Saturday, November 5, 2011

Ljómandi kvöld í Ljósabekknum




Já, við sáum Stjörnuna gera góða ferð í Ljósabekkinn í Þorlákshöfn í kvöld. Vinna þar 97-86 sigur á Þórsliði sem hefur byrjað vel í deildinni og á eftir að vinna ansi marga leiki á heimavelli í vetur.

Það leyndi sér ekki að Stjörnumönnum þótti mjög vænt um þennan sigur og það var kannski ekki skrítið á miðað við hve illa liðið spilaði þrjá síðustu leikhlutana gegn KR um daginn. Þá var eins og allt færi fjandans til þegar Jovan þurfti að yfirgefa völlinn meiddur. Hann var í hversdagsklæðunum á bekknum í kvöld og verður það amk í einhverja daga í viðbót.



Þetta var prýðilega skemmtilegur leikur eins og búast mátti við. Græni Drekinn er eins og sjötti maðurinn í liði Þórs, en það var nú flott að sjá að nokkrir Garðbæingar höfðu drifið sig með austur og reyndu hvað þeir gátu að hvetja sína menn áfram meðan Drekinn dró andann.

Gaman að sjá Marvin Marvelous Valdimarsson spila vel með Stjörnunni. Hann er í flottu formi pilturinn og er að spila fleiri mínútur en á síðustu leiktíð. Var stigahæsti maður vallarins með 25 í kvöld og ísaði þetta fyrir gestina í lokin. Marvin hefur alltaf vitað hvar karfan er, ekki síst fyrir austan fjall, en hann tók auðvitað að sér nýtt hlutverk þegar hann gekk til liðs við Stjörnuna.

Við heilsuðum aðeins upp á Benedikt Guðmundsson þjálfara Þórs eftir leikinn og tjáðum honum að hann hefði engu logið þegar hann sagði að stemningin í Þorlákshöfn væri einstök. Hann var dálítið leiður yfir því að hans menn hefðu ekki fylgt andrúmsloftinu eftir með sigri, en hann skuldar okkur ekkert í þeim efnum. Það er reglulegur sómi af nýliðum Þórs og þeir eiga eftir að lenda á löppunum í vor.

Það var flott að koma í Þorlákshöfn og þetta verður alveg örugglega ekki síðasti leikurinn sem við sjáum í þessu húsi í vetur. Fengum gott kaffi eftir smá krókaleiðum og það eina sem setja mætti út á voru blessaðir lúðrarnir og þá helst trommurnar sem lamdar voru af krafti allan leikinn. Stuðningsmenn Þórs eru svo öflugir í að syngja og tralla að slíkir aukahlutir eru með öllu óþarfir. Það var sómi af þessum túr austur í kvöld. Megi Þorlákshafnarbúar eiga lið í efstu deild um ókomin ár.