Thursday, November 15, 2012
Þetta er svo eðlilegt
Menn eins og Andrew Bynum gera alla Photoshop-vinnslu óþarfa.
Það er ekkert gaman að gera ekkert annað en mæta í endurhæfingu, þetta vitum við manna best, en öllu má nú ofgera elsku Bynum.
Efnisflokkar:
Andrew Bynum
,
Dreptu okkur ekki
,
Eðlilegt
,
Hárgreiðslur
Tuesday, November 13, 2012
Ótímabært og tilgangslaust stöðutékk
En á þessum tímum athyglibrests og óþolinmæði er þó ekki hægt annað en að kíkja aðeins á það hvað hefur verið að gerast í deildinni í þessum fyrstu 2-3 vikum. Aldrei hægt að velta sér of mikið upp úr körfubolta - aldrei of seint að móðga einhvern með því að tala með ristlinum um liðið hans.
Svona til að jafna aðeins um vitleysinginn hann Marc Stein, er gaman að geta þess að Vesturdeildin er um það bil 600 sinnum áhugaverðari en Austurdeildin það sem af er í vetur og það mun ekki breytast til vors.
Byrjun New York Knicks er eini alvöru fréttapunkturinn í Austurdeildinn til þessa. Það er með ólíkindum hvað heil stétt manna (íþróttafréttamenn) getur misst sig yfir fjórum körfuboltaleikjum, en það hefur hún gert eftir 4-0 byrjun Knicks.
Þetta eru vissulega fínir sigrar hjá Knicks, m.a. á meisturunum, en við skulum nú samt klára tímabilið áður en við færum New York meistaratitilinn.
Við höfum lofað því að sinni að vera ekkert að velta okkur upp úr stöðu mála hjá Sixers eða Andrew Bynum. Stuðningsmenn Sixers eru viðkvæmir fyrir slíku. Athugið að við óskum liðinu (Evan Turner og mullet-inu hans Spencer Hawes) alls hins besta.
Á hinum endanum á töflunni kemur það kannski einhverjum á óvart að Orlando skuli vera búið að vinna tvö körfuboltaleiki, en það kemur færri á óvart að Washington og Detroit skuli þegar þetta er skrifað vera samanlagt búin að vinna jafnmarga NBA leiki og Súlan frá Stöðvarfirði.
Charlotte er búið að vinna TVO leiki og er hársbreidd frá sæti í úrslitakepninni eins og staðan er í dag. Austurdeildin í hnotskurn.

Vandræðagangurinn á Lakers verið stærsta fréttamálið í Vesturdeildinni og heldur áfram að vera það. Aldrei þessu vant skrum í kring um Lakers, ha?
Þið hafði fengið að fylgjast með því í þremur hlemmum sem við höfum skrifað um þjálfaramál félagsins.
San Antonio byrjar vel og heldur uppteknum hætti frá því í deildakeppninni á síðustu leiktíð. Leikmenn San Antonio vita hvar best er að standa og hvar og hvenær best er að hlaupa á vellinum til að eiga betri möguleika á að setja boltann ofan í körfuna oftar en hitt liðið. Þetta mun ekki breytast neitt í vetur.

Memphis byrjar sömuleiðis vel og er þegar komið með það á afrekastrá sína að drulla yfir meistara Miami. Memphis er reyndar eina liðið í deildinni sem hefur ótvírætt tak á Miami. Þar vegur stór framlína liðsins nokkuð þungt.
Taktu eftir því að Griz hefur bara tapað einum leik.

Fórnarlömb Clippers eru m.a. Lakers, Grizzlies og Spurs. Segir sitt.
Meiðslin hjá Minnesota eru að verða svo mikil að forráðamenn félagsins eru farnir að hringja í Anthony Peeler og biðja hann um að mæta á æfingu.

Anthony "Brúnar" Davis hjá New Orleans og Damian Lillard hjá Portland eru að stimpla sig vel inn í NBA deildina og virðast ekki aðeins ætla að keppast um titilinn Nýliði ársins, heldur sýna okkur að þeir séu alvöru leikmenn.
Anthony Davis á eftir að verða einn besti stóri maðurinn í NBA næstu árin ef hann heldur heilsu. Það er hægt að fullyrða af því það eru nánast hættir að koma fram stórir menn í Bandaríkjunum.

