Monday, November 5, 2012

Frank var sá fyrsti





















Okkur varð hugsað til Lawrence Frank, þjálfara Detroit Pistons, þegar við horfðum með öðru auganu á viðureign LA Lakers og Detroit sem var lokaleikurinn á Vampíruvaktinni í nótt.

Hinn smávaxni Frank hóf þjálfarastörf í NBA um aldamótin  og var fyrst aðstoðarmaður hjá Grizzlies og síðar hjá Nets. Hann var tímabundið gerður að aðalþjálfara Nets í janúar árið 2004 þegar Byron Scott var látinn fara og vann liðið þrettán fyrstu leikina undir hans stjórn. Það er besta byrjun þjálfara í sögu Bandaríkjanna, hvort sem um er að ræða körfubolta, hafnabolta, ruðning eða hokkí.

Önnur og ljótari rispa varð svo til þess að Frank missti starfið sitt hjá Nets, en hann var látinn taka poka sinn í lok nóvember árið 2009 eftir að liðið tapaði fyrstu 16 leikjum sínum í deildinni það haustið.

Frank er líka eini þjálfarinn í sögunni sem hefur unnið 10+ leiki í röð þegar hann tók við og tapað 10+ þegar hann var rekinn frá sama félagi. Skrautlegt og skemmtilegt.

Frank er nú að reyna að sanna sig á ný hjá Detroit og er svo sem ekki öfundaður af því. Hann átti ágætis ár hjá New Jersey og fer það orð af honum að hann sé einn af efnilegri þjálfurum deildarinnar af yngri kynslóðinni.

Reyndar er eina ástæðan fyrir því að við erum að velta okkur upp úr þessu sú, að fréttin um brottrekstur Frank þarna árið 2009 var fyrsta málið sem tekið var fyrir á þessari síðu.

Við vorum búin að vera að skrifa í nokkur ár þegar þarna var komið við sögu, en það var Lawrence Frank sem hlaut þann heiður að verða fyrsti maðurinn sem var Photoshoppaður á NBA Ísland eins og við þekkjum það í dag.

Síðan hefur hver vitleysan rekið aðra og ekkert lát á því...