að losa sig úr þessum Gay-álögum (no pun intended) er að búa sér til pláss til að gera eitthvað á leikmannamarkaðnum í nánustu framtíð. Helst sem fyrst auðvitað.

Liðið mun auðvitað sakna Rudy Gay eitthvað - maðurinn er jú stigahæsti leikmaður liðsins - en það sýndi sig þegar liðið náði lengst í úrslitakeppninni í hittifyrra að það þarf í rauninni ekki á honum að halda. Tölurnar hans í vetur hafa svo ekki verið neitt æðislegar, reyndar hefur hann droppað í stigum og hrunið í skotnýtingu (rétt slefar í 40% allt í einu).

Það sem hefur verið vandamálið með Rudy Gay er nákvæmlega það sama og hefur verið að plaga Danny Granger hjá Indiana. Þeir eru ágætisleikmenn en ekkert meira. Þeir fá borgað eins og stórstjörnur en eru það ekki. Þeir eru ekki þessir neyðarkarlar sem liðin þeirra þurfa og hafa þess vegna báðir verið falir lengi.

Nú er Memphis með pálmann í höndunum eftir að hafa losað sig við Gay og Indiana bölvar örugglega í hljóði að hafa ekki verið búið að bjóða forráðamönnum Toronto að kaupa Danny Granger (þó þeir séu örugglega búnir að reyna það 100 sinnum).

Það verður einhver að skora þessi 17-20 stig sem Rudy Gay var að skora hjá Memphis. Það er ekki víst að Tayshaun Prince skori nema brot af því en hann ætti að koma með reynslu og fagmennsku inn í lið Memphis - nokkuð sem liðinu veitir ekki af.

Það er stór spurning hvað Prince á eftir á tanknum eftir nokkur hörmuleg ár í Detroit að undanförnu.

Við skrifuðum um Prince fyrir einhverju síðan þar sem við leiddum líkum að því að hann væri löngu búinn að missa áhugann á að spila körfubolta - það væri augljóst á þeirri staðreynd að hann hefði samið aftur við Detroit.

Við skulum sjá hvað Memphis getur fengið út úr honum. Hann kunni nú einu sinni að spila hörkuvörn og hefur reyndar verið að hitta mjög vel úr þriggja stiga skotunum sínum í vetur. Vonandi heldur hann því áfram fyrir Memphis, sem nú horfir björtum augum á framtíðina - án Rudy Gay.