Friday, November 9, 2012

Ristill: Staðan er slæm hjá LA Lakers


  Los Angeles Lakers tapaði fyrir Utah Jazz í nótt sem leið og hefur því tapað fjórum af fyrstu fimm leikjum sínum í vetur. Eini sigur liðsins kom gegn Detroit, sem þessa dagana ætti fullt í fangið með að vinna Mostra.

Meiðsli Steve Nash er sannarlega ekki að hjálpa Lakers-liðinu að stilla saman nýja strengi, en vandamálið sem liðið stendur frammi fyrir er svo miklu stærra en það. Við höfum skrifað ristil af minna tilefni.

Margir segja að það sé hin meinta Princeton-sókn sem sé að þvælast fyrir Lakers, en liðið var nú að skjóta yfir 50% áður en það fór til Salt Lake City í gær, svo það er ódýr útskýring.

Við viljum meina að vandræði Lakers séu fleiri og meiri en þetta. Auðvitað á þetta eftir að ganga betur hjá Lakers þegar Nash kemur heill inn í þetta og menn fara að þekkjast betur.

Það breytir því þó ekki að:

* Vanarleikur liðsins er afleitur. Dwight Howard átti að breyta miklu þar og gæti átt eftir að gera það einn daginn, en varnarleikur liðsins fram að þessu hefur á körflum verið skelfilegur.

* Helsta ástæðan fyrir töpunum fjórum hjá Lakers til þessa hefur verið tapaðir boltar, en Lakers hefur tapað hvorki meira né minna en 93 boltum. Það er næstversti árangur í deildinni og þar af eru Kobe Bryant (22) og Dwight Howard (19) með hátt í helminginn (41)Þetta er annað atriði sem ætti að lagast þegar menn fara að þekkjast betur en þetta er allt, allt of mikið.

* Dýptin í liðinu er engin.

* Kobe Bryant er kominn í fýlu. Hann var afleitur í fyrri hálfleiknum gegn Jazz í gær, en ákvað að skjóta Lakers inn í leikinn í þeim síðari. Hann setti nokkrar huggulegar körfur eins og hann er vanur og þurfti ekki annað en depla auganu til að brotið væri áhonum.

En menn sem fylgdust með leiknum, sóru fyrir það að Bryant hafi ekki gefið eina sendingu síðustu c.a. 7 mínútur leiksins. Ekki eina.

Hann var enda stuttur í spuna eftir leikinn og svo sem ekkert nýtt við það. Það er ómögulegt að taka viðtal við Bryant eftir tapleiki, sérstaklega ef þeir eru nokkrir á stuttum tíma. Bryant sendi ljót augnaráð í allar áttir meiripartinn af leiknum í gær og hafi einhver tekið þau til sín, hefur sá hinn sami líklega orðið hræddur.

Nú erum við komin út fyrir efnið, en vandræði Lakers eru raunveruleg.

Mike Brown getur ekki unnið með þessu sýstemi og fer rangt að hlutunum að okkar mati. Af hverju? Af því hann notar ekki hættulegasta sóknarmanninn í liðinu og er bara með tvö plön í gangi. Annað hvort lætur hann dæla boltanum stanslaust inn á Dwight Howard eða lætur Kobe Bryant skjóta sig í hel.

Allt of oft er Dwight Howard að fá boltann á vinstri blokkinni og hnoðast. Hann er takmarkaður sóknarmaður sem í besta falli fær villu og klúðrar báðum vítaskotunum.

Planið með Kobe Bryant höfum við öll séð. Þá fær hann einfaldlega græna ljósið á að gera eitthvað sem hann ræður bara ekki við nema í skömmtum lengur og þá er niðurstaðan því miður oftast svipuð og hún var í Energy Solutions Arena í gærkvöldi.

Hér er okkar kenning:

Pau Gasol er lykilmaður í liði Lakers að okkar mati, en Mike Brown notar hann eins og hvern annan kraftframherja og lætur því hæfileika hans fara til spillis. Pau Gasol er að okkar mati hæfileikaríkasti stóri maðurinn í NBA deildinni, alveg sama hvað hver segir um Dwight Howard, Andrew Bynum eða Ómar Ragnarsson.

Sóknarleikurinn hjá Lakers á að fara í gegn um Pau Gasol að okkar mati. Hann er eitraður nálægt körfunni og er frábær sendingamaður og óeigingjarn. Að okkar mati er Lakers-liðið langhættulegast þegar sóknin gengur í gegn um Spánverjann. Það má svo hver sem vill hafa allt aðrar skoðanir á því.

Lausnin við vandamálum Lakers virðist alltaf vera að losa félagið við Pau Gasol. Þvílíkur þvættingur.

Lakers-liðið hefur ENGA breidd. Einn af göllunum við að vera með eitt besta byrjunarlið sögunnar á pappírunum.

En það er erfitt að gera rósir með engan bekk eins og Lakers. Maðurinn sem átti að vera aðalnúmerið á bekknum hjá þeim, Antawn Jamison, getur ekki neitt og virðist búinn.

Á bara eftir að staðfesta andlátið.

Við hefðum ekkert á móti því þó lið Lakers næði að rétta úr kútnum og verði sterkt á ný. Við erum ekki að drekka neitt Hatorade hérna. Líkurnar á því að liðið verði gott eru meiri en minni. Eins og staðan er í dag erum við hinsvegar alls ekki að sjá að þetta dæmi muni ganga upp hjá þeim.

Þetta lið er ekki að fara að gera nokkurn skapaðan hlut í vor ef það ætlar að láta Kobe Bryant, Steve Nash og Pau Gasol spila 40 mínútur í leik, ef þeir verða þá heilir í vor. Og kannski þolir bakið á Howard það ekki heldur.

Ekkert lið í sögunni hefur orðið NBA meistari eftir að hafa byrjað leiktíðina 1-4 eins og Lakers núna. Við ætlum að tippa á að Lakers verði ekki fyrsta liðið til að afreka það, jafnvel þó það bæti sig til muna í vetur.

Þetta eru bara fimm leikir og því er glórulaust að ætla að byggja heilu kenningarnar á því, en við ætlum samt að reyna að gera okkur að fíflum bara fyrir ykkur.

Það kemur sér vel fyrir Lakers að næstu fimm leikir liðsins eru á heimavelli. Tveir fyrstu mjög vinnanlegir og svo slagur við San Antonio. Mike Brown þjálfari getur þakkað fyrir að þessi heimaleikjarispa er fram undan því Lakers er ekki í neinu standi til að fara á erfiða útivelli og vinna. Það sáum við í gær.

Það væri asnalegt ef Lakers myndi bara reka Mike Brown, en þrátt fyrir að stjórnin verði auðvitað að sýna honum þolinmæði, er óvíst að hann fái að tapa fullt af leikjum í haust. Það er einu sinni verið að berjast um sigur í Vesturdeildinni og sem stendur er liðið þar í neðsta sæti.

Allra augu beinast að Lakers þessa dagana og lið eins og Oklahoma og Miami elska hvað það dregur athyglina frá þeim. Sviðsljósið verður sterkara á Lakers en nokkru sinni fyrr meðan liðinu gegnur svona illa og það er stutt í að Los Angeles-miðlarnir fari að fá blóðbragð í munninn og tala illa um Mike Brown. Þannig er þetta bara í LA.

Og þá erum við ekki farin að tala um framtíðina hjá Lakers, þar sem risasamningur Kobe Bryant er efsta atriði á blaði. Skoðum það síðar.