En á þessum tímum athyglibrests og óþolinmæði er þó ekki hægt annað en að kíkja aðeins á það hvað hefur verið að gerast í deildinni í þessum fyrstu 2-3 vikum. Aldrei hægt að velta sér of mikið upp úr körfubolta - aldrei of seint að móðga einhvern með því að tala með ristlinum um liðið hans.
Svona til að jafna aðeins um vitleysinginn hann Marc Stein, er gaman að geta þess að Vesturdeildin er um það bil 600 sinnum áhugaverðari en Austurdeildin það sem af er í vetur og það mun ekki breytast til vors.
Byrjun New York Knicks er eini alvöru fréttapunkturinn í Austurdeildinn til þessa. Það er með ólíkindum hvað heil stétt manna (íþróttafréttamenn) getur misst sig yfir fjórum körfuboltaleikjum, en það hefur hún gert eftir 4-0 byrjun Knicks.
Þetta eru vissulega fínir sigrar hjá Knicks, m.a. á meisturunum, en við skulum nú samt klára tímabilið áður en við færum New York meistaratitilinn.
Við höfum lofað því að sinni að vera ekkert að velta okkur upp úr stöðu mála hjá Sixers eða Andrew Bynum. Stuðningsmenn Sixers eru viðkvæmir fyrir slíku. Athugið að við óskum liðinu (Evan Turner og mullet-inu hans Spencer Hawes) alls hins besta.
Á hinum endanum á töflunni kemur það kannski einhverjum á óvart að Orlando skuli vera búið að vinna tvö körfuboltaleiki, en það kemur færri á óvart að Washington og Detroit skuli þegar þetta er skrifað vera samanlagt búin að vinna jafnmarga NBA leiki og Súlan frá Stöðvarfirði.
Charlotte er búið að vinna TVO leiki og er hársbreidd frá sæti í úrslitakepninni eins og staðan er í dag. Austurdeildin í hnotskurn.
Hættum þessu rausi og drífum okkur í Vesturdeildina. Þar er miklu skemmtilegra að vera.
Vandræðagangurinn á Lakers verið stærsta fréttamálið í Vesturdeildinni og heldur áfram að vera það. Aldrei þessu vant skrum í kring um Lakers, ha?
Þið hafði fengið að fylgjast með því í þremur hlemmum sem við höfum skrifað um þjálfaramál félagsins.
San Antonio byrjar vel og heldur uppteknum hætti frá því í deildakeppninni á síðustu leiktíð. Leikmenn San Antonio vita hvar best er að standa og hvar og hvenær best er að hlaupa á vellinum til að eiga betri möguleika á að setja boltann ofan í körfuna oftar en hitt liðið. Þetta mun ekki breytast neitt í vetur.
Taktu eftir því að Spurs hefur bara tapað einum leik.
Memphis byrjar sömuleiðis vel og er þegar komið með það á afrekastrá sína að drulla yfir meistara Miami. Memphis er reyndar eina liðið í deildinni sem hefur ótvírætt tak á Miami. Þar vegur stór framlína liðsins nokkuð þungt.
Taktu eftir því að Griz hefur bara tapað einum leik.
Þetta eina tap Spurs og Grizzlies kemur gegn LA Clippers. Það er afar vel mannað lið sem þó hefur skemmt fyrir sér með því að gleyma að mæta í heimaleiki gegn Golden State og Cleveland og er því 5-2 í stað 7-0.
Fórnarlömb Clippers eru m.a. Lakers, Grizzlies og Spurs. Segir sitt.
Meiðslin hjá Minnesota eru að verða svo mikil að forráðamenn félagsins eru farnir að hringja í Anthony Peeler og biðja hann um að mæta á æfingu.
Það breytir því ekki að liðið er 5-2 þegar þetta er skrifað, sem er líklega eftirtektarverðasti árangur deildarinnar hér í byrjun. Rússarnir eru að smella dásamlega inn í þetta og Rick Adelman á skilið að fá Óskarstilnefningu fyrir leikstjórn nú þegar.
Anthony "Brúnar" Davis hjá New Orleans og Damian Lillard hjá Portland eru að stimpla sig vel inn í NBA deildina og virðast ekki aðeins ætla að keppast um titilinn Nýliði ársins, heldur sýna okkur að þeir séu alvöru leikmenn.
Anthony Davis á eftir að verða einn besti stóri maðurinn í NBA næstu árin ef hann heldur heilsu. Það er hægt að fullyrða af því það eru nánast hættir að koma fram stórir menn í Bandaríkjunum.
Það er gaman hvað þeir Eric Gordon hjá New Orleans og Andrew Bogut hjá Golden State halda okkur skemmtilega við efnið alltaf. Halda okkur í óvissunni eins og skilnaðarbarni sem bíður eftir jólagjöfinni frá pabba. Þeir eru ekkert að fara að spila á næstunni og virðast bara búnir á því.
Mál Gordon er alvarlegra. Stefnir ekki í neitt annað en að honum verði sturtað niður í Amnesty-klósettið sem Brandon Roy synti upp úr sælla minninga.
Golden State getur ekki, hefur aldrei getað og mun aldrei geta keypt "breik" sem félag í NBA deildinni. Það kemur því nákvæmlega ekkert á óvart hver meiðslastuðullinn er hjá félaginu í ár.
Fólk var actually að tala um að Golden State yrði hörkulið í ár eins og svo sorglega oft áður, en þetta fólk hefur greinilega ekki opnað sögubók.
Warriors heldur bara uppteknum hætti og tapar leikjum í vetur, en passar að tapa ekki of mörgum svo það þurfi ekki að láta frá sér valréttinn sinni í nýliðavalinu næsta sumar.
Metnaðurinn hjá nýjum eigendum félagsins virðist vera sá sami og var hjá forverum þeirra. Að tapa körfuboltaleikjum og greiða meiddum körfuboltaleikmönnum laun fyrir að spila ekki körfuboltaleiki. Æðislegt alveg. Aumingja stuðningsmenn Warriors, sem eiga þetta svo ekki skilið.
Jæja, til að gera langa sögu stutta, er Vesturdeildin pökkuð í vetur eins og alltaf. Verður hrikalega gaman að fylgjast með henni í vetur.
Hey, þá veistu það.