Mál Gordon er alvarlegra. Stefnir ekki í neitt annað en að honum verði sturtað niður í Amnesty-klósettið sem Brandon Roy synti upp úr sælla minninga.
Golden State getur ekki, hefur aldrei getað og mun aldrei geta keypt "breik" sem félag í NBA deildinni. Það kemur því nákvæmlega ekkert á óvart hver meiðslastuðullinn er hjá félaginu í ár.
Fólk var actually að tala um að Golden State yrði hörkulið í ár eins og svo sorglega oft áður, en þetta fólk hefur greinilega ekki opnað sögubók.
Warriors heldur bara uppteknum hætti og tapar leikjum í vetur, en passar að tapa ekki of mörgum svo það þurfi ekki að láta frá sér valréttinn sinni í nýliðavalinu næsta sumar.
Metnaðurinn hjá nýjum eigendum félagsins virðist vera sá sami og var hjá forverum þeirra. Að tapa körfuboltaleikjum og greiða meiddum körfuboltaleikmönnum laun fyrir að spila ekki körfuboltaleiki. Æðislegt alveg. Aumingja stuðningsmenn Warriors, sem eiga þetta svo ekki skilið.
Jæja, til að gera langa sögu stutta, er Vesturdeildin pökkuð í vetur eins og alltaf. Verður hrikalega gaman að fylgjast með henni í vetur.
Hey, þá veistu það.
Efnisflokkar:
Aftanmóðumas og steinsmugustiklur
,
Hatorade
,
Vörutalning
Monday, November 12, 2012
Marc Stein heldur að Knicks sé besta lið allra tíma
Á hverjum mánudegi síðastliðin fjöldamörg ár hefur það verið fastur punktur hjá okkur að lesa Vinsældalista vikunnar í umsjón Marc Stein hjá ESPN.
Þetta er auðvitað skrifað í léttum dúr og er bara til að hafa gaman af því, en oftast eru ágætis rök á bak við það hvernig hann raðar liðunum upp. Yfirleitt þurfa lið að "færa rök" fyrir miklum hástökkum á listanum, sérstaklega þegar kemur að toppsætunum.
Orðið hefur stór breyting á þessu.

