Wednesday, November 30, 2011
Clippers á forsíðu SI
Það gekk ekkert sérstaklega hjá síðasta Clippers-leikmanni sem komst á forsíðu Sports Illustrated.
Það er orðið ansi langt síðan þetta var. Darius Miles hafði bara ekki það sem til þurfti.
Aðra sögu er að segja af ungstirninu Blake Griffin, sem prýðir þessa eftirsóttu og frægu forsíðu núna. Óhætt að áætla að um það bil 99% körfuboltaáhugamanna vonist til að sjá meira frá þessum kappa á næstunni. Hann er með þetta pilturinn. Frábær leikmaður og geðþekkur skemmtikraftur.
Efnisflokkar:
Blake Griffin
David Tairu er ekki að spila körfubolta á Íslandi
Synd að KR-ingar hafi þurft að láta David Tairu fara.
Eins og talsmenn KR sögðu var pilturinn búinn að leggja sig allan fram og það leyndi sér ekkert á vellinum.
Meðaltölin hans í deildinni upp á 21,4 stig, 6,4 fráköst og 18 í framlag voru svo sem ekkert til að skammast sín fyrir.
KR hefði kannski allt eins geta losað sig við Ed Horton yngri, sem missti af nokkrum leikjum í byrjun leiktíðar vegna meiðsla og var skelfilegur í síðasta leik KR gegn Grindavík, þar sem hann komst ekki á blað í stigaskorun.
Öll vitum við þó að haustleikirnir segja ekki alla söguna og það er ekki langt síðan KR var með Kanabakvörð sem virkaði ósköp mannlegur framan af, en fór svo hamförum um vorið og tryggði liðinu Íslandsmeistaratitilinn.
Það er ekki tekið út með sældinni þetta Kanalottó. Nú er KR að leita sér að stórum manni og það er vel. Liðið getur vel notað stóran mann, svo mikið er víst. Brotthvarf Tairu opnar líka vonandi dyrnar fyrir meiri spilatíma fyrir Martin Hermannson og Björn Kristjánsson. Ekkert annað en sómi af því að sjá þessa efnilegu pilta vaxa og takast á við stærri hlutverk.
Efnisflokkar:
Erlent vinnuafl
,
Heimabrugg
,
KR
Thursday, November 24, 2011
Grindavík er að spila hrikalega góðan körfubolta
Stórleikurinn í DHL höllinni í kvöld varð ekki alveg sú skemmtun sem við öll reiknuðum með. Það var engu líkara en KR-ingar hefðu verið á leið í þakkagjörðarkalkún, en verið sagt það á síðustu stundu að þeir þyrftu að spila körfuboltaleik í staðinn.
Öll lið geta átt sína slæmu daga og þetta var einn slíkur hjá KR. Þar með tökum við ekkert af Grindavíkurliðinu. Frábær leikur hjá þeim, ekki síst í vörninni. Menn höfðu sínar efasemdir um Grindavíkurliðið þó það væri taplaust, en þeir gulu svöruðu því með stæl í kvöld. Meistaraefni þar á ferð. Ekkert flóknara.
Ykkur til happs þurfti ritstjórnin að sinna öðrum verkefnum en ljósmyndun á meðan leik stóð og því var alvöru fagmaður á vélinni okkar, hann Daníel Rúnarsson af Fréttablaðinu. Hann náði meðal annars mynd af tröllatroðslu heljarmennisins J´Nathan Bullock, sem tvímælalaust er orðin kandídat í körfuboltamynd ársins. Þetta er svo gaman.
Efnisflokkar:
Grindavík
,
Heimabrugg
,
KR
Eðlilegur blaðamannafundur í Ikea
Í hádeginu fór fram fyrsta opinbera afhendingin á NBA Ísland bolunum góðu. Þarna voru þrír stórmeistarar frá Fréttablaðinu og Vísi að leggja sitt af mörkum í góðgerðamálum fyrir jólin. Ekki skemmir fyrir að þeir verða miklu flottari fyrir vikið.
