Thursday, November 24, 2011

Eðlilegur blaðamannafundur í Ikea


Í hádeginu fór fram fyrsta opinbera afhendingin á NBA Ísland bolunum góðu. Þarna voru þrír stórmeistarar frá Fréttablaðinu og Vísi að leggja sitt af mörkum í góðgerðamálum fyrir jólin. Ekki skemmir fyrir að þeir verða miklu flottari fyrir vikið.

Afhendingin fór fram í Ikea í kjölfar þakkagjörðarmáltíðar sem þar var haldin. Reikna með að það verði árlegur viðburður framvegis. Það var líka vel við hæfi að halda þennan litla blaðamannafund í dag, því menn eru óvinnufærir af spennu fyrir viðureign KR og Grindavíkur í Iceland Express deildinni í kvöld. Þangað mæta allir sem hafa gaman af körfubolta og þeir sem hafa ekki tök á að mæta geta horft á hann í beinni í sjónvarpi Vísis.

Enn er eitthvað eftir af bolum á lagernum og við skorum á ykkur að krækja í eintak fyrir jólin. Eins og við höfum áður sagt fer hver einasta króna sem kemur í kassann af sölu bolanna beint í gott málefni fyrir jólin. Höfum enn ekki ákveðið nákvæmlega hvað við ætlum að gera, en það verða börnin sem njóta góðs af þessu.

Sendu línu á nbaisland@gmail.com ef þig langar í bol.

Nokkrir sem sent hafa inn pöntun eiga eftir að fá afhent, en því verður komið til skila við fyrsta tækifæri.