Friday, November 9, 2012

DeAndre Jordan vill verða betri í körfubolta


Við verðum að viðurkenna að við höfðum ekki lesið mikið um að DeAndre Jordan hefði verið í gymminu í allt sumar, en satt best að segja ber ekki á öðru.

Á síðustu leiktíð skoraði Jordan einu sinni 19 stig og tvisvar 18. Það sem af er þessari leiktíð sem er nýhafin eins og allir vita, hefur hann nú skorað 20 stig í tveimur leikjum í röð.

Þjálfarinn er meira að segja farinn að kalla eitt og eitt kerfi fyrir hann og það leynir sér ekki að hann hefur verið mjög duglegur í sumar.

Látum liggja milli hluta að eldflaugaverkfræðingurinn Shaquille O´Neal hafi kallað hann besta miðherjann í Vesturdeildinni á TNT í nótt.

Jordan skrifaði á síðustu leiktíð undir risavaxinn samning við LA Clippers, en það var samningur sem Golden State bauð honum upphaflega en Clippers ákvað að jafna.

Svona eru stóru mennirnir enn dýrir í NBA deildinni þó flestir þeirra geti ekki neitt. Jordan hefði auðveldlega getað lagst upp í sófa með Risahraun og flotið á stóra samningnum sínum, en hann hefur gert eitthvaðbetra.

Það er gaman að sjá raunverulegar framfarir hjá DeAndre. Það var neyðarlegt að sjá hann nánast negldan við varamannabekkinn í úrslitakeppninni í fyrra.

Fyrir utan þá staðreynd að hann var alltaf í villuvandræðum og spilaði illa, gat þjálfarinn ekki teflt honum fram af ótta við að brotið yrði á honum. Jordan er eins og þið vitið kannski ein versta vítaskytta í sögu NBA með innan við 44% nýtingu á ferlinum. Það kom því í hlut Reggie Evans að spila bróðurpartinn af mínútunum hans í úrslitakeppninni og það virðist drengurinn hafa tekið til sín. Blassunarlega.

Við vonum að þetta sé ekki bara einhver blaðra og Jordan sé raunverulega að bæta sig. Clippersliðið lítur út fyrir að vera besta lið Vesturdeildarinnar í dag og þó það sé búið að tapa fáránlegum leikjum (heima gegn Cleveland og Golden State) hefur það líka unnið mjög sannfærandi sigra á San Antonio, Memphis og Lakers.

Bætum kannski Portland-sigrinum í nótt við, því við þurfum ekki marga putta til að telja útisigra Clippers á Portland á liðnum árum.

Það er sannarlega bjart framundan hjá Clippers. Allir að spila vel nema fituhlunkurinn hann Lamar Odom og liðið á enn inni Grant Hill og Chauncey Billups. Hugsið ykkur bara.