Afhendingin fór fram í Ikea í kjölfar þakkagjörðarmáltíðar sem þar var haldin. Reikna með að það verði árlegur viðburður framvegis. Það var líka vel við hæfi að halda þennan litla blaðamannafund í dag, því menn eru óvinnufærir af spennu fyrir viðureign KR og Grindavíkur í Iceland Express deildinni í kvöld. Þangað mæta allir sem hafa gaman af körfubolta og þeir sem hafa ekki tök á að mæta geta horft á hann í beinni í sjónvarpi Vísis.
Enn er eitthvað eftir af bolum á lagernum og við skorum á ykkur að krækja í eintak fyrir jólin. Eins og við höfum áður sagt fer hver einasta króna sem kemur í kassann af sölu bolanna beint í gott málefni fyrir jólin. Höfum enn ekki ákveðið nákvæmlega hvað við ætlum að gera, en það verða börnin sem njóta góðs af þessu.
Sendu línu á nbaisland@gmail.com ef þig langar í bol.
Nokkrir sem sent hafa inn pöntun eiga eftir að fá afhent, en því verður komið til skila við fyrsta tækifæri.
Friday, November 18, 2011
Fyrstudeildarflipp
Úr því úrvalsdeildarpiltarnir eru bara í bjórsmökkun núna og nenna ekki að spila, var ekki um annað að ræða en skella sér á leik í 1. deildinni. Urðum að kíkja af því okkar maður Ká Joð, nú betur þekktur sem Coach KJ, var mættur í Smárann með strákana sína í FSu.
Blikarnir tóku þetta í fráköstunum og erfitt fyrir FSu að keppa við Gillzeneggera eins og Þorstein Gunnlaugsson í miðjunni. KJ olli engum vonbrigðum og sallaði 29 stigum á Blikana. Lofaði reyndar tuttugu þristum fyrir leik en þetta var flott hjá honum. Líka gaman að sjá Sæmund Valdimarsson - a.k.a. Lil Marv. Einvígi hans og Svavars Stefánssonar var skemmtilegt. Ungu mennirnir skiptust á að gefa hvor öðrum andlitsmeðferðir um allan völl.
Krúttlegt að sjá að meirihlutinn af Stjörnuliðinu var líka mættur til að horfa á sína menn. Marvelous mætti auðvitað að horfa á litla bróður en svo voru þeir líka þarna Justin, Jovan, Keith og Dagur svo einhverjir séu nefndir. Bræðralagið í körfunni. Huggulegt að sjá þetta.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Papparass
Monday, November 14, 2011
Verðug samkeppni
Það undirstrikar hvað við erum hræðilegir sölumenn, hafandi verið að kynna bolina okkar hérna á síðunni í gær, en við megum til með að segja ykkur frá því að Adidas búiðin í Kringlunni er með nokkra NBA búninga til sölu.
Það hefur líklega ekki staðið til að selja þessa búninga, því þeir eru faldir á versta mögulega stað í búðinni.
Þarna er hægt að fá treyju Paul Pierce hjá Boston, Kevin Durant hjá Oklahoma, Dwyane Wade hjá Miami og reyndar Denver-treyju Carmelo Anthony, sem varla verður heitasta flíkin fyrir jólin 2011.
Teyjur þessar kosta 10 þúsund kall, sem auðvitað er fáránlega mikill peningur, en staðreyndin er nú samt sú að verslunin er ekki að leggja mikið á þetta. 10 k í ónýtum gjaldmiðli er reyndar ekki mikið fyrir þessar eigulegu flíkur sem eru hreint ekki gefins erlendis.
Jói Útherji var með nokkrar treyjur síðast þegar við vissum. Þar var einu sinni hægt að fá Kevin Garnett hjá Boston, Derrick Rose hjá Chicago og Kobe Bryant hjá Lakers ef við munum rétt.
Við erum með algjöra dellu fyrir svona treyjum og eigum nokkrar, sem við þó klæðumst aldrei. Þetta er bara söfnunarárátta. Ef þú átt NBA treyjur sem þig langar að losna við eða veist um fleiri staði á klakanum sem selja nýjar, máttu endilega senda okkur línu á nbaisland@gmail.com.
