Saturday, November 3, 2012
Krúttlegar Eldflaugar
Houston virðist bara ætla að verða með fínt lið í vetur ef marka má byrjunina.
Ekkert víst að sé að marka hana reyndar, en stuðningsmenn Rockets hljóta að vera spenntir.
"Harden á ekki eftir að skora 37 stig aftur" hefur einhver líklega sagt eftir fyrsta leikinn.
Það reyndist rétt, því hann spilaði einn sinn besta leik á ferlinum í nótt þegar hann skoraði 45 stig í sigri Houston á Atlanta Hawks. 45 stig úr aðeins 19 skotum utan af velli.
Dæmigerður ofur-ökónómískur leikur fyrir þessa verðandi stórstjörnu.
Harden fékk auðvitað alla athyglina, en Omer Asik hirti líka 19 fráköst í miðjunni og skoraði ekki eitt einasta stig, sem er harla undarlegt þar sem hann hirti jú 10 sóknarfráköst.
Þetta var í ellefta sinn frá upphafi þess háttar mælinga (1985) sem leikmaður í NBA hirðir svona mörg fráköst án þess að skora stig.
Dennis Rodman á sjö af þessum ellefu leikjum og afrekaði mest að hirða 28 fráköst í leik og vera stigalaus.
Jeremy Lin, sem blessunarlega fyrir hann er kominn í skuggann af skruminu eftir komu Harden, bauð upp á ljúfa 21/10/7 línu eins og ekkert hefði í skorist.
Við ætlum ekki að fara að hoppa upp á Houston-vagninn alveg strax, enda er nóg af vögnum þarna úti. Það er bara gaman þegar vel gengur.
Hérna fyrir ofan sérðu einstaklega fallegt skotkort Harden úr leiknum gegn Atlanta í nótt og neðst er tölfræðiskýrsla Rockets með sérstakri áherslu á bakvarðaparið Lin og Harden (smelltu til að stækka).
Efnisflokkar:
James Harden
,
Lin-vélin
,
Rockets