Eftir að hafa vermt þriðja sæti listans í síðustu viku, er lið New York Knicks nú í öðru sæti listans. Þetta er mesti þvættingur sem þessi ágæti maður hefur skrifað á annars ágætum ferli sínum hjá ESPN.
Við vitum alveg að þetta er til gamans gert, en þetta er of mikið bull til að við getum horft framhjá því.
Við erum því hætt að lesa Marc Stein.
Heldur þú að Phoenix eða Portland hefði farið í þriðja sæti vinsældalistans ef annað þeirra hefði byrjað 4-0?
Einmitt.
Ekkert fer eins mikið í taugarnar á okkur og New York-blæti NBA-miðla.
Ekkert.
Þetta rant gæti komið einhverjum í fýlu.
Bú - fokkíng - hú
Efnisflokkar:
Dreptu okkur ekki
,
ESPN
,
Frussandi gremja
,
Kjarneðlisfræðingar
,
Knicksblæti
,
Marc Stein
NBA Ísland heldur áfram að pönkast á LA Lakers
Við verðum að viðurkenna að það kom okkur dálítið á óvart að Los Angeles Lakers tæki þá ákvörðun að ráða Mike D´Antoni til að taka við þjálfarastöðunni af Mike Brown.
Það virtist vera nánast klappað og klárt að Phil Jackson fengi sér sæti í sérútbúnu stólunum sínum aftur. Þeir voru þarna á sínum stað í æfingaaðstöðunni hjá Lakers og Mike Brown hefur eflaust þótt æðislega gaman að horfa á stólana í upphafi hverrar æfingar.
Engin pressa...
Nú kemur það í hlut Mike D´Antoni að horfa á stólana hans Jacksons, húsgögn sem minna á nýjasta velgengnitímabil Los Angeles Lakers sem útlit er fyrir að verði ekki leikið eftir í bráð.
Okkur þykir miður að harðorður pistill okkar á dögunum hafi orðið til þess að Mike Brown ræfillinn var rekinn á svona eftirminnilegan hátt, en það er ekkert grín að þjálfa Lakers, hann vissi það alveg sjálfur.
Myndin hérna fyrir neðan var tekin af Brown á kjúklingastað aðeins klukkustundum eftir að hann var látinn fara. Hann brosti sínu breiðasta, enda á hann eftir að fá um það bil einn og hálfan milljarð í laun frá Lakers áður en yfir lýkur.
Þeir öskra hátt núna, þeir fjölmörgu sem settu spurningamerki við ráðningu Mike Brown á sínum tíma. Við vorum í þeim hópi reyndar, en nú fær þessi sami hópur nýtt skotmark til að baula á - Mike D´Antoni.
D´Antoni náði frábærum árangri með Phoenix-hraðalestina með Steve Nash í fararbroddi en gat svo auðvitað ekki neitað sér um það þegar hann fékk tækifæri til að beygja Titanic-skipi þeirra New York manna frá ísjakanum.
Auðvitað tókst það ekki og nú bíður hans annað álíka krefjandi verkefni.
Enginn gerði beinlínis þær kröfur til D´Antoni að hann gerði Knicks að NBA meistara, en hjá Lakers er það titill eða dauði. Hann er með miklu betri mannskap hjá Lakers, en ekki nógu góðan, eins og við höfum tíundað í pistlum hér á síðustu dögum.
Nafnarnir Brown og D´Antoni eru spegilmynd hvor af öðrum.
Brown er flottur varnarþjálfari sem veit ekkert hvað hann er að gera á hinum enda vallarins, það hafa dæmin sýnt. D´Antoni er aftur á móti mjög góður sóknarþjálfari sem aldrei hefur getað fengið liðið sitt til að spila nógu góða vörn til að vinna meistaratitil.
Þetta kann að ljóma neikvæður og harðbrjósta dómur um Mike-ana tvo, en svona er þetta bara svart á hvítu.
Það er allt í lagi að vera krúttlegur þegar maður er að þjálfa Cleveland (Brown) eða Phoenix (D´Antoni) en þegar maður tekur við Lakers með fjóra Heiðurshallarmeðlimi í byrjunarliði, er það einfaldlega titill eða dauði.
Lakers-liðið ætti að vinna fleiri leiki nú þegar D´Antoni er tekinn við, einfaldlega af því hann er með litla generálinn sinn Steve Nash inni á vellinum. Nash veit upp á hár hvað hann á að gera fyrir D´Antoni og ef einhver maður í deildinni getur látið Lakers smella með því að spila jazz, er það Steve Nash.
D´Antoni er fullfær um að búa til Showtime á ný í Los Angeles, það er bara ansi fátt sem bendir til þess að liðið nái að sýna þá takta alveg fram í júní. Til þess eru aðalpersónur of gamlar, vörnin of slök og breiddin of lítil.
Fari svo að Lakers reki þetta allt ofan í okkur - og því ætti það ekki að vera hægt með þennan mannskap - tökum við því auðvitað fagnandi. Dæmin bara sýna að það verður hrikalega erfitt fyrir Lakers að fara alla leið með þeim mannskap sem fyrir er.
Einn góður maður sem við heyrðum í í dag hitti naglann svo skemmtilega á höfuðið:
"Ég hefði orðið dálítið smeykur við Lakers ef Phil Jackson hefði tekið við liðinu, en ég er bara ekkert hræddur við Lakers undir stjórn Mike D´Antoni."
Það er samt ekki þjálfarastaðan sem er vandamálið hjá Lakers. Það eru forráðamenn liðsins sem eru að gera í buxurnar. Uppbygging liðsins hefur ekki verið hugsuð til enda og því er erfitt að sjá hvernig Lakers á að haldast í fremstu röð á næstu árum.
Það er vinsælt að kenna auknum umsvifum Jim Buss, sonar eigandans Jerry Buss, um það sem hefur farið úrskeiðis hjá Lakers að undanförnu. Við ætlum ekki að þykjast hafa vit á þeim málum, en ljóst er að félagið hefur ekki haldið alveg nógu þétt á spöðunum að undanförnu.
Þessar miklu hræringar á Los Angeles Lakers haustið 2012 valda að okkar mati engum straumhvörfum í valdajafnvæginu í NBA deildinni.
Það eina sem þær gera er að gera sterkt en takmarkað lið Lakers skemmtilegra og þó það ætti auðvitað að selja fleiri miða og vera tryggara hinni gömlu og góðu showtime-stefnu félagsins, verður það ekki til að auka líkurnar á því að Kobe Bryant jafni Michael Jordan í titlafjölda.
Sumir halda eflaust að við séum að blanda heldur sterkt Hatorade handa Lakers með þessum endalausu bölsýnipistlum okkar, en svona sjáum við þetta bara.
Það yrði okkur sannur heiður að fá tætlurnar úr þessari spá í andlitið í sumar ef svo fer.
Ekkert mál.
Efnisflokkar:
Lakers
,
Mike D´Antoni
,
Phil Jackson
,
Þjálfaramál
Friday, November 9, 2012
DeAndre Jordan vill verða betri í körfubolta
Við verðum að viðurkenna að við höfðum ekki lesið mikið um að DeAndre Jordan hefði verið í gymminu í allt sumar, en satt best að segja ber ekki á öðru.
Á síðustu leiktíð skoraði Jordan einu sinni 19 stig og tvisvar 18. Það sem af er þessari leiktíð sem er nýhafin eins og allir vita, hefur hann nú skorað 20 stig í tveimur leikjum í röð.
Þjálfarinn er meira að segja farinn að kalla eitt og eitt kerfi fyrir hann og það leynir sér ekki að hann hefur verið mjög duglegur í sumar.
Látum liggja milli hluta að eldflaugaverkfræðingurinn Shaquille O´Neal hafi kallað hann besta miðherjann í Vesturdeildinni á TNT í nótt.
Jordan skrifaði á síðustu leiktíð undir risavaxinn samning við LA Clippers, en það var samningur sem Golden State bauð honum upphaflega en Clippers ákvað að jafna.
Svona eru stóru mennirnir enn dýrir í NBA deildinni þó flestir þeirra geti ekki neitt. Jordan hefði auðveldlega getað lagst upp í sófa með Risahraun og flotið á stóra samningnum sínum, en hann hefur gert eitthvaðbetra.
Það er gaman að sjá raunverulegar framfarir hjá DeAndre. Það var neyðarlegt að sjá hann nánast negldan við varamannabekkinn í úrslitakeppninni í fyrra.
Fyrir utan þá staðreynd að hann var alltaf í villuvandræðum og spilaði illa, gat þjálfarinn ekki teflt honum fram af ótta við að brotið yrði á honum. Jordan er eins og þið vitið kannski ein versta vítaskytta í sögu NBA með innan við 44% nýtingu á ferlinum. Það kom því í hlut Reggie Evans að spila bróðurpartinn af mínútunum hans í úrslitakeppninni og það virðist drengurinn hafa tekið til sín. Blassunarlega.
Við vonum að þetta sé ekki bara einhver blaðra og Jordan sé raunverulega að bæta sig. Clippersliðið lítur út fyrir að vera besta lið Vesturdeildarinnar í dag og þó það sé búið að tapa fáránlegum leikjum (heima gegn Cleveland og Golden State) hefur það líka unnið mjög sannfærandi sigra á San Antonio, Memphis og Lakers.
Bætum kannski Portland-sigrinum í nótt við, því við þurfum ekki marga putta til að telja útisigra Clippers á Portland á liðnum árum.
Það er sannarlega bjart framundan hjá Clippers. Allir að spila vel nema fituhlunkurinn hann Lamar Odom og liðið á enn inni Grant Hill og Chauncey Billups. Hugsið ykkur bara.
Efnisflokkar:
Clippers
,
Dauði miðherjans
,
DeAndre Jordan
,
Framfarir
Manstu eftir þessu?
Við vorum búin að gleyma þessu. Kannski sem betur fer fyrir Toronto Raptors, en við höfum reyndar ekki skrifað neitt um það ágæta lið, svo það skiptir kannski ekki máli.
Jú, þetta myndbrot hérna fyrir neðan sýnir Jeremy Lin tryggja New York Knicks sigur á Toronto með flautukörfu á síðustu leiktíð. Allt ætlar um koll að keyra í húsinu. Áhorfendur rísa úr sætum og öskra og klappa. Allt vitlaust í kofanum.
Í Toronto!
Heimamenn töpuðu!
Lin-ævintýrið var vissulega krúttlegt og vissulega var hafði Toronto ekki að nokkrum sköpuðum hlut að keppa frekar en venjulega.
Samt.
Hver haldið þið að vilji spila fyrir svona rækjusamlokur?
Þetta er hneyksli.
Efnisflokkar:
Fret úr fortíðinni
,
Frussandi gremja
,
Hroðbjóður
,
Lin-vélin
,
Rækjusamlokur
,
Raptors
,
Viðvaningsháttur
Shaquille O´Neal er að eyðileggja Inside the NBA
Inside the NBA er margverðlaunaður þáttur á TNT sjónvarpsstöðinni í umsjón Ernie Johnson. Þeir Charles Barkley og Kenny Smith hafa verið meðreiðarsveinar Johnson í nokkuð mörg ár og svo hafa hinir og þessir gestir dottið í heimsókn.
Fyrir síðustu leiktíð var Shaquille O´Neal bætt í settið og héldu þá flestir að langbesti körfuboltaþátturinn í sjónvarpi yrði enn betri. Sú varð hreint ekki raunin. O´Neal hefur valdið gríðarlegum vonbrigðum. Hann hefur lítið að segja og það sem hann segir er oft tóm vitleysa og svo misnotar hann aðstöðu sína til að drulla yfir leikmenn sem hann var að keppa við nokkrum mánuðum áður. Svo hjálpar það honum ekki að það skilur enginn hvað hann er að segja þegar hann muldrar ofan í bringuna á sér.
Gott dæmi um bullið í O´Neal var í nótt þegar Clippers var að drulla yfir Portland í síðari leiknum á TNT. Þar fékk Shaquille O´Neal þá snilldar hugmynd að kalla DeAndre Jordan besta miðherjann í Vesturdeildinni af því hann æfði sig í sumar.
"I’m going on the record. Best center in the West right now is DeAndre Jordan. You heard it here first."
Það er rétt að Jordan hefur bætt sig og það nokkuð mikið. Það var raunar gaman að sjá þessar hreyfingar frá honum. En að kalla hann besta miðherjann í Vesturdeildinni - þar sem til dæmis Dwight Howard og Marc Gasol spila - er algjörlega út í hött.
Við skiljum alveg að O´Neal þoli ekki Dwight Howard, en þetta er bara asnalegt. Ófagmannlegt og asnalegt. Það er með ólíkindum að maðurinn skuli halda vinnunni þegar hann er að bjóða upp á svona skít. Þetta er ekkert annað en skítur.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir að Shaq dragi besta körfuboltaþátt í heimi ofan í svaðið er að reka hann á staðnum og ráða Chris Webber inn í staðinn. Webber hefur oft droppað inn í Inside og hefur allt sem til þarf. Góðan talanda, hressleika, þekkingu og reynslu úr sjónvarpi.
Út með Shaq - Inn með Webber - Málið dautt!
Efnisflokkar:
Chris Webber
,
Dreptu okkur ekki
,
Frussandi gremja
,
Inside the NBA
,
Shaquille O´Neal
,
Viðvaningsháttur
Ristill: Staðan er slæm hjá LA Lakers
Los Angeles Lakers tapaði fyrir Utah Jazz í nótt sem leið og hefur því tapað fjórum af fyrstu fimm leikjum sínum í vetur. Eini sigur liðsins kom gegn Detroit, sem þessa dagana ætti fullt í fangið með að vinna Mostra.
Meiðsli Steve Nash er sannarlega ekki að hjálpa Lakers-liðinu að stilla saman nýja strengi, en vandamálið sem liðið stendur frammi fyrir er svo miklu stærra en það. Við höfum skrifað ristil af minna tilefni.

