Saturday, November 3, 2012
Lakers gengur illa að vinna körfuboltaleiki
Það er of snemmt að fara að hakka Lakersliðið í sig þó það hafi tapað þriðja leiknum í röð í upphafi leiktíðar, nú síðast fyrir grönnum sínum í Clippers.
Þessi 0-3 byrjun liðsins er sú versta síðan árið áður en Magic Johnson kom til sögunnar og auðvitað gretta menn sig yfir svona byrjun - þetta er Los Angeles Lakers - við erum ekki að tala um Súluna á Stöðvarfirði.
Nei, það er ekki tímabært að kalla í aftökusveitina enn sem komið er, en það er allt í lagi að gagnrýna liðið. Við eigum til að mynda aldrei eftir að skilja þessa Princeton-sóknar áráttu.
Við, sem höfum mjög takmarkað vit á körfubolta, settum strax spurningamerki við þá ákvörðun Lakers að bæta við sig sóknarþjálfara og spila með þessum hætti.
Og þá erum við ekki farin að tala um þá staðreynd að bikarhillurnar hans Eddie Jordan eru nú ekki beint fullar, þó hugmyndafræðin sé góð og gild.
Sjálfsagt hefur það sína kosti fyrir Lakers að spila þennan sóknarleik, en þó ætti liðið jafnvel að vera eitt af þeim síðustu í deildinni til að reyna hann með jafn boltafreka bakverði og raun ber vitni.
Steve Nash, sem verður frá í nokkra daga vegna meiðsla, átti erfitt með sig í nótt þegar ESPN spurði hann hvort hann væri ekki frekar til í að stýra bara sóknarleiknum sjálfur líkt og hann gerði í Phoenix. "Ertu að reyna að koma mér í vandræði?" spurði hann Chris Broussard og glotti við tönn.
Auðvitað vill Nash prófa að djassa þetta aðeins upp ef illa gengur. Ekki eins og hann hafi farið fyrir mörgum lotterýliðum á ferlinum. Hefur nánast einn síns liðs haldið sóknarleik Phoenix á floti í nokkur ár.
Eins og áður sagði verða þessar róttæku breytingar (á aðferðafræði og mannskap) Lakers auðvitað að fá tíma til að virka, en það er ekki bara sóknarleikurinn sem er að hiksta.
Varnarleikurinn hefur á tíðum verið ömurlegur líka og jafnvel fleiri eru að tuða yfir honum.
Ekki að sjá að margfaldur varnarmaður ársins standi þarna inni í miðjunni og telji mönnum hughvarf með allar ferðaáætlanir sínar í teiginn.
Annað atriði sem hátt er orðið talað um er aldurinn og ástandið á lykilleikmönnum Lakers. Þeir eru á suman hátt dálítið gamlir og seinir og andstæðingarnir eiga eftir að nýta sér það með því að keyra á þá með aukinni grimmd og hraða.
Þetta er svona það helsta sem við erum að hugsa um Lakers. Við ætlum ekkert að ýta á neina neyðarhnappa. Þessar breytingar hja Lakers virðast bara ætla að taka mun lengri tíma en okkur grunaði. Engin ástæða til að fara í panikk, en Mike Brown þarf samt að fara að vinna körfuboltaleiki fljótlega.
Annars verður ástandið bara átakanlegt og þá gæti Buss-fjölskyldan hreinlega neyðst til að gera eitthvað róttækt í málunum. Hann áttar sig alveg á því.
En sjáum nú til. Þetta hlýtur að fara að lagast hjá þeim.
Efnisflokkar:
Áður en Þjóðverjarnir koma
,
Lakers
,
Mike Brown
,
Taphrinur