Saturday, November 5, 2011
Nú var það ´Höfnin sem heillaði
Það er að myndast einhver hefð fyrir því að NBA Ísland fari út á land á körfuboltaleiki. Það var kominn tími á það að skella sér í Þorlákshöfn og kynna sér stemninguna umtöluðu hjá Þórsurum.
Fulltrúi Græna Drekans gerði sér lítið fyrir og hringdi í okkur og bauð okkur í sérstaka upphitun að hætti heimamanna. Þetta köllum við fagmannleg vinnubrögð. Þetta er til eftirbreytni.
Við eigum eftir að segja ykkur betur frá þessari skemmtilegu heimsókn fljótlega, en skemmst er frá því að segja að Drekamenn eru höfðingjar heim að sækja. Það er með ólíkindum að jafn lítið pláss og Þorlákshöfn skuli eiga sér svona öflugan hóp harðkjarnastuðningsmanna. Þeir kalla sig öflugustu stuðningsmenn Iceland Express deildarinnar og því er einfaldlega ekki hægt að mótmæla.
Drekamenn eru ekkert að finna upp hjólið og það er margt líkt með Drekanum og Miðjunni góðu í KR, sem reyndar hefur verið lítt áberandi í körfuboltanum upp á síðkastið. Það væri ekkert minna en rosalegt að sjá þessar tvær stuðningssveitir takast á á pöllunum einhvern daginn.
Fólk tekur misvel í fyrirbæri eins og Miðjuna og Græna Drekann. Margir eru viðkvæmir fyrir miklum hávaða og kyndingum sem stundum eru ef til vill á gráu svæði. En það er mjög mikilvægt að svona stuðningsmannasveitir fái að vera til og stunda sína iðju.
Harðlínustuðningsmenn setja ómetanlegan svip á kappleiki, en verða að gæta þess að missa sig ekki. Fjölskyldufólk verður líka að geta farið á leiki með börnin sín, en það má heldur ekki gleyma því að körfuboltaleikir eru vettvangur til að sleppa fram af sér beislinu og hafa hátt. Lifa sig inn í leikinn. Ef fólk þolir ekki smá atgang, verður það bara að vera heima og horfa á Útsvar.
Vonandi eigum við ekki eftir að fá það í bakið að hafa skrifað svona fallega um Græna Drekann. Megi þeir finna hinn gullna meðalveg í látunum í vetur og sem lengst fram á vorið.
Efnisflokkar:
Dólgslæti
,
Heimabrugg
,
Landsbyggðin
,
Stjarnan
,
Þór Þorlákshöfn