Við viljum meina að vandræði Lakers séu fleiri og meiri en þetta. Auðvitað á þetta eftir að ganga betur hjá Lakers þegar Nash kemur heill inn í þetta og menn fara að þekkjast betur.
Það breytir því þó ekki að:
* Vanarleikur liðsins er afleitur. Dwight Howard átti að breyta miklu þar og gæti átt eftir að gera það einn daginn, en varnarleikur liðsins fram að þessu hefur á körflum verið skelfilegur.
* Helsta ástæðan fyrir töpunum fjórum hjá Lakers til þessa hefur verið tapaðir boltar, en Lakers hefur tapað hvorki meira né minna en 93 boltum. Það er næstversti árangur í deildinni og þar af eru Kobe Bryant (22) og Dwight Howard (19) með hátt í helminginn (41). Þetta er annað atriði sem ætti að lagast þegar menn fara að þekkjast betur en þetta er allt, allt of mikið.
* Dýptin í liðinu er engin.
* Kobe Bryant er kominn í fýlu. Hann var afleitur í fyrri hálfleiknum gegn Jazz í gær, en ákvað að skjóta Lakers inn í leikinn í þeim síðari. Hann setti nokkrar huggulegar körfur eins og hann er vanur og þurfti ekki annað en depla auganu til að brotið væri áhonum.
En menn sem fylgdust með leiknum, sóru fyrir það að Bryant hafi ekki gefið eina sendingu síðustu c.a. 7 mínútur leiksins. Ekki eina.