Það er samt auðvitað sniðugra að fá sér NBA Ísland bol og styrkja gott málefni í leiðinni.
Efnisflokkar:
Varningur
Hvers á Rauða Pandan að gjalda?
Asíska afþreyingarundrið Rauða Pandan skemmtir áhorfendum í öðrum hverjum leik í NBA deildinni. Nú styttist í að þessi sauðnaut blási tímabilið endanlega af. Hvað á Pandan að taka til bragðs? Er ekki borðliggjandi að fá hana í Útsvar?
Efnisflokkar:
Eðlilegt
,
Rauða Pandan
,
Verkbann
Sunday, November 13, 2011
NBA Ísland bolirnir dottnir í hús
Það styttist í jólin og við vitum hvað það getur verið erfitt að finna jólagjafir handa fólki sem á allt. Allt nema bol merktan NBA Ísland, það er að segja.
Létum henda á nokkra boli til gamans. Eigum nokkra svarta í medium, large og extra large og græna í takmörkuðu upplagi í slim fit (large og extra large). Þetta eru Russell bolir, ekkert drasl, svo þeir eru rándýrir. Seljum stykkið á 3000 kall (eða meira ef þú vilt) og ágóðinn fer svo í eitthvað gott málefni sem við leggjum lið fyrir jólin. Kynnum það nánar hér á síðunni þegar nær dregur hátíðum.
Sendu okkur línu á nbaisland@gmail.com ef þú hefur áhuga á að komast yfir eintak. Við reynum að finna eitthvað út úr því.
Friday, November 11, 2011
Thursday, November 10, 2011
Grjótharðar Haukastelpur
Aftur var NBA Ísland að þvælast á Ásvöllum og í þetta skiptið til að horfa á stelpurnar. Haukastúlkur sýndu fádæma baráttu og harðfylgi þegar þær skelltu toppliði KR 66-60. Það voru nokkrir strákar úr karlaliðinu meðal áhorfenda og þeir taka baráttu stelpnanna vonandi til fyrirmyndar í næsta deildarleik sínum.
Við sáum Haukastelpur spila í Hólminum um daginn og hrifumst einmitt af baráttuanda þeirra þó þær næðu nú ekki að landa sigri í það skiptið. Í kvöld datt þetta með þeim þrátt fyrir að KR gerði harða atlögu að þeim í lokin.
Flottur leikur hjá stelpunum. Þær fyrirgefa okkur það vonandi þó við hendum hér inn nokkrum af viðvaningsmyndunum okkar frá leiknum.
Efnisflokkar:
Haukar
,
Heimabrugg
,
KR
,
Sönn seigla
Tuesday, November 8, 2011
Haukar eru að leita að körfuboltaþjálfara
Pétur Ingvarsson er hættur með Hauka, en kannski voru Haukarnir þegar hættir með honum.
Það fengum við að minnsta kosti á tilfinninguna þegar við horfðum á síðustu leiki þeirra. Það á að búa meira í þessu liði en það hefur sýnt. En við ætlum leyfa einhverjum með meiri þekkingu á efninu að fabúlera um það. Stundum þarf jú bara að breyta til og allt það.
Vonum bara að körfuboltahöfðinginn Pétur finni sér nýjan vettvang til að miðla reynslu sinni sem fyrst og að Haukar finni mann sem hefur orku í að lemja meira út úr liðinu þeirra.
Efnisflokkar:
Haukar
,
Heimabrugg
,
Þjálfaramál
Monday, November 7, 2011
Snæfell vann körfuboltaleik í vondu veðri
Leikur Stjörnunnar og Snæfells í bikarnum í kvöld var hálf furðulegur. Jovan-lausir heimamenn voru að elta allan leikinn en komust aftur inn í hann í blálokin með miklu harðfylgi. Snæfell hélt þó haus í lokin með heilladísirnar á sínu bandi.
