Wednesday, November 30, 2011

David Tairu er ekki að spila körfubolta á Íslandi


Synd að KR-ingar hafi þurft að láta David Tairu fara. 

Eins og talsmenn KR sögðu var pilturinn búinn að leggja sig allan fram og það leyndi sér ekkert á vellinum.

Meðaltölin hans í deildinni upp á 21,4 stig, 6,4 fráköst og 18 í framlag voru svo sem ekkert til að skammast sín fyrir.

KR hefði kannski allt eins geta losað sig við Ed Horton yngri, sem missti af nokkrum leikjum í byrjun leiktíðar vegna meiðsla og var skelfilegur í síðasta leik KR gegn Grindavík, þar sem hann komst ekki á blað í stigaskorun.

Öll vitum við þó að haustleikirnir segja ekki alla söguna og það er ekki langt síðan KR var með Kanabakvörð sem virkaði ósköp mannlegur framan af, en fór svo hamförum um vorið og tryggði liðinu Íslandsmeistaratitilinn.

Það er ekki tekið út með sældinni þetta Kanalottó. Nú er KR að leita sér að stórum manni og það er vel. Liðið getur vel notað stóran mann, svo mikið er víst. Brotthvarf Tairu opnar líka vonandi dyrnar fyrir meiri spilatíma fyrir Martin Hermannson og Björn Kristjánsson. Ekkert annað en sómi af því að sjá þessa efnilegu pilta vaxa og takast á við stærri hlutverk.