Nú erum við komin út fyrir efnið, en vandræði Lakers eru raunveruleg.
Mike Brown getur ekki unnið með þessu sýstemi og fer rangt að hlutunum að okkar mati. Af hverju? Af því hann notar ekki hættulegasta sóknarmanninn í liðinu og er bara með tvö plön í gangi. Annað hvort lætur hann dæla boltanum stanslaust inn á Dwight Howard eða lætur Kobe Bryant skjóta sig í hel.
Allt of oft er Dwight Howard að fá boltann á vinstri blokkinni og hnoðast. Hann er takmarkaður sóknarmaður sem í besta falli fær villu og klúðrar báðum vítaskotunum.
Planið með Kobe Bryant höfum við öll séð. Þá fær hann einfaldlega græna ljósið á að gera eitthvað sem hann ræður bara ekki við nema í skömmtum lengur og þá er niðurstaðan því miður oftast svipuð og hún var í Energy Solutions Arena í gærkvöldi.
Hér er okkar kenning:
Pau Gasol er lykilmaður í liði Lakers að okkar mati, en Mike Brown notar hann eins og hvern annan kraftframherja og lætur því hæfileika hans fara til spillis. Pau Gasol er að okkar mati hæfileikaríkasti stóri maðurinn í NBA deildinni, alveg sama hvað hver segir um Dwight Howard, Andrew Bynum eða Ómar Ragnarsson.
Sóknarleikurinn hjá Lakers á að fara í gegn um Pau Gasol að okkar mati. Hann er eitraður nálægt körfunni og er frábær sendingamaður og óeigingjarn. Að okkar mati er Lakers-liðið langhættulegast þegar sóknin gengur í gegn um Spánverjann. Það má svo hver sem vill hafa allt aðrar skoðanir á því.

Lakers-liðið hefur ENGA breidd. Einn af göllunum við að vera með eitt besta byrjunarlið sögunnar á pappírunum.
En það er erfitt að gera rósir með engan bekk eins og Lakers. Maðurinn sem átti að vera aðalnúmerið á bekknum hjá þeim, Antawn Jamison, getur ekki neitt og virðist búinn.
Á bara eftir að staðfesta andlátið.
Við hefðum ekkert á móti því þó lið Lakers næði að rétta úr kútnum og verði sterkt á ný. Við erum ekki að drekka neitt Hatorade hérna. Líkurnar á því að liðið verði gott eru meiri en minni. Eins og staðan er í dag erum við hinsvegar alls ekki að sjá að þetta dæmi muni ganga upp hjá þeim.
Þetta lið er ekki að fara að gera nokkurn skapaðan hlut í vor ef það ætlar að láta Kobe Bryant, Steve Nash og Pau Gasol spila 40 mínútur í leik, ef þeir verða þá heilir í vor. Og kannski þolir bakið á Howard það ekki heldur.
Ekkert lið í sögunni hefur orðið NBA meistari eftir að hafa byrjað leiktíðina 1-4 eins og Lakers núna. Við ætlum að tippa á að Lakers verði ekki fyrsta liðið til að afreka það, jafnvel þó það bæti sig til muna í vetur.

