Thursday, January 31, 2013

Meiðsli Rajon Rondo þýða breytingar hjá Boston


Það er enginn Celtics-aðdáandi á ritstjórn NBA Ísland, en við værum ekki mennsk ef við værum ekki í rusli yfir meiðslum Rajon Rondo. Allir sem hafa gaman af NBA eru leiðir yfir því að sjá þennan stórkostlega leikmann ekki á fullum krafti aftur fyrr en eftir eitt til eitt og hálft ár.

Við vorum reyndar búin að vera að hugsa mikið um Celtics áður en ógæfan reið yfir á sunnudaginn. Gengi liðsins í deildakeppninni í vetur hefur verið upp og niður, aðallega niður, en af gömlum vana þorðum við ekki alveg að drulla yfir liðið.

Það hefur gengið á ýmsu í Austurdeildinni undanfarin ár, en alltaf skal Boston vera með í slagnum. Væntingarnar hafa verið mismiklar frá því liðið lék til úrslita í annað sinn árið 2010, en núna verðum við að leyfa okkur að nota setningu sem Einar Bollason gerði ódauðlega á sínum tíma.

Þett´ er búið!

Það er leiðinlegt að segja það, en þetta er sannarlega búið hjá Boston. Flestir fjölmiðlamenn byrja auðvitað að hrópa á að forráðamenn Celtics nái bara í skóflu og kúst og sópi liðinu út og byrji upp á nýtt. Það er bara ekki eins auðvelt og það hljómar, það vita allir sem hafa hálfan heila eða meira.

Okkur dettur ekki í hug að fara í framkvæmdastjóraleik og leggja til hvað Boston á að gera í leikmannamálum. Það eina sem er ljóst í okkar augum er að Celtics-liðið eins og við þekkjum það - liðið sem varð meistari árið 2008 - er nú komið á endastöð.

Líklega var liðið þegar komið á endastöð, þið verðið að viðurkenna það, þeir Paul Pierce og Kevin Garnett hafa á tíðum litið út fyrir að vera nákvæmlega jafn gamlir og þeir eru í vetur.

Við þorðum nú samt ekki að dæma Celtics úr leik og þið sáuð af hverju á sunnudaginn þegar liðið skellti meisturunum. En Boston er ekki að fara að vinna meistarana eða yfir höfuð margar seríur í úrslitakeppni án Rajon Rondo. Það er bara ekki að fara að gerast.

Nú eiga leikmenn liðsins vafalítið eftir að snúa bökum saman og ef liðið fer í úrslitakeppnina, verður það svo sannarlega enginn óskamótherji. Gamlir hundar eins og KG og Pierce eru stoltir og þeir gefast ekki upp án bardaga.

Það verður hinsvegar að teljast ansi ólíklegt að liðið fari langt án sín besta leikmanns og það er Rajon Rondo. Það er langt síðan hann varð besti leikmaður liðsins og sá mikilvægasti.

Það hefur lengi legið í loftinu að breytingar yrðu gerðar hjá Celtics. Við vissum bara ekki að þær kæmu til á þennan hátt. Við hefðum tippað á að Rondo yrði lykilmaður í síðasta dansinum hjá Boston Celtics, en hann verður að láta sér nægja að horfa frá hliðarlínunni.

Megi Rajon Rondo eiga skjótan og öruggan bata.