Thursday, November 24, 2011

Grindavík er að spila hrikalega góðan körfubolta



Stórleikurinn í DHL höllinni í kvöld varð ekki alveg sú skemmtun sem við öll reiknuðum með. Það var engu líkara en KR-ingar hefðu verið á leið í þakkagjörðarkalkún, en verið sagt það á síðustu stundu að þeir þyrftu að spila körfuboltaleik í staðinn.

Öll lið geta átt sína slæmu daga og þetta var einn slíkur hjá KR. Þar með tökum við ekkert af Grindavíkurliðinu. Frábær leikur hjá þeim, ekki síst í vörninni. Menn höfðu sínar efasemdir um Grindavíkurliðið þó það væri taplaust, en þeir gulu svöruðu því með stæl í kvöld. Meistaraefni þar á ferð. Ekkert flóknara.

Ykkur til happs þurfti ritstjórnin að sinna öðrum verkefnum en ljósmyndun á meðan leik stóð og því var alvöru fagmaður á vélinni okkar, hann Daníel Rúnarsson af Fréttablaðinu. Hann náði meðal annars mynd af tröllatroðslu heljarmennisins J´Nathan Bullock, sem tvímælalaust er orðin kandídat í körfuboltamynd ársins. Þetta er svo gaman.