Það kemur sér vel fyrir Lakers að næstu fimm leikir liðsins eru á heimavelli. Tveir fyrstu mjög vinnanlegir og svo slagur við San Antonio. Mike Brown þjálfari getur þakkað fyrir að þessi heimaleikjarispa er fram undan því Lakers er ekki í neinu standi til að fara á erfiða útivelli og vinna. Það sáum við í gær.
Það væri asnalegt ef Lakers myndi bara reka Mike Brown, en þrátt fyrir að stjórnin verði auðvitað að sýna honum þolinmæði, er óvíst að hann fái að tapa fullt af leikjum í haust. Það er einu sinni verið að berjast um sigur í Vesturdeildinni og sem stendur er liðið þar í neðsta sæti.
Allra augu beinast að Lakers þessa dagana og lið eins og Oklahoma og Miami elska hvað það dregur athyglina frá þeim. Sviðsljósið verður sterkara á Lakers en nokkru sinni fyrr meðan liðinu gegnur svona illa og það er stutt í að Los Angeles-miðlarnir fari að fá blóðbragð í munninn og tala illa um Mike Brown. Þannig er þetta bara í LA.
Og þá erum við ekki farin að tala um framtíðina hjá Lakers, þar sem risasamningur Kobe Bryant er efsta atriði á blaði. Skoðum það síðar.
Efnisflokkar:
Álag
,
Dwight Howard
,
Kobe Bryant
,
Lakers
,
Mike Brown
,
Pau Gasol
,
Ristill
,
Skoðanir
,
Þjálfaramál
Thursday, November 8, 2012
Memo er hættur
Mehmet Okur hefur tilkynnt að hann sé hættur að leika körfuknattleik í atvinnuskini.
Ferli hans lauk formlega í dag, en segja má að honum hafi lokið í apríl árið 2010 þegar hann sleit hásin í leik með Utah Jazz í úrslitakeppninni gegn Denver.
Okur gekk alltaf undir nafninu Memo eða Money man í Utah, þar sem hann lék lengst af ferlinum eftir að hafa orðið meistari með Detroit Pistons árið 2004. Hann vann fyrir þessu gælunafni og meira en það með ófáum stórum þristunum í lok leikja.
Okur er líklega einn minnsti íþróttamaður sem spilað hefur stjörnuleik í NBA deildinni en þann heiður hlaut hann árið 2007 þegar hann um 19 stig og hirti 8 fráköst í leik með Jazz. Allt þetta þó hann gæti ekki stokkið yfir skattframtal.
Hann var vel liðinn af öllum liðsfélögum sínum og lykilmaður í liði Jazz sem var reyndar hörkulið á þessum árum sem hann spilaði með því.
Nú er kominn annar Tyrki í lið Utah. Hann er af allt öðrum skóla og hefur allt aðra hæfileika, en hann á líklega aldrei eftir að fara í skó landa síns.
Efnisflokkar:
Jazz
,
Skórnir á hilluna
Monday, November 5, 2012
6-6-6 fyrir Zaza
Georgíumaðurinn geðþekki Zaza Pachulia býr yfir sjaldgæfum hæfileika sem getur komið sér vel fyrir atvinnumann í körfubolta. Hann á auðvelt með að æsa fólk upp á móti sér.
Zaza er búinn að vera hjá Atlanta Hawks í nokkur ár og nær alltaf að koma á minnst einum áflogum í hverri seríu í úrslitakeppninni. Á meðal annars að baki rimmur við Kevin Garnett og Jason Richardson, sem eru reyndar ósköp saklausar og eðlilegur partur af úrslitakeppninni þó aganefndir einræðisherrans David Stern telji þær eflaust dauðasök.
Getur ekki hver sem er borið nafnið Zaza og Pachulia gerir það bara fjandi vel. Urðum bara að minnast á þetta af því hann var með 6-6-6 leik í nótt. Sex stig, sex fráköst og sex stoðsendingar.
Mjög metal hjá Georgíumanninum með tyrkneska vegabréfið.
Efnisflokkar:
Áður en Þjóðverjarnir koma
,
Dólgslæti
,
Raunir hvíta mannsins
,
Rólegur
,
Stilltu þig gæðingur
,
Zaza Pachulia
Frank var sá fyrsti
Okkur varð hugsað til Lawrence Frank, þjálfara Detroit Pistons, þegar við horfðum með öðru auganu á viðureign LA Lakers og Detroit sem var lokaleikurinn á Vampíruvaktinni í nótt.
Hinn smávaxni Frank hóf þjálfarastörf í NBA um aldamótin og var fyrst aðstoðarmaður hjá Grizzlies og síðar hjá Nets. Hann var tímabundið gerður að aðalþjálfara Nets í janúar árið 2004 þegar Byron Scott var látinn fara og vann liðið þrettán fyrstu leikina undir hans stjórn. Það er besta byrjun þjálfara í sögu Bandaríkjanna, hvort sem um er að ræða körfubolta, hafnabolta, ruðning eða hokkí.
Önnur og ljótari rispa varð svo til þess að Frank missti starfið sitt hjá Nets, en hann var látinn taka poka sinn í lok nóvember árið 2009 eftir að liðið tapaði fyrstu 16 leikjum sínum í deildinni það haustið.
Frank er líka eini þjálfarinn í sögunni sem hefur unnið 10+ leiki í röð þegar hann tók við og tapað 10+ þegar hann var rekinn frá sama félagi. Skrautlegt og skemmtilegt.
Frank er nú að reyna að sanna sig á ný hjá Detroit og er svo sem ekki öfundaður af því. Hann átti ágætis ár hjá New Jersey og fer það orð af honum að hann sé einn af efnilegri þjálfurum deildarinnar af yngri kynslóðinni.
Reyndar er eina ástæðan fyrir því að við erum að velta okkur upp úr þessu sú, að fréttin um brottrekstur Frank þarna árið 2009 var fyrsta málið sem tekið var fyrir á þessari síðu.
Við vorum búin að vera að skrifa í nokkur ár þegar þarna var komið við sögu, en það var Lawrence Frank sem hlaut þann heiður að verða fyrsti maðurinn sem var Photoshoppaður á NBA Ísland eins og við þekkjum það í dag.
Síðan hefur hver vitleysan rekið aðra og ekkert lát á því...
Efnisflokkar:
Fret úr fortíðinni
,
Lawrence Frank
,
Nets
,
Nostalgía
,
Sjoppan
,
Sögubækur
Barnaskapur og leiðindi
Við elskum Gregg Popovich eins og þið vitið. Uppnefndum hann besta þjálfara deildarinnar síðast í gærkvöldi. Hann er grjótharður og af gamla skólanum og við fílum það.
Hann verður samt að fara að laga hjá sér framkomuna í viðtölum þegar hann er í beinni útsendingu í sjónvarpi. Það er allt í lagi að snúa út úr spurningum annað slagið, sérstaklega ef þær eru mjög heimskulegar, en það er eins og Pop sé farinn að gera í því að vera með leiðindi.
Knattspyrnuþjálfarinn Þorvaldur Örlygsson hefur átt það til að vera með svona stæla í viðtölum hér heima á klakanum. Þetta getur verið fyndið annað slagið, en að láta svona í nær öllum viðtölum er bara lélegur karakter og barnaskapur sem er engum til ábóta.
Efnisflokkar:
Dólgslæti
,
Dreptu okkur ekki
,
Gregg Popovich
,
Hroki og hleypidómar
Sunday, November 4, 2012
Fastir liðir í Texas
Himininn er blár, vatn er blautt og San Antonio vinnur körfuboltaleiki. Þetta er heilagur sannleikur.
Lið Spurs var orðið gamalt fyrir fimm árum síðan en einhvern veginn heldur það alltaf áfram að vinna og vinna. Í sumar beindist athygli flestra í NBA að Los Angeles Lakers og þannig vilja þeir hafa þetta hjá Spurs. Forðast að vera í sviðsljósinu og þegar upp er staðið á vorin, situr liðið í toppsætinu.
Það er útlit fyrir að engin breyting verði á þessu. Manu Ginobili er að kljást við meiðsli eins og venjulega en að öðru leyti er sæmileg staða á mannskapnum. Það er mál manna að Tim Duncan sé sprækari en hann hafi verið í mörg ár, laus við megnið af meiðslunum sem hægt hafa á honum undanfarin misseri (miss-u-reah).
Við erum búin að ganga þessa götu svo oft en San Antonio fær okkur alltaf til að labba hana á ný. Það eru ágætis líkur á að Spurs verði með besta árangurinn í Vesturdeildinni enn eitt árið. Því ekki það?