Vítaskot Ólafs Torfasonar þegar leiktíminn var liðinn kláraði leikinn. Svo má deila um hvort brotið var á kappanum þegar hann reyndi örvæntingarfullt skot um leið og lokaflautið gall. Dálítið hart á Stjörnumenn, en þeir vita upp á sig sökina. Voru ekki alveg nógu beittir í kvöld. Hólmarar verða ekki öfundaðir af akstrinum heim í þessu veðri, en þessi sæti sigur ætti að gera ferðina bærilegri.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Lengjubikarinn
,
Snæfell
,
Stjarnan
Stjörnumenn eru brautryðjendur
Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur nú stigið mikilvægt skref í átt að bættri umgjörð í íslensku íþróttalífi. Í stað þess að vera með kósí sæti, kók og sælgæti í blaðamannastúkunni, hefur deildin komið upp röð af þrekhjólum fyrir íþróttafréttamenn sem mæta í Ásgarðinn.
Það var líklega kominn tími til að einhver gerði eitthvað í þessu. Sportskríbentar þjóðarinnar eru fljótir að benda á það ef íþróttamennirnir eru ekki í ásættanlegu formi og því er ekki nema við hæfi að þeir reyni að skafa af sér mörinn sjálfir. Við hérna á NBA Ísland erum engin undantekning á þessu. Frábært framtak hjá Stjörnumönnum.
Efnisflokkar:
Aðstaða Blaðamanna
,
Heilsa
,
Stjarnan
Að gefa það áfram
Það að vera körfuboltamaður snýst um annað og meira en að líta huggulega út úti á vellinum. Menn verða líka að gefa þetta áfram til komandi kynslóða. Það gerðu menn eins og Árni Ragnars og Ægir Þór Steinarsson hjá Fjölni um liðna helgi, þegar þeir leiðbeindu yngstu kynslóð Fjölnismanna á Sambíómótinu í Grafarvogi. Sómi af þessu.
Efnisflokkar:
Fjölnir
,
Vel Gert
,
Yngri Flokkar
Saturday, November 5, 2011
Ljómandi kvöld í Ljósabekknum
Já, við sáum Stjörnuna gera góða ferð í Ljósabekkinn í Þorlákshöfn í kvöld. Vinna þar 97-86 sigur á Þórsliði sem hefur byrjað vel í deildinni og á eftir að vinna ansi marga leiki á heimavelli í vetur.
Það leyndi sér ekki að Stjörnumönnum þótti mjög vænt um þennan sigur og það var kannski ekki skrítið á miðað við hve illa liðið spilaði þrjá síðustu leikhlutana gegn KR um daginn. Þá var eins og allt færi fjandans til þegar Jovan þurfti að yfirgefa völlinn meiddur. Hann var í hversdagsklæðunum á bekknum í kvöld og verður það amk í einhverja daga í viðbót.
Þetta var prýðilega skemmtilegur leikur eins og búast mátti við. Græni Drekinn er eins og sjötti maðurinn í liði Þórs, en það var nú flott að sjá að nokkrir Garðbæingar höfðu drifið sig með austur og reyndu hvað þeir gátu að hvetja sína menn áfram meðan Drekinn dró andann.
Gaman að sjá Marvin Marvelous Valdimarsson spila vel með Stjörnunni. Hann er í flottu formi pilturinn og er að spila fleiri mínútur en á síðustu leiktíð. Var stigahæsti maður vallarins með 25 í kvöld og ísaði þetta fyrir gestina í lokin. Marvin hefur alltaf vitað hvar karfan er, ekki síst fyrir austan fjall, en hann tók auðvitað að sér nýtt hlutverk þegar hann gekk til liðs við Stjörnuna.
Það var flott að koma í Þorlákshöfn og þetta verður alveg örugglega ekki síðasti leikurinn sem við sjáum í þessu húsi í vetur. Fengum gott kaffi eftir smá krókaleiðum og það eina sem setja mætti út á voru blessaðir lúðrarnir og þá helst trommurnar sem lamdar voru af krafti allan leikinn. Stuðningsmenn Þórs eru svo öflugir í að syngja og tralla að slíkir aukahlutir eru með öllu óþarfir. Það var sómi af þessum túr austur í kvöld. Megi Þorlákshafnarbúar eiga lið í efstu deild um ókomin ár.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Landsbyggðin
,
Stjarnan
,
Þór Þorlákshöfn
Subscribe to:
Posts (Atom)