Monday, November 12, 2012

NBA Ísland heldur áfram að pönkast á LA Lakers



















Við verðum að viðurkenna að það kom okkur dálítið á óvart að Los Angeles Lakers tæki þá ákvörðun að ráða Mike D´Antoni til að taka við þjálfarastöðunni af Mike Brown.

Það virtist vera nánast klappað og klárt að Phil Jackson fengi sér sæti í sérútbúnu stólunum sínum aftur. Þeir voru þarna á sínum stað í æfingaaðstöðunni hjá Lakers og Mike Brown hefur eflaust þótt æðislega gaman að horfa á stólana í upphafi hverrar æfingar.

Engin pressa...

Nú kemur það í hlut Mike D´Antoni að horfa á stólana hans Jacksons, húsgögn sem minna á nýjasta velgengnitímabil Los Angeles Lakers sem útlit er fyrir að verði ekki leikið eftir í bráð.

Okkur þykir miður að harðorður pistill okkar á dögunum hafi orðið til þess að Mike Brown ræfillinn var rekinn á svona eftirminnilegan hátt, en það er ekkert grín að þjálfa Lakers, hann vissi það alveg sjálfur.

Myndin hérna fyrir neðan var tekin af Brown á kjúklingastað aðeins klukkustundum eftir að hann var látinn fara. Hann brosti sínu breiðasta, enda á hann eftir að fá um það bil einn og hálfan milljarð í laun frá Lakers áður en yfir lýkur.

Þeir öskra hátt núna, þeir fjölmörgu sem settu spurningamerki við ráðningu Mike Brown á sínum tíma. Við vorum í þeim hópi reyndar, en nú fær þessi sami hópur nýtt skotmark til að baula á - Mike D´Antoni.

D´Antoni náði frábærum árangri með Phoenix-hraðalestina með Steve Nash í fararbroddi en gat svo auðvitað ekki neitað sér um það þegar hann fékk tækifæri til að beygja Titanic-skipi þeirra New York manna frá ísjakanum.

Auðvitað tókst það ekki og nú bíður hans annað álíka krefjandi verkefni.

Enginn gerði beinlínis þær kröfur til D´Antoni að hann gerði Knicks að NBA meistara, en hjá Lakers er það titill eða dauði. Hann er með miklu betri mannskap hjá Lakers, en ekki nógu góðan, eins og við höfum tíundað í pistlum hér á síðustu dögum.

Nafnarnir Brown og D´Antoni eru spegilmynd hvor af öðrum.

Brown er flottur varnarþjálfari sem veit ekkert hvað hann er að gera á hinum enda vallarins, það hafa dæmin sýnt. D´Antoni er aftur á móti mjög góður sóknarþjálfari sem aldrei hefur getað fengið liðið sitt til að spila nógu góða vörn til að vinna meistaratitil.

Þetta kann að ljóma neikvæður og harðbrjósta dómur um Mike-ana tvo, en svona er þetta bara svart á hvítu.

Það er allt í lagi að vera krúttlegur þegar maður er að þjálfa Cleveland (Brown) eða Phoenix (D´Antoni) en þegar maður tekur við Lakers með fjóra Heiðurshallarmeðlimi í byrjunarliði, er það einfaldlega titill eða dauði.

Lakers-liðið ætti að vinna fleiri leiki nú þegar D´Antoni er tekinn við, einfaldlega af því hann er með litla generálinn sinn Steve Nash inni á vellinum. Nash veit upp á hár hvað hann á að gera fyrir D´Antoni og ef einhver maður í deildinni getur látið Lakers smella með því að spila jazz, er það Steve Nash.

D´Antoni er fullfær um að búa til Showtime á ný í Los Angeles, það er bara ansi fátt sem bendir til þess að liðið nái að sýna þá takta alveg fram í júní.  Til þess eru aðalpersónur of gamlar, vörnin of slök og breiddin of lítil.

Fari svo að Lakers reki þetta allt ofan í okkur - og því ætti það ekki að vera hægt með þennan mannskap - tökum við því auðvitað fagnandi. Dæmin bara sýna að það verður hrikalega erfitt fyrir Lakers að fara alla leið með þeim mannskap sem fyrir er.

Einn góður maður sem við heyrðum í í dag hitti naglann svo skemmtilega á höfuðið:  

"Ég hefði orðið dálítið smeykur við Lakers ef Phil Jackson hefði tekið við liðinu, en ég er bara ekkert hræddur við Lakers undir stjórn Mike D´Antoni."

Það er samt ekki þjálfarastaðan sem er vandamálið hjá Lakers. Það eru forráðamenn liðsins sem eru að gera í buxurnar. Uppbygging liðsins hefur ekki verið hugsuð til enda og því er erfitt að sjá hvernig Lakers á að haldast í fremstu röð á næstu árum.

Það er vinsælt að kenna auknum umsvifum Jim Buss, sonar eigandans Jerry Buss, um það sem hefur farið úrskeiðis hjá Lakers að undanförnu. Við ætlum ekki að þykjast hafa vit á þeim málum, en ljóst er að félagið hefur ekki haldið alveg nógu þétt á spöðunum að undanförnu.

Þessar miklu hræringar á Los Angeles Lakers haustið 2012 valda að okkar mati engum straumhvörfum í valdajafnvæginu í NBA deildinni.

Það eina sem þær gera er að gera sterkt en takmarkað lið Lakers skemmtilegra og þó það ætti auðvitað að selja fleiri miða og vera tryggara hinni gömlu og góðu showtime-stefnu félagsins, verður það ekki til að auka líkurnar á því að Kobe Bryant jafni Michael Jordan í titlafjölda.

Sumir halda eflaust að við séum að blanda heldur sterkt Hatorade handa Lakers með þessum endalausu bölsýnipistlum okkar, en svona sjáum við þetta bara.

Það yrði okkur sannur heiður að fá tætlurnar úr þessari spá í andlitið í sumar ef svo fer.

Ekkert mál.