Það eru ekkert rosalega margar vikur síðan San Antonio var að spila betur en nokkurt annað lið, en svo fékk það á lúðurinn frá Oklahoma eins og þið munið.
Við erum alltaf að spá því að nú sé Spursliðið orðið of gamalt til að vinna 60 leiki en það virðist bara ekkert vera á stefnuskránni hjá þessum gaurum að eldast.
San Antonio er með rútíneraðasta kjarna í deildinni og besta þjálfarann til að stýra skútunni. Reyndar gætu þeir allir tekið tússtöfluna þeir Duncan, Parker og Ginobili.
Já, allir tala um Lakers og nú síðast Oklahoma City eftir Harden-málið. Nokkrir pískra líka Clippers og Memphis og jafnvel Denver, þrátt fyrir slaka byrjun þar á bæ. Þetta eru meira spennandi lið, vissulega, en ekkert þeirra kann íþróttina betur en San Antonio.
Við lýstum því yfir fyrir c.a. 2-3 árum að San Antonio yrði ekki meistari aftur með þennan mannskap en okkur er alveg sama þó sú spá springi í andlitið á okkur. Við skulum nú samt klára að spila deildakeppnina áður en við förum að spá í úrslitakeppni aftur.
San Antonio er um það bil á pari við Oklahoma City og þessi lið ættu að verða í sérflokki í töflunni vestan megin í vetur, ekki ósvipað og síðast.
Efnisflokkar:
Sigurvegarar
,
Spurs
Saturday, November 3, 2012
Nóvember á NBATV
Við biðjumst velvirðingar á því hvað við vorum lengi að drulla nóvemberdagskránni inn á síðuna, en það er nú loksins komið. Í nótt verður leikur San Antonio Spurs og Utah Jazz í beinni klukkan hálf eitt.
Rétt er að benda á að á morgun fer Kaninn yfir á vetrartíma og þá hefjast 8:00 pm leikir ytra klukkan eitt að nóttu á íslenskum tíma en ekki á miðnætti eins og verið hefur undanfarið.
Þú getur séð lista yfir beinar útsendingar NBATV með því að smella á hnappinn "Leikir í beinni" efst hér á síðunni (undir hausnum), nú eða með því að vista myndina hérna fyrir neðan, prenta hana út og geyma hana í veskinu þínu.
Lakers gengur illa að vinna körfuboltaleiki
Það er of snemmt að fara að hakka Lakersliðið í sig þó það hafi tapað þriðja leiknum í röð í upphafi leiktíðar, nú síðast fyrir grönnum sínum í Clippers.
Þessi 0-3 byrjun liðsins er sú versta síðan árið áður en Magic Johnson kom til sögunnar og auðvitað gretta menn sig yfir svona byrjun - þetta er Los Angeles Lakers - við erum ekki að tala um Súluna á Stöðvarfirði.

