Sunday, November 4, 2012

Fastir liðir í Texas



Himininn er blár, vatn er blautt og San Antonio vinnur körfuboltaleiki. Þetta er heilagur sannleikur.

Lið Spurs var orðið gamalt fyrir fimm árum síðan en einhvern veginn heldur það alltaf áfram að vinna og vinna. Í sumar beindist athygli flestra í NBA að Los Angeles Lakers og þannig vilja þeir hafa þetta hjá Spurs. Forðast að vera í sviðsljósinu og þegar upp er staðið á vorin, situr liðið í toppsætinu.

Það er útlit fyrir að engin breyting verði á þessu. Manu Ginobili er að kljást við meiðsli eins og venjulega en að öðru leyti er sæmileg staða á mannskapnum. Það er mál manna að Tim Duncan sé sprækari en hann hafi verið í mörg ár, laus við megnið af meiðslunum sem hægt hafa á honum undanfarin misseri (miss-u-reah).

Við erum búin að ganga þessa götu svo oft en San Antonio fær okkur alltaf til að labba hana á ný. Það eru ágætis líkur á að Spurs verði með besta árangurinn í Vesturdeildinni enn eitt árið. Því ekki það?

Merkilegt hvað eitt lítið sumar getur skekkt sýn okkar á NBA landslagið.

Það eru ekkert rosalega margar vikur síðan San Antonio var að spila betur en nokkurt annað lið, en svo fékk það á lúðurinn frá Oklahoma eins og þið munið.

Við erum alltaf að spá því að nú sé Spursliðið orðið of gamalt til að vinna 60 leiki en það virðist bara ekkert vera á stefnuskránni hjá þessum gaurum að eldast.

San Antonio er með rútíneraðasta kjarna í deildinni og besta þjálfarann til að stýra skútunni. Reyndar gætu þeir allir tekið tússtöfluna þeir Duncan, Parker og Ginobili.

Já, allir tala um Lakers og nú síðast Oklahoma City eftir Harden-málið. Nokkrir pískra líka Clippers og Memphis og jafnvel Denver, þrátt fyrir slaka byrjun þar á bæ. Þetta eru meira spennandi lið, vissulega, en ekkert þeirra kann íþróttina betur en San Antonio.

Við lýstum því yfir fyrir c.a. 2-3 árum að San Antonio yrði ekki meistari aftur með þennan mannskap en okkur er alveg sama þó sú spá springi í andlitið á okkur. Við skulum nú samt klára að spila deildakeppnina áður en við förum að spá í úrslitakeppni aftur.

San Antonio er um það bil á pari við Oklahoma City og þessi lið ættu að verða í sérflokki í töflunni vestan megin í vetur, ekki ósvipað og síðast.