Við, sem höfum mjög takmarkað vit á körfubolta, settum strax spurningamerki við þá ákvörðun Lakers að bæta við sig sóknarþjálfara og spila með þessum hætti.
Og þá erum við ekki farin að tala um þá staðreynd að bikarhillurnar hans Eddie Jordan eru nú ekki beint fullar, þó hugmyndafræðin sé góð og gild.
Sjálfsagt hefur það sína kosti fyrir Lakers að spila þennan sóknarleik, en þó ætti liðið jafnvel að vera eitt af þeim síðustu í deildinni til að reyna hann með jafn boltafreka bakverði og raun ber vitni.
Steve Nash, sem verður frá í nokkra daga vegna meiðsla, átti erfitt með sig í nótt þegar ESPN spurði hann hvort hann væri ekki frekar til í að stýra bara sóknarleiknum sjálfur líkt og hann gerði í Phoenix. "Ertu að reyna að koma mér í vandræði?" spurði hann Chris Broussard og glotti við tönn.
Auðvitað vill Nash prófa að djassa þetta aðeins upp ef illa gengur. Ekki eins og hann hafi farið fyrir mörgum lotterýliðum á ferlinum. Hefur nánast einn síns liðs haldið sóknarleik Phoenix á floti í nokkur ár.

Varnarleikurinn hefur á tíðum verið ömurlegur líka og jafnvel fleiri eru að tuða yfir honum.
Ekki að sjá að margfaldur varnarmaður ársins standi þarna inni í miðjunni og telji mönnum hughvarf með allar ferðaáætlanir sínar í teiginn.
Annað atriði sem hátt er orðið talað um er aldurinn og ástandið á lykilleikmönnum Lakers. Þeir eru á suman hátt dálítið gamlir og seinir og andstæðingarnir eiga eftir að nýta sér það með því að keyra á þá með aukinni grimmd og hraða.
Þetta er svona það helsta sem við erum að hugsa um Lakers. Við ætlum ekkert að ýta á neina neyðarhnappa. Þessar breytingar hja Lakers virðast bara ætla að taka mun lengri tíma en okkur grunaði. Engin ástæða til að fara í panikk, en Mike Brown þarf samt að fara að vinna körfuboltaleiki fljótlega.
Annars verður ástandið bara átakanlegt og þá gæti Buss-fjölskyldan hreinlega neyðst til að gera eitthvað róttækt í málunum. Hann áttar sig alveg á því.
En sjáum nú til. Þetta hlýtur að fara að lagast hjá þeim.
Efnisflokkar:
Áður en Þjóðverjarnir koma
,
Lakers
,
Mike Brown
,
Taphrinur
Krúttlegar Eldflaugar

Ekkert víst að sé að marka hana reyndar, en stuðningsmenn Rockets hljóta að vera spenntir.
"Harden á ekki eftir að skora 37 stig aftur" hefur einhver líklega sagt eftir fyrsta leikinn.
Það reyndist rétt, því hann spilaði einn sinn besta leik á ferlinum í nótt þegar hann skoraði 45 stig í sigri Houston á Atlanta Hawks. 45 stig úr aðeins 19 skotum utan af velli.

Harden fékk auðvitað alla athyglina, en Omer Asik hirti líka 19 fráköst í miðjunni og skoraði ekki eitt einasta stig, sem er harla undarlegt þar sem hann hirti jú 10 sóknarfráköst.
Þetta var í ellefta sinn frá upphafi þess háttar mælinga (1985) sem leikmaður í NBA hirðir svona mörg fráköst án þess að skora stig.
Dennis Rodman á sjö af þessum ellefu leikjum og afrekaði mest að hirða 28 fráköst í leik og vera stigalaus.
Jeremy Lin, sem blessunarlega fyrir hann er kominn í skuggann af skruminu eftir komu Harden, bauð upp á ljúfa 21/10/7 línu eins og ekkert hefði í skorist.
Við ætlum ekki að fara að hoppa upp á Houston-vagninn alveg strax, enda er nóg af vögnum þarna úti. Það er bara gaman þegar vel gengur.
Hérna fyrir ofan sérðu einstaklega fallegt skotkort Harden úr leiknum gegn Atlanta í nótt og neðst er tölfræðiskýrsla Rockets með sérstakri áherslu á bakvarðaparið Lin og Harden (smelltu til að stækka).
Efnisflokkar:
James Harden
,
Lin-vélin
,
Rockets
Friday, November 2, 2012
Subscribe to:
